sunnudagur, 20. mars 2011

Gulrótar-og rúsínukaka
Hann Láki minn er sjálfsagt besta barn í heimi. Ég og Dave vorum alveg út úr kú í gær, lágum eins og slytti hálfmókandi og sofandi mest allan daginn í gær og hann bara dúllaði sér sjálfur á milli þess sem hann kúrði hjá mér og strauk mér um hárið. En mér líður miklu betur í dag og ætla að bæta barninu sinnuleysið upp í dag með einhverjum skemmtilegheitum. Svo er náttúrulega alltaf voða gaman að sjá vigtina eftir veikindi, 88.4 kg, þó ég viti svosem að þessi tala stoppar ekki við lengi. Áður en ég fer út með Láka er tími til að hanna nýjan morgunmat. Enn er haframjöl aðalmálið enda er ekkert sem veitir mér meiri ánægju en hafrablanda einhverskonar. Í morgun var hugmyndin að búa til einhverskonar brauð eða köku sem hægt væri að borða í morgunmat. Þessvegna notaði ég spelt hveiti í bland við hafrana. Kryddið er enn kanill og salt og það hentar vel því bleytan kemur frá eplamauki, banana og gulrótum sem tóna allar vel við kanil. Fitan er alveg í lágmarki, bara matskeið af kókósolíu og eitt egg. Smá sætur keimur er nauðsynlegur til að fá kökubragðið í gang. 2 matskeiðar af sweet freedom og rúsínur og það er sorterað. Með einni sneið af hafraköku og eggjahvítupönnuköku er kominn fullkominn morgunmatur. Og ekki gleyma góðum kaffibolla. Mér fannst þetta alveg ferlega gott, eiginlega bara alveg eins og gulrótarkaka. Ég get nú samt svona nokkuð staðið við að hún sé holl, enginn sykur, hvítt hveiti eða smjör. Verð nú samt að viðurkenna að mér datt í hug að setja smá flórsykur út í rjómaost og smyrja ofan á til að fá fullkomna gulrótarköku, enda ekkert að því að fá sér smá gúmmelað einu sinni í viku. En líka alger óþarfi ef í því er pælt. Svo verður líka að hafa í huga að ég er enn með hrikalegt kvef og bragðlaukarnir hálfskrýtnir. Kakan gæti hafa verið ferlega vond og ég bara ekki fattað það. Uppskriftin er á uppskriftasíðunni. (er það ekki voðalega tæknilegt?)

4 ummæli:

Kristín Guðbrandsdóttir sagði...

Elska þessa uppskriftasíðu hjá þér. Þvílík snilld.

Sigrún Ingveldur sagði...

Mæli með þessu kremi:
http://cafesigrun.com/gulrotarkaka-med-kremi
hjá henni Café Sigrúnu. Kom mér stórkostlega á óvart hvað það var líkt rjómaostakreminu sem er á alvöru gulrótaköku. Veit samt ekki hvort þú færð e-ð sem er eins og skyr þar sem þú ert.

Kv. Ein sem kíkir reglulega á síðuna

Nafnlaus sagði...

Hæ, það er til eitthvað í UK sem heitir fromage frais (ekki alveg viss hvernig skrifast). Notað sem skyr á minu heimili. Það hefur mjög svipaða áferð og skyr og best af öllu þá er það hér um bil fitulaust.
Kv. Kristín

murta sagði...

Kristín, 0% gríska jógúrtið frá Fage (fæst í asda, tesco og sainsbury´s) er alveg eins á bragðið og skyr og er alveg fitulaust :) Ég lifi á því, nota sem sýrðan rjóma á chili, sem jógúrt, sem rjóma ofan á ávexti og kökur, sem mjólkurvöru í bakstur, hrært með hnetusmjöri í kvöldsnarl, hvað sem er :)