miðvikudagur, 6. apríl 2011

Það eru örugglega ekki margir sem mótmæla ef ég segi að sykur sé rót alls ills. (Nema kannski sykurreyrbændur á Kúbu, en ég get bara ekki þóknast öllum!) Eitthvað hlýtur það að segja okkur að á sama tíma og "low fat" matur fór að sjást í hillum verslana þá virðumst við sem þjóðfélag hafa fitnað. Mér sýnist það helst vera vegna þess að maður fitnar ekki af fitu, heldur af sykrinum sem hefur verið settur í matinn til að bæta fituleysið. Það er lítill vafi á að sykur er fíkniefni sem er gífurlega ávanabindandi. Það má vera að fíknin sé mismunandi hjá mismundandi fólki, svona alveg eins og sumir geta fengið sér rauðvínsglas á hverju kvöldi án þess að eiga við áfengisvandamál að stríða en sumir þefa af rakspíra og eru orðnir blússandi alkar. Þannig geta sumir sem ég þekki fengið sér jafnvel hálft súkkulaðistykki og lagt það svo frá sér án þess að velta því eitthvað frekar fyrir sér. Ég, aftur á móti, man ekki eftir mér öðruvísi en í stanslausri leit eftir næsta skammti. Ef það er nammiskál á borðinu og ég fæ einn mola þá get ég ekki á mér heilli tekið fyrr en skálin er búin. Ég fyllist angistarkvíða og örvæntingu á milli bita ef ég reyni að borða hægar og þegar skálin er búin getur það tekið mig langan tíma, jafnvel daga eða vikur, að jafna mig á fráhvarfseinkennum. Ef þetta er ekki fíkn þá veit ég hver skilgreiningin væri. Hingað til hefur það gengið vel hjá mér að fá mér smávegis sykur um helgar. Ég trúi nefnilega staðfastlega á að það eigi að njóta alls í hófi. Ég á voðalega erfitt með öfga hverskonar, hvort sem það eru skoðanir eða hegðun. Ég er eiginlega öfgafullt á móti öfgum. En þegar ég hugsa um hvernig ég er í hegðun minni gagnvart sykri þá efast ég stundum um að ég sé hæf til að borða hann í hófi. Ef ég er fíkill verð ég ekki að gera það sem það eina sem virkar á alka og dópista; gefa eiturlyfið algerlega upp á bátinn? Ég er búin að vera að velta þessu rosalega mikið fyrir mér. Ef ég gæti hætt að borða sykur myndi ég smá saman finna fyrir sama frelsinu og mér finnst ég hafa öðlast við að hætta að reykja? Og hversu langt á ég að ganga? Á ég bara að segja að nammi og kökur séu ekki í lagi eða á ég að ganga svo langt að ég hætti að borða ávexti líka? Hvítt hveiti? Á ég að gera greinarmun á frúktósa, glúkósa og laktósa? Hvað með öðruvisi sætuefni eins og hlynsýróp og hunang? (á agave sýrópi snerti ég ekki) Þó næringarfræðilega séð séu þessi efni aðeins skárri en hvítur sykur þá eru þau samt líka sykur. Og hvað með gervisætur? Er það þá í lagi í staðinn? Og er ég núna orðin öfgakennd?

Ég tók því ákvörðun. Sem ég get lifað með og samræmist skoðanaleysi mínu og því prinsipp atriði að taka aldrei afstöðu til neins.  Í apríl ætla ég ekki að borða venjulegt nammi. Ég ætla að taka út alla vöru sem hefur meira en 4 grömm af sykri í hverjum 100. Ég ætla að sleppa rúsínum. Ég ætla að leyfa örlitið hlynsýróp en helst að reyna að sleppa því. Ég vil helst reyna að sleppa gervisætunni því ég trúi því að þrátt fyrir að spara mér kalóríur þá hafi sætubragðið sálræn áhrif á mig sem láta mig langa í sykur. Og þegar ég skoða þessa áætlun er ég nokkuð ánægð með hana. Ég borða hvort eð er nánast enga unna vöru þannig að ég get auðveldlega forðast 4 grömm plús mat. Ein og ein bolognese sósudós sem ég þarf að skoða. Rúsínurnar verða smá tricky enda eru þær það sem gera múffurnar mínar sætar, en ég ætla að prófa þurrkaðar apríkósur í staðinn. Nammið. Ef ég get ekki lifað 4 sunnudaga án þess að fá mér snickers þá þarf ég hvort eð er að skoða sjálfa mig og hvert ég er að fara með þetta nýja líf mitt. Ég er ekki að segja að ég ætli ekki að fá mér eitthvað djúsí, en það verður bara aðeins öðruvísi en vanalega. Og sjáum svo hvað setur. Þetta er tilraun sem er þess virði að leggja í.

8 ummæli:

Helga sagði...

Rosalega lýst mér vel á þetta plan hjá þér!
Flott að prófa og sjá hver ávinningurin verðu! Bætt líðan? Fleiri kíló niður á við? eða hvað svosem það verður :)

Hlakka til að fylgjast með þér ... ég kem hér inn daglega og þetta er orðið mitt uppáhaldsblogg!! :)

Inga Lilý sagði...

Glæsilegt hjá þér, þú massar þetta eins og allt annað. Ég byrjaði á því sama í mars en allt fór úr skorðum við jarðskjálftann. Ég þarf að reyna þetta aftur en er ekki aaaalveg tilbúin til þess núna. Of stutt í páskana og ég bara get ekki sleppt páskaeggi þá.

Hlakka til að sjá undrin sem gerast á vigtinni hjá þér í þessum mánuði.

Og ég er alveg sammála með öfgarnar, been there, done that. Kalla þetta þó ekki öfgar heldur bara gott challenge, maður þarf alltaf að skora á sjálfan sig öðru hvoru til að sjá úr hverju maður er gerður.

Sigrún sagði...

Langar að spyrja þig afhverju þú snertir ekki á agavesírópinu?
Mæli með apríkósunum, nota þær í allan bakstur sem á að hafa rúsínur og finnst það æði.

Magga Th. sagði...

Hm..líst vel á. Þetta er mjög vel ígrunduð og meðvituð ákvörðun sem þú hefur tekið þarna...ég er líka þessi dásamlegi fíkill sem lætur skálina á borðinu ekki vera fyrr en hún er búin. Fyrsti bitinn leiðir alltaf af sér annan, svo ég reyni bara að byrja ekki.....gengur stundum. Hlakka til að fylgjast með þér.

Nafnlaus sagði...

Alltaf gaman að kíkja við hjá þér og "sjá" í gegnum línurnar eldmóðinn, áhugan og orkuna. smitar mann algerlega :) Og svo margar góðar hugmyndir .. fyrir utan hvað þú ert fyndinn! :)

Gangi þér vel ..

Ásta (baráttan, sem er að hefjast á ný)

Hanna sagði...

Mér finnst vanta svona "ánægð með þig" og "frábært" takka hér fyrir neðan. Myndi alltaf haka í þá! :)

Nafnlaus sagði...

Les pistlana þína alltaf og ELSKA það!!! Sykurinn er minn djöfull að draga líka og ég bíð spennt á kanntinum að sjá hvernig til tekst. You ROCK!

murta sagði...

Takk fyrir allar saman, þetta er (enn) ekkert mál, enda ekki vön að borða sykur á virkum dögum. Sjáum hvað gerist um helgina :)

Gott að heyra í þér Ásta, hlakka til að heyra meira um hvernig gengur. Upp, upp allt mitt geð.