miðvikudagur, 20. apríl 2011

Þegar páskar nálgast fyllast allar hillur í verslunum hér í Bretlandi af súkkulaði. Súkkulaði í kanínumynd, egglaga súkkulaði, súkkulaði með slaufum, súkkulaði í pakka, súkkulaði í bakka, súkkulaði, súkkulaði, súkkulaði. Ég hef lítið látið það fara í taugarnar á mér, það er bara orðið að svona bakgrunnssuði. White noise. Þangað til í dag. Það hlaut að þvi að koma. Eftir tvær og hálfa viku í svínandi gangi og svo allt í einu í kvöld tók ég eftir Cadbury´s Mini Eggs. Fyrir utan að vera voða góð á bragðið, súkkulaðifylltar sykurskeljar, þá eru þau svo ofboðslega falleg. Á stærð við vínber, mött á áferð og í daufum pastellitum með litlum flekkjum. Í glærri skál á borði verða þau páskaskraut alveg án nokkurrar fyrirhafnar. Og þar sem ég stóð í biðröð í Co-Opinu og beið eftir að borga fyrir tannkremið fylltist ég ægilegri sorg. Ég get ekki lýst tilfinningunni öðruvísi en þannig. Ég horfði á pokann í hillunni og hugsaði hvað eggin væru falleg í skál á borðinu og svo hvað það er mikill óþarfi að kaupa þau því ég ætla ekki að borða og það væri of hættulegt að reyna að hafa þau bara sem skraut. Og ég varð svo sorgmædd. Sorgmædd yfir því að treysta sjálfri mér ekki fyrir smá súkkulaði. Sorgmædd yfir því að þurfa að velta þessu fyrir mér yfir höfuð. Sorgmædd yfir því að fá ekki bara borða helvitis eggin. Sorgmædd yfir því að vera ég.  Svo varð ég sorgmædd yfir því að vera sorgmædd því mér finnst að það færi mig fjær frá jafnvæginu sem ég er alltaf að reyna að finna. Ég fæ mér ekki Mini Egg, því ég veit að það er ekki lausnin. En ég ætla heldur ekki að grafa eftir bjartsýnisröndinni minni alveg strax, ég ætla að velta mér aðeins upp úr dramtíkinni. Stundum þarf maður bara að vera svekktur um stund.

6 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Ég skil vel að þú viljir vera leið í smástund en mér finnst engin ástæða fyrir þig að vera sorgmædd. Ef ég væri þú þá væri ég ofurstolt af því að hafa ekki hlustað á röddina sem sagði "ég ætla baaara að hafa þetta sem skraut í skál" og keypt poka (sem hefði svo kannski endað í mallakútnum þínum). Þú mátt vera svo stolt af því að vera svona skynsöm og dugleg.

Vildi að ég hefði brotabrot af þínum viljastyrk eins og er. Ég er súkkulaðihúðuð og rauðvínslegin eins og er og nenni ómögulega að gera nokkuð í því. Kannski ég fari að taka mér þig til fyrirmyndar og reyni að grafa upp skynsemisröddina í staðinn fyrir að hlusta á kæruleysisröddina alltaf!

Þú ert algerlega hetjan mín og ég elska að lesa bloggið þitt og reyni að fá smá innblástur frá þér.

Áfram þú! :)

murta sagði...

Hmmm já, sko þetta er svo skrýtið en það kom aldrei til greina sem valmöguleiki að kaupa og borða eggin. Eins og það sé bara ekki með í myndinni lengur. Ég get ekki einu sinni kallað það viljastyrk. Ég held að þetta sé svona smá söknuður eftir gömlu mér. Ég er að kveðja manneskju sem ég er ekki lengur. Og stundum sakna ég hennar bara smá.

Guðrún sagði...

Ég skil ofurvel þetta með sorgina. Ég varð svona sorgmædd þegar ég hætti að drekka kaffi. Fyrstu þrjá dagana var ég með hausverk en þegar hann var liðin hjá horfði ég á kaffikönnuna í vinnunni og fylltist óumræðanlegri sorg. Mér fannst ég hafa misst vin, svo......ég byrjaði bara að drekka kaffi aftur.

Steina sagði...

Heyrðu.... og hæ.... þegar ég las þessa páskafærslu þá mundi ég eftir að ég er örugglega búin að laumupúkast hér á blogginu þínu í örugglega ár, dást að skrifum þínum, eljusemi og árangri.

Mig langaði bara að segja þér að þú ert frábær fyrirmynd og mig langar alveg svakalega að taka þig mér til fyrirmyndar. Ég er að byrja eina ferðina enn niður á við, nú reyndar með aðeins öðru sniði en áður en verður þá kannski til þess að ég fer ekki upp aftur eins og eftir hin tvö skiptin.

En mig langaði bara að segja hæ.... og hitt líka ;)

murta sagði...

Takk fyrir Steina mín, og mínar bestu kveðjur. Og gott að heyra að þú sért að prófa nýja aðferð, fyrir mína parta virkaði það best að skoða allt sem ég hafði gert áður; og gera svo öfugt við það :)

Hulda sagði...

já helvítis súkkulaði...þetta er allsstaðar!Nýtt þetta, nýtt hitt og allt í súkkulaðihjúp...hrikalega erfitt að standast þetta! For í hagkaup í gær og mig langaði hreinlega í allt sem var í hillunum...jah allavega allt sem hjúpað er í súkkulaði ;). Skil þig vel með eggin...þau eru ægilega falleg!