þriðjudagur, 19. apríl 2011

Velskir námumenn.
Þegar ég kemst ekki að niðurstöðu um vangaveltur mínar með því að skrifa þá hjálpar voðalega mikið að tala um það sem ég er að hugsa. Ég lagði því fyrir hann Dave minn þetta með staðgöngunammið og hvort það sé sykursvindl eða eðlileg mannleg hegðun. Hann lagði margt sniðugt og áhugavert í púkkið og við komumst helst að þessari niðurstöðu. Frá unga aldri hef ég (og örugglega milljón aðrir eins og ég) sett samasem merki á milli "eitthvað gott í munninn" og "samviskubit, slæmt, svindl, refsa sjálfum sér". Það samasem merki er rosalega erfitt að fjarlægja úr hugsun og hegðun þó svo að "eitthvað gott" sé núna nánast hollustufæði. En það að skilyrða nýja hegðun í að skilja að "eitthvað gott" kallar ekki átómatískt á refsingu er skref í átt að því að lifa lífinu af heilindum og jafnvægi og er algert grundvallaratriði. Afi hans Dave (og um stund pabbi hans) fór ofan í námu klukkan fimm á morgnana og vann þar harða, líkamlega vinnu við að ná upp kolum úr jörðinni. Þetta gerði hann sex daga vikunar á meðan konan hans labbaði á milli bakara og slátrara til að ná í matinn, þvoði þvott í höndunum, gróf upp kartöflur og skrúbbaði gólfin á hnjánum. Ég, hinsvegar, sit á rassgatinu á mjúkum skrifstofustól fyrir framan tölvu allan daginn. Svo panta ég matinn á netinu og fæ sendann heim. Það er þessvegna engin spurning um að ég þarf að finna mér "staðgöngu hreyfingu" til að bæta upp fyrir kalóríurnar sem ég brenni ekki í vinnunni eða við heimilisstörf öfugt við fólkið sem bjó í Wales fyrir 2 kynslóðum. Þetta fólk þurfti ekki á því að halda að mæta í ræktina, en ég aftur á móti verð að gera það. Ræktin er mín "staðgöngu náma." Á sama hátt hef ég fundið "staðgöngu mat" fyrir flest sem ég borða dags daglega. Ég hef skipt út flestu sem ég borðaði áður fyrir hollari útgáfu. Ekki er ég að velta því neitt fyrir mér. Hvers vegna er þá eitthvað óeðlilegt eða refsivert við það að skipta út nammi fyrir hollari útgáfu? Er í alvöru eitthvað að því að fá stundum "eitthvað gott"? Svarið er nei, það er bara ekki rassgat neitt að því að fá sér eitthvað gott og það er svo sannarlega ekki refsivert. Og það er mergurinn málsins og er það sem ég þarf að "lækna", ekki sykurfíknin. Hana hef ég í stálgreipum járnviljans sem ég bý yfir núna. Ég ætla að lækna þennan hugsunarhátt minn sem segir mér að ég sé að gera eitthvað rangt þegar ég fæ mér að borða. Anda, borða, kúka. Það er listin að lifa. (Dónadúettinn, 1991).

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hahaha ...alltaf jafn skemmtilegar pælingar :-) Ég er búin að vera að elda úr uppskriftunum þínum núna undanfarið og mamma mía mmmmmh! Hlakka þvílíkt til að hitta ykkur í maí.
Knús og kiss,
Ólína og co

Helga sagði...

Mér finnst allar þínar pælingar og hugsanir algjörlega frábærar! Sem anorexíu á batavegi er svo margt sem ég get nýtt mér til að ná betri bata!
Þínar pælingar fá mann til að hugsa betur um eðlilega matarhegðun og svo finnst mér svo dásamlegt að fylgjast með þér og þínum frábæra árangri!

Þú ert einfaldlega frábær fyrirmynd!
Keep it up :)

murta sagði...

Sömuleiðis Lína, get ekki beðið!

Takk Helga mín, mér þykir nú aldeilis um að heyra "frá hinni hliðinni" :) Ég roðna bara við hrósið :)

Knús,