sunnudagur, 17. apríl 2011

Þetta hlýtur allt að vera eitthvað rugl og misskilningur, ég var 86.9 kíló núna í morgun. Ég get ekki verið svona létt, það er bara ekki ég. Ég stend hérna og klóra mér í hausnum í einskærri forundran. Hvernig bara stendur á þessu? Ég borða fullt af góðum mat, ég er aldrei svöng eða óhamingjusöm, ég þarf ekkert að "berjast" þessa stundina, og samt léttist ég? Ég er svo hissa. Ég er alveg að komast á það stig þar sem ég þarf að fara að endurmeta hvernig ég sé sjálfa mig. Manneskja sem er er 169 sentimetrar á hæð, með vöðva sem má hnykla og sterklega beinabyggingu er alls ekki spiiiiiiikkfeit þegar hún vegur 86.9 kíló. Eða svo hefði ég sagt þegar ég var 126 kíló. En núna? Er ég spiiiiiikfeit? Ég held ég þurfi að skoða það mál betur.

Best ég hugsi málið á meðan að ég borða morgunmat frá himnaríki; nýju hnetusmjörssmákökurnar mínar. Ekki alveg óhollar, það má margt gott segja um hnetusmjör, haframjöl, egg, gríska jógúrt og apríkósur. En það má líka minna sjálfan sig á að í öllu þessu eru kalóríur og leikurinn snýst um kalóríur inn, og kalóríur út. En það er sunnudagur, og á sunnudögum fæ ég góðan kaffibolla, tímarit og aðeins meiri djúsí morgunmat en alla hina dagana. Nóg eru þeir nú reyndar djúsí á virkum dögum líka!

Smákökur í morgunsárið.
1 bolli haframjöl
1/2 bolli heilhveiti
1 tsk matarsódi
1/2 bolli gróft, hreint hnetusmjör
2 mtsk hlynsýróp
1 egg
1/2 bolli grísk jógúrt (með fitu)
1 tsk vanilludropar
tæpur 1/2  bolli niðurskornar þurrkaðar apríkósur

Allt blautt kremað saman, aprikósur settar út í hveiti og velt aðeins um. Allt þurrt sett út í blautt og blandað saman. Sett með matskeið á bökunarpappírsþakta plötu og inn í 180 -190 heitan ofn í svona 25 mín eða þar til gullnar og bakaðar í gegn. Gerir 15 kökur (5 morgunmatar).

4 ummæli:

ragganagli sagði...

Svona er þetta í heimi Naglans mín kæra... sættu þig við það... þarft að borða fullt af góðum mat, sætta þig við flottan bísepp og kúlurass en það versta er að þú þarft að burðast með þennan árangur lengi lengi.

murta sagði...

Haha Ragga, ég hlýt að venjast að vera svona glæst á velli fyrr en síðar! :)

Inga Lilý sagði...

Þú ert svo ofurdugleg, í hreyfingu, hugsunarhætti og því sem ég dáist mest að; mataræði og eldhúshæfileikum!! Vildi að ég hefði hálfa "nennu" á við þig, þá kannski væri mataræðið aðeins betra.

Og nei, stelpa sem er 169 cm er sko ekki spiiiikfeit 86.9 kg. Ég þekki samt þessa hugsun þar sem ég er 177 cm og 83-84 kg og mér finnst ég enn vera spiiiikfeit. Þyngd sem ég var búin að dreyma um í ca 6 ár og svo þegar maður nær henni er maður ekki sáttur!

Alltaf vill maður meira og ég stefni nú á 75-77 kg og því skal ég ná á þessu ári. En það sem er meira virði, ég skal ná að hlaupa hálfmaraþon og það finnst mér alveg assgoti merkilegt :)

Hulda sagði...

Geggjað :D. Jeminn hvað ég hlakka til að knúsa þig í maí frænka :D