miðvikudagur, 13. apríl 2011

Ég ímynda mér að ef ég hefði verið sneidd í tvennt fyrir nokkru síðan þá hefði mátt sjá spikhringi svona líkt og árhringi í tré. Yst væri lag af hvítri, mjúkri kex-og sykurfitu héðan frá Wales. Svo væru inn á milli dekkri, þéttari lög búin til úr Nóa kroppi, lakkrís og ís með dýfu. Svo væri freyðandi lag af bjórspiki frá Belgíu og stamt og þykkt lag af djúpsteiktu spiki frá Bandaríkjunum. Eitt og eitt lag væri svo kremað tómatsósuspik. Innst, allra innst er svo lag af spiki sem hefur verið með mér frá því að ég var sex ára. Þetta spik hefur séð ýmislegt um dagana, stundum hefur verið vegið nærri því og það aðeins mýkst upp en svo hefur það náð yfirtökunum aftur og við hverja svona atlögu verður það harðara og sterkara af sér. Ég sé þetta fyrir mér eins og þykkt lag af hamsatólg sem hefur verið hert með frystikremi. Algerlega ógerningur að ná þessu af sér. En núna, loksins núna finnst mér eins og það sé eitthvað að gerast. Það er að mýkjast upp og linast. Og eftir 30 ár er líka kominn tími til að bræða tólgina. Ekki seinna vænna.

"Adidas. Sérstaklega fyrir fitubollur"
Og ekki er amalegt að gera það í adidas hlaupabuxum. Ég varð nú bara hissa á hvað það var mikill munur að hlaupa í þeim. Lærin bara liðuðust hjá hvort öðru, engin fyrirstaða. Þær halda vel að þannig að það er lítill hristingur í gangi. Hnésbæturnar eru úr þynnra netefni og gera hreyfinguna auðveldari. Svo eru rennilásar á ökklum svo það er ekkert mál að fara í og úr. Og svo má að sjálfsögðu ekki gleyma andlegu hliðinni. Það að vera í alvöru buxum, úti að hlaupa þýddi að ég spítti í, var meðvituð um form og hreyfinguna alla af því að mig langaði til að passa við buxurnar. Langaði til að líta út eins og hlaupari. Og mér finnst eiginlega að adidas ættu bara að hafa samband við mig og fara af stað með auglýsingaherferð. Ég gæti verið líkami "venjulega" fólksins; "og sjá! ef þessi getur það, þá geta þetta allir. Í adidas." eða eitthvað á þá leið.  Mér bara svona dettur það í hug.

9 ummæli:

Unknown sagði...

Djöfull ertu flott í buxunum....og/eða buxurnar flottar á þér.
Skemmtileg pæling með árhringina. Þeir eru örugglega á okkur öllum. Garðurinn, stígurinn, slátturinn?? Eigum við að skreppa og redda þesssu??? (Djók)

Guðrún sagði...

Það er eins gott að muna hvaða tölvu maður er að nota. Ég, mamma skamma, á kommentið hér að ofan. Bara svo það sé á hreinu.

Guðrún sagði...

Viltu að ég tali við þá hjá Addidas? Það er verst að þeir mundu græða meira en þú á auglýsingaherferðinni. Þú mundir slá svo gjörsamlega í gegn. (Ég er auðvitað ekki hlutlaus en samt...)

Inga Lilý sagði...

Úúúú komin í draumabuxurnar mínar (þó að ég sé nú hálfgerð Nike hó**). Ég fer bráðum og splæsi í einar svona og sendi þér svo mynd! :p

Verst að vera með hálfan hnöttinn á milli, annars gætum við nú smellt okkur saman út að skokka! :)

ragganagli sagði...

Glæsileg ertu í brókunum... algjör tútta. Maður hleypur hraðar (allavega í hausnum) með svona græju reyrða utan um lærin.

Er búin að hlægja mikið að spikhringja analógíunni.. þú ert dásamleg. Elska fólk sem tekur sjálft sig ekki of hátíðlega.

Magga Th. sagði...

Mér finnst þessi spikhringja analógía minna á atriði úr Sweeney Todd....sérstaklega þetta með kremaða tómatsósuspikið...dásamlegt.
En þessar buxur, ég er hætt að reyna að skokka í mínum regular nike leikfiminbuxum, þessi lýsing á lærafílingnum seldi mér alveg 2 pör....

murta sagði...

Inga Lilý, við verðum bara að taka svona virtual hlaup!

Magga, sem áhugamaður um læranúning (sem betur fer ekki daglegt vandamál lengur) þá get ég vottað fyrir þessar gammósíur, svínvirka! Verst hvað þetta dót er allt hrikalega dýrt.

Ragga mín, ef maður hlær ekki að sjálfum sér þá væri maður sjálfsagt grenjandi :)

Nafnlaus sagði...

Ég skora á þig að skrifa bók!! Bridget Jones hvað???
kveðja
Alda

Líney sagði...

Líney gömul vinkona mömmu þinnar og pabba, til hamingju með þetta, þetta er alveg frábært hjá þér. Ætla að nota eitthvað af uppskriftunum þínum á heima hjá mér, taka mig og Kidda í gegn.
Kveðja Líney