þriðjudagur, 16. nóvember 2010

Það er þetta með morgunmatinn. Þegar ég var mestmegnis bara í léttu morgunhoppi þá var allt í lagi að fá mér bara vatn áður en ég byrjaði á skoppinu en núna þegar ég er að lyfta þungum járnum verð ég að borða morgunmat áður en ég byrja að hamast. En ég er sitjandi í lest klukkan 6:40 með stírurnar enn í augum og hálfvönkuð öll. Fyrir utan að vera ekki svöng. Og uppáhalds morgunmaturinn er hafragrautur. Hvað gera bændur í þessari stöðu? Jú, finna upp meðfærilegan hafragraut. Hafragraut sem má ferðast með, borða heitan eða kaldan og án þess að vera með skál og skeið. Þannig kom ég með haframúffurnar mínar. Í skál fara 150 g hafrar, 1 tsk lyftiduft, nokkrar rúsínur, góð slumma af kanil og öööööggulítið af salti. Í annarri skál mauka ég 1 banana saman við slurk af mjólk og tappa af vanilludropum. Svo er þessu öllu blandað vel saman áður en sett er í sílíkón muffins form. Ég sullaði líka smá sykurlausu karamellusýrópi ofan á til að búa til svona aðeins meira djúsí fílíng. Ofninn settur á 190 og bakað í svona hálftíma. Og voilá! 6 haframúffur tilbúnar. Þar með eru næstu 3 morgnar sorteraðir og hægt að borða hafragrautinn sinn og halda á honum í hendinni. Þannig að hægt er að borða hann og njóta þó maður sé svefngengill um borð í strætó eða lest. Þetta er nýja uppáhaldið mitt og alveg hrikalega gott. Hollt, gott og hentugt. Enn engar myndir. Voðalegt er þetta að vera myndavélalaus....

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú þekkir mig ekki en ég hef lesið síðuna þína í nokkurn tíma núna. Þú ert algjör snillingur, skynsöm og dugleg. Þú ert mjög hvetjandi. Ég ætla að prófa þessar kökur ;o) Kv. Ingibjörg