Vika tvö í sykursætu skapi og allt gengur bara tickety boo. Ég er meira að segja hálf svekkt yfir þessu. Mig langar ekkert í nammi eða kökur. Nei, ég lýg því, auðvitað langar mig í nammi og kökur en það er svona daufur undirtónn af löngun nákvæmlega eins og mig langar alltaf smávegis í sígó. En ég er ekki reykingamanneskja lengur og þessvegna fæ ég mér ekki að reykja. Mér finnst eins og þetta nammileysi mitt sé alveg eins. Ég er manneskja sem ekki borðar nammi og þessvegna fæ ég mér ekki nammi. Málið er bara að ég bjóst við dramatík. Ég bjóst við líkamlegri vanlíðan og fráhvarfseinkennum. Ég bjóst við stórkostlegum uppgötvunum um sjálfa mig og gífurlega sársaukafullri, en á endanum jákvæðri, naflaskoðun. Ég bjóst við.... einhverju. En ég bjóst ekki við þessu. Ég sakna einskis. Ég er ekki óþreyjufull, æst eða með neina vanlíðan. Þetta er svo mikið anti-klimax. Mig langar næstum að fá mér snickers bara svona til að skapa smá vandamál sem ég get svo ráðið að niðurlögum. Skoðum þetta aðeins nánar.
|
Fruit ´n nuts, homestyle. |
Ég bakaði voðalega djúsí morgunverðarkökur á sunnudagsmorgun, þær innihalda smávegis hlynsýróp en að öðru leyti bara efni sem eru heilbrigð og hraust. Ekki get ég kallað það svindl, enginn sykur þar. Ég bjó líka til nýtt nammi. Ég er smávegis tvístíga með það. Ég keypti hreint súkkulaði. Sykurlaust að sjálfsögðu og ég er ekki að tala um súkkulaði fyrir sykursjúka sem oftast inniheldur gervisykur. Nei, ég er að tala um svart, hreint súkkulaði, eins og það kemur af kúnni. Enginn sykur þar. Súkkulaðið bræddi ég niður og mótaði í plötu, þar ofan á dreifði ég svo apríkósubitum, þurrkuðum trönuberjum og salthnetum. Vafaatriðið hér er ekki hvort ég sé að borða sykur, það er enginn hvítur sykur þannig að það er ekki vandamálið, vandamálið er hvort svindlið felist í því að ég er að borða nammi. Sykurlaust eða ekki, þá er ég greinilega enn með einhverskonar þörf sem þarf að fullnægja. Ég get ekki látið sunnudag bara hjá líða án þess að fá mér "staðgöngu nammi". Er ég sátt við það? Skiptir það einhverju máli ef ég er ekki að borða sykur? Eða á ég að vera að reyna að "lækna" bæði alvöru sykurfíkn og staðgöngufíknina? Ég held nefnilega ekki að þetta sé sykurþörf. Þetta er meira svona "ég á eitthvað gott skilið" þörf. Ég þarf aðeins að velta þessu fyrir mér.
Líkamlega hef ég tekið eftir smávegis jákvæðum breytingum. Efri maginn (hugsa með sér græðgina; ég er með TVO maga!) er að skreppa saman. Hann hefur valdið mér miklu hugarangri að undanförnu. Ég man að hafa hugsað þegar ég var sem feitust að ef ég gæti bara losnað við vængina mína (bakspikið) þá væri ég ánægð því þá liti ég "eðlilegar" út. Núna eru vængirnir farnir en efri maginn er það sem mér finnst núna vera það sem gerir mig feita. En eins og vísindin spáðu fyrir þá virðist minni sykurneysla vera að hafa áhrif á spikið um mig miðja því efri magi virkar aðeins nettari um sig. En hafa verður að sjálfsögðu í huga að þetta gæti hafa gerst hvort eð er því ég er jú, alltaf í örlítilli hitaeininingaþurrð og æfi af kappi. Kjálkalínan er líka skarpari. En ég gæti líka bara verið að ímynda mér það.
Þetta er allt jákvætt og skemmtilegt og mikið af áhugaverðum pælingum sem upp úr þessu hafa sprottið. Og ég hlakka til að sjá hvað gerist í páskavikunni. Hér er nefnilega til uppi í skáp risastórt Nóa Síríus páskaegg. Sem mig langar ekkert í.
2 ummæli:
Sem betur fer langar þig ekkert í páskaeggið því það var sko stílað á Lúkas Þorlák Jones c/o Dave. Þú ert, Dabbilóin mín, hvergi nefnd á nafn. Ömmur mega gefa ömmubörnunum sínum páskaegg í friði. Ef Lúkas ræður ekki við allt súkkulaðið, vona ég að það lendi bara í ruslinu því Nói/Síríus kemur út í skoðanakönnunum sem það allra versta hvað sykurinnihald varðar.
Hmmm, já auðvitað tókstu eftir þessum vinkli; Láki á auðvitað eggið. Ég veit bara af fenginni reynslu að hann skilur meira en helming eftir og það verður spennandi að sjá mig setja íslenskt nammi í ruslið. Og auðvitað eiga ömmur að gefa páskaegg; annað væri nú!
Skrifa ummæli