mánudagur, 23. ágúst 2010

Lúkas byrjar aftur í skólanum í næstu viku og þar sem hann er að fara í "Year 2" þá er tími kominn á nýjan skólabúning. Við erum að sjálfsögðu að passa upp á hvert penný og keyptum þessvegna ekki búninginn beint af skólanum í ár heldur fórum á laugardaginn í stórmarkað hér í Wrexham sem selur búninginn meira en helmingi ódýrari. Eftir smá stúss í bænum settumst við á kaffihús og slökuðum aðeins á. Sumarið hafði ákveðið að sýna sig aftur í nokkra tíma og það var voðalega næs að sitja í sólinni og horfa á Wrexham-búa trítla hjá. Þar á meðal ung stúlka með barn í kerru. Sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Nema að þar sem þau labba framhjá okkur segir barnið hátt og skýrt; "Mamma, mig langar í tyggjó!" Lúkas leit á pabba sinn og sagði honum að "these people are Iceland people." Dave fannst það ólíklegt og sagði að hér færu Pólverjar. En nei, ég var alveg viss um að þetta hafi verið íslenska og hljóp því á eftir stúlkunni og spurði. Og jú, hér er loksins komin Íslendingur til náms í Glyndwr háskóla í Wrexham. Við snarlega buðum þeim í sunnudagslærið hingað til Rhos. Og áttum góðan dag saman. Ég get vonandi aðstoðað hana við að koma sér vel fyrir hérna svo að hún verði sem lengst. Og mér datt í hug að það væri kannski bara vitleysa að vera að gæla við að flytja heim, það er svo miklu auðveldara fyrir mig að sem flestir flytji bara hingað. Þetta er frábær staður að búa á og verður alltaf betri.

Akkúrat núna sit ég uppi í svefnherbergi á meðan Safestyle UK setur upp hjá mér nýjar útidyrahurðir. Ég fékk frí í vinnu til að sjá um að þetta fari allt vel fram og ég hlakka voða til að sjá hvíta hurð inni í stofu í stað brúna plankans sem er þar núna. Ég hugsa að þetta geri stofuna léttari og ljósari yfirlitum. Svo þarf ég að fara að huga að ritgerðarsmíð frekar en bloggskriftum. Reyndar skemmtilegt efni sem ég er með í huga og ef hún kemur vel út þá hugsa ég að ég noti hana sem grunnhugmyndina fyrir masters-ritgerðina. Engu að síður. Þá langar mig ekki til að nota svona óvæntan frídag í lærdóm. Ég þarf svo líka að mæla mig alla og skrá niður. Héðan í frá ætla ég ekki að skrá kíló í mínus en setja frekar niður kíló í plús. Það er að segja kíló í plús sem ég get lyft. Og sentimetra sem hverfa. Matarplanið nýja er einfalt, ég er reyndar að reyna að sætta heilann í mér sem er skilyrtur til að skilja bara kalóríusvelti hvað ég má í alvörunni borða mikinn mat. Maður hefði haldið að maður yrði himinlifandi yfir fréttunum en neibb, ég er svo skemmd af áratuga áróðri um að skrapa af sér kalóríur að ég get ekki hætt að vera nett stressuð yfir að auka inntöku þeirra. Æfingarplanið er mikið og ég þarf að koma mér upp excel skjali til að halda skrá yfir hvað æfingu ég er að gera og hvað ég bæti í þyngdina en það er nú bara spennandi verkefni. Já, nú er sko gaman að vera til.

1 ummæli:

Harpa sagði...

Þetta er orðið svo magnað hérna hjá þér. Nú merkir maður við "Reactions." Ég hakaði í funny, bara af því að mér finnst þú svo fyndin. Ertu ekki annars búin að rekja garnirnar úr Íslendingnum, hvurra manna þau eru og alltaf eftir því? Það hlýtur að hafa komið ,,þekkirðu þá....?" amk einu sinni eða tvisvar??