þriðjudagur, 21. desember 2010

Hvað ef...
Ég fnæsti út um þanda nasavængina og rétti úr mér með 55 kíló á herðunum. Taldi einn, tveir á leiðinni upp og einn á leiðinni niður aftur. Þetta er allt annað og erfiðara mál þegar það er búið að bæta inn tempóinu. Svo mikið erfiðara að ég er með harðsperrur allstaðarí dag, þar með talið í hárinu. Mér líður engu að síður eins og ég sé að þokast nær og nær því að lyfta af "alvöru" frekar en bara svona að gamni eins og ég hef verið að gera að undanförnu. Ég vildi að ég gæti skilgreint hvað mér finnst svona æðislegt við að lyfta, þetta er jú drulluerfitt, en ég fæ bara eitthvað alveg hrikalegt kikk útúr þessu. Ég þarf reyndar að einbeita mér aðeins meira að "líkamsþyngdar" æfingum eins og armbeygjum. Ég get ekki alvöru armbeygju til að bjarga lífinu. Mér datt líka í hug þar sem ég starði á formið mitt í speglinum að það er möguleiki að ég hafi farið á mis við glæstan feril sem lyftingakappi. Ekki veit ég hvort mér eða nokkrum öðrum hefði dottið í hug þegar ég var yngri að þetta væri eitthvað sem væri í boði fyrir mig en ég get ekki að því gert en að velta því fyrir mér. Ef ég hefði hreinlega vitað að þetta væri til sem íþrótt. Hvað þá að þetta er íþrótt fyrir konur sem skapar ekki endilega líkama sem er það sem maður myndi kalla Austur-Þýskan Kúluvarpara. Bara stælt og sterk með fallega vöðva sem er nýtanlegir í allskonar verkefni í daglega lífinu. Það skiptir sjálfsagt litlu máli að ég komi ekki til með að lyfta gullinu (aldrei hægt að segja að ég sé hógvær) fyrir Ísland á Ólympíupalli vegna þess að bara það að hafa uppgötvað lyftingarnar og að hafa komið þeim inn í lífið núna eru verðlaunin mín. Ég fæ hvort eð er örugglega Nóbelsverðlaun í megrun bráðlega.

2 ummæli:

ragganagli sagði...

Já tempóið gerir mann afar auðmjúkan. Alltof margir sem truntast bara í gegnum hreyfinguna og leyfa þyngdaraflinu að vinna hálfa lyftuna fyrir mann.

Harpa sagði...

Er ekki málið að skrá sig í sterkasta kona Íslands á næsta ári. Það er nýbúið að keppa um 2010 titilinn.

Luv
H