mánudagur, 27. desember 2010

Við Láki Jones á aðfangadagskvöld
Mikið sem jólin eru alltaf yndisleg, og það þrátt fyrir hor og slen. Ég var sæt og hress á aðfangadag, alveg þangað til ég var búin að fá mér að borða þegar veikindin helltust yfir mig aftur af fullum krafti. Ég fékk sem sagt einn disk af hamborgarhrygg með öllu en fékk mér engan graut eða konfekt. Svo versnaði ég bara allt kvöldið og fram á jóladag og þrátt fyrir að hafa farið til tengdó og fengið mér kalkún þá sleppti ég öllu öðru, lá bara hálfvönkuð í sófanum. Á annan í jólum var ég farin að hressast, þó ég væri enn með hita og að sjálfsögðu komin með frunsu á stærð við Kákasusfjöllin eins og vera ber. Ég var farin að finna bragð aftur og verð að viðurkenna að ég byrjaði að haga mér frekar illa í einhverskonar þrjósku- og mótmælaskyni við veikindin. Byrjaði daginn á því að borða nánast allan rjómagrautinn sem beið eftir mér inni í ísskáp. Í eftirrétt fékk ég mér svo hálfa dós af Makkintoss og skolaði niður með lítra af appelsíni. Þetta er allt saman fyrir klukkan 10 um morguninn. Svo var það kaldur hamborgarhryggur, ostar og kex, meira konfekt og ýmislegt fleira smálegt sem ég fann hingað og þangað um húsið. Ég er ekki reið, eða svekkt eða hissa, þetta er fullkomlega eðlileg hegðun fyrir mig þegar planið, þ.e. að borða vel og vandlega á aðfangadag, fór úrskeiðis. Ég ákvað að leyfa óstjórninni bara að taka yfir í þeirri fullvissu að ég gæti stoppað í dag. Vaknaði í morgun með heilagar fyrirætlanir og 3 kíló í plús (að hugsa með sér, ein máltíð og einn klikkaður dagur og ég þyngist um 3 kíló). Eftir ágætis morgunmat, 0% gríska og jarðaber og smá hnetur settist ég niður og byrjaði aftur að líða ill. Ég er enn fárveik. Og byrjaði að vorkenna sjálfri mér. Og áður en ég vissi af réðust á mig 5 konfektmolar og yfirbuguðu. Ég réð ekki neitt við neitt. En það þýðir ekki að dagurinn sé ónýtur, nú byrja ég bara upp á nýtt. Ég get ekki hreyft mig neitt í dag, ég er með of mikinn hita en ég GET stjórnað átinu. Koma svo kelling! 

Sko! Engin teygja!
Jólagjafirnar voru ekki af verri endanum í ár; brún há leðurstígvél sem eru ekki með teygju og baðvog sem segir frá fituprósentu. Ég hafði beðið um vigtina en maðurinn var engu að síður hálfvandræðalegur yfir gjöfinni. Fannst þetta vera svona smávegis eins og að gefa mér ryksugu eða viskustykki. En ég var hæstánægð með pakkann enda finnst mér nauðsyn að geta fylgst með fitunni núna. Það eru kannski ekki alveg nákvæm vísindi en nóg til að geta byrjað að fylgjast með fituprósentu fara niður á við. Nú þegar ég er að lyfta svona mikið og sentimetrarnir segja mér að ég sé að minnka og bæta á mig vöðvum þá vantar mig að fá verðlaun fyrir vinnuna af því að vigtin þokast niður á við mun hægar en ég sætti mig við. Þannig að þær vikur sem ég sé ekkert breytast á vigtinni væri gaman að sjá að fituprósentan hefur minnkað. Ég þori reyndar varla að tjékka á númerinu núna, eftir átið í gær er ég örugglega einungis samansett úr fitu og haldið saman með slettu af karamellusósu. Rækallinn sjálfur!

Engin ummæli: