miðvikudagur, 1. desember 2010

Næstu tvær vikurnar verð ég teymistjóri í vinnunni. Það þýðir heilmikil undirbúningsvinna á hverjum degi til að gera allt tilbúið fyrir teymið og ég þarf að vera mætt rétt eftir sjö til að koma þessu öllu í verk. Fyrsta lest fer frá Wrexham til Chester rétt fyrir sjö þannig að morgunrækt er frá núna í bili. Mér er margt til lista lagt en að vera á tveimur stöðum í einu er meira að segja mér ofviði. Þá er ekkert annað en að leggjast í smá planlagningar og finna út hvað gera skal. Og ég reiknaði það út að með smá lagni gæti ég komið þessu við í hádegishlénu mínu. Sleppt röltinu. Ég gæti skotist á klóið rétt fyrir eitt og farið í íþróttahaldarann og bolinn. Farið í strillurnar við skrifborðið og hlaupið svo í ræktina. Ef ég svo hamast í 40 mínútur þá væru 15 aflögu til að fara í þriggja mínútu sturtu, tvær mínútur í að fara í fötin, ein mínúta í maskarann og ein í að setja hárið í tagl. Já, ég ætlaði að sleppa málningu og blástri til að geta lyft. Þetta er mér mikilvægara en að vera tilhöfð. Ég hrylli mig örlítið við þessu en er stolt líka. Og með þessu móti get ég bæði  unnið og æft og allt er eins og það á að vera. Og þetta gekk eftir. Ég tróð mér í haldarann, smeygði mér í strillur og rauk af stað. Smá skokk og ég nota það sem upphitun. Inn í klefa og í ljótu leggingsarnar og rauk svo inn í sal með grifflurnar á lofti. Og eru þá ekki þrír náungar að rúnka sér eitthvað við lóðin. Ekki að lyfta, nei, bara eitthvað að spjalla og maukast. Ég horfði á þá í smástund, væflaðist í kring, leit á klukkuna, reyndi að vera þolinmóð. Gafst svo upp og spurði hvort ég mætti ekki nota lóðin. Það var lítið mál en við hverja æfingu þurfti ég að ýta þeim í burtu. Hvað er þetta eiginlega með karlmenn og það að standa í kringum lóðin án þess að nota þau? Þarna hamaðist ég þar til ég varð fjólublá í framan og allan tíman störðu þeir á mig og klóruðu sér í pungnum  höfðinu. Ég gat ekki að því gert en að uppveðrast og reyndi að bæta í allar þyngdir, sýna þeim smá hvað ætti að gera við lóð. Þetta tókst því að lokum en krappt var það. Og ég maskaralaus í vinnunni eftir hádegi. Það er skrýtið að breyta svona rútínunni og ég efast ekki um að ég fari beint aftur í morgunsprikl þegar ég get en ég er líka hæstánægð með að ég komi þessu öllu að. Maður er víst aldrei of bissí til að hugsa um sjálfan sig.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég rakst á bloggið þitt - er allsendis ókunnug en hef ótrúlega gaman af því að lesa færslurnar þínar. Þú ert skemmtileg kona með veitir öðrum konum innblástur með dugnaðinum í þér. :o)

Ella Helga sagði...

Ég hló upphátt þegar ég las þessa snilldarinnar færslu!
Æðislegt! Ekkert... nema æðislegt.

Mikil fyrirmynd sem þú ert mín kæra. Glæsilegur árangur!

Ætla að fylgjast vel með þér :)