mánudagur, 4. apríl 2011

Salat færir helst í hugann megrun, afneitun og leiðindi hjá vel flestum. Svo var það hjá mér líka lengi vel, enda bjó ég til salat sem samanstóð af iceberg káli, tómati og gúrku. Er nema von að salat hafi fyllt mig örvæntingu og þunglyndi? En svo lærði ég smá saman að "byggja" salat og þó það sé kannski ekki hægt að kalla það reglur sem ég fylgi þá er þetta ágætis viðmið til að hafa í huga við sköpunina.

1. Undirstaðan; Grænmeti.
Ég byrja á að velj undirstöðuna og þó mér finnist iceberg bara alveg ágætt þá er voðalega gaman að nota spínat, rocket, lollorosso, little gem eða eitthvað af þeim milljón mismundandi blaðkálstegundum sem finnast núna. Svo bæti ég hér við því grænmeti sem er til eða mér dettur í hug, rifnar gulrætur, rifið hvitkál, courgette í strimlum, sveppir, tómatar, gúrku, radísur, rauðbeður, paprika o.s.frv.

2. Aðalmálið; Prótein.
Það sem mér finnst gera salatið að mat; grillaður kjúklingur, roast beef, roast lamb, túnfiskur, lax, ostur, (feta, halloumi, mozzarella), baunir ýmiskonar eða jafnvel þurrsteikt kanadískt beikon.

3. Fyllingin; Kolvetnin
Hér er það sem gerir salatið að fyllri máltíð; quinoa, kúskús, bulgur, brún eða villt hrísgrjón, gróft pasta, sætar kartöflur, hvítar kartöflur eða grófir brauðteningar. Mér finnst quinoað best af þessu öllu.

4. Skemmtilegheitin; aukaefni.
Þetta er það sem gerir oft salatið að frábærri máltið og eru til dæmis frækorn eins og sólblóma eða sesamfræ, eða ávextir eins og þurrkaðar apríkósur, pomegranate, eða vínber. Eða krydd eins og mynta, capers eða basil. Nú þá eða sólþurrkaðir tómatar eða ólívur, rauðlaukur, laukur eða blaðlaukur. Svo náttúrulega það nýjast hjá mér; ediklagða dótið, gherkins og edik svissaður laukur.

5. Punkturinn yfir i-ið; Dressing.
Oft er nóg bara að setja nokkra dropa af ólívuolíu yfir salatið, en það er líka oft gott að búa til dressingu. Sinnep, edik, olía, hunang, sítrónusafi og smá salt og pipar eru alger klassik og klikka aldrei og virðist vera alveg sama hvernig maður blandar þessu saman, einu eða tveim eða öllum. Ég reyni að forðast sósur en geri mikið dressingu úr fitulausri grískri jógúrt sem virðist taka við öllu saman, hvort sem það er sítróna, hvítlaukur, gúrka eða krydd. Ég set hnetur og avókadó í þennan flokk líka enda hægt að nota sem fitugjafa.

Salat er líka svo hagkvæmt, oftast er mitt gert úr kvöldmatnum í gær sullað saman við grænmeti og korn. Ef maður velur sér eitt eða tvennt úr þremur til fimm af þessum flokkum er eiginlega ekki hægt að klúðra salatgerðinni; og að launum fær maður vanalega öfund vinnufélaganna og þá sjálfsánægðu fullvissu um að maður sé eldhúsgyðja.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einmitt það sem mig vantaði að lesa um í dag! Takk .

kveðja
Alda

murta sagði...

Ekkert mál Alda, maður þarf stundum að láta ýta við sér til að hugmyndaflugið fari af stað í eldhúsinu :)