sunnudagur, 10. apríl 2011

Við ætlum að koma heim i nokkra daga í byrjun maí. Ég ætla að nota ferðina og tala aðeins opinberlega um það sem ég hef verið að bardúsa við síðustu tvö árin við nokkrar konur í mínum heittelskaða heimabæ Þorlákshöfn. Til að eiga frídaga inni fyrir Íslandsferðinni í maí hef ég lofað að vinna alla laugardaga í apríl. Sem hentar mér alveg ljómandi vel til að viðhalda enn frekari rútínu núna á meðan að ég vinn í sjálfri mér og sykurminnkaða lífinu. Ég held nefnilega að við nútímafólkið höfum gefið okkur of marga valmöguleika, það er einfaldlega til of mikið til af drasli, of mikið af mat, of mikið af mismunandi tegundum af sama draslinu og þetta ruglar mann í ríminu. Þetta er vandamál sem er sjálfsagt einskorðað við hinn vestræna heim og mér finnst það á vissan hátt hálfvandræðalegt. Að maður skuli standa fyrir framan hillu í verslun og geta ekki valið á milli capers frá Suður-Afríku eða frá Dóminíska Lýðveldinu er vandamál sem maður ætti ekki að segja nokkrum manni frá. Ekki á meðan að það er fólk í heiminum að kljást við alvöru vandamál. Ef ég minnka svo valmöguleikann enn frekar fyrir sjálfa mig þannig að ég þurfi ekki að spyrja sjálfa mig hvort ég ætti að baka brauð á frídegi, eða hvort ég ætti bara að borða smá nammi eða hvort ég ætti kannski að sleppa því að hlaupa í dag þá geri ég þetta allt saman einfaldara fyrir mig. Ef ég fer bara í vinnuna þá tek ég þessa valmöguleika alla frá sjálfri mér. Ekki það að ég hefði nokkurn tíman valið þá. En það er líka ágætt að þurfa ekki einu sinni að velta þessu fyrir sér.

Að fara í vinnu á laugardegi minnkar semsagt "hættutíma" um helming. Og þýddi líka að ég hafði svo loks tíma til að vigta mig í morgun. 87.6 kíló þannig að leiðindakílóið sem kom aftur er farið en tók bara 100 grömm af vinum sínum með sér. Skrýtið hvað þetta eru þaulsetnir gestir á miðað við hvað það er búið að gera þeim skýrt grein fyrir að þeir eru ekki velkomnir lengur.

20 stiga hita úti, fjallganga og fjallalamb á planinu í dag.

3 ummæli:

Erna Magnúsdóttir sagði...

Undanfarnar færslur eru steikt mikið eins og ég hefði skrifað þær!!! Þetta með stéttaskiptinguna og Agave og aðrar lúxusvörur og svo þetta með valmöguleikana... Hefur þú lesið "The Omnivores Dilemma" eftir Michael Pollan? Mæli með henni...

Erna
(líka Naglakúnni og útlagi í UK)

murta sagði...

Er farin á amazon að tjékka á bókinni, takk fyrir ábendinguna Erna. LOL, útlagi. Þannig líður mér líka :)

Inga Lilý sagði...

Stundum væri ég alveg til í að vinna á laugardögum. Það er alveg merkilegt hvað maður getur hamið sig allan vinnudaginn en svo þegar heim er komið (annað hvort á kvöldin eða um helgar) þá er eins og fjandinn sé laus.

Ég er búin að vera í tómu tjóni núna í 3-4 daga og SKAL taka á því núna. Vatn, banani og 15 möndlur voru í nesti og svo er hádegismaturinn væntanlega soba núðlur (ca 400 kcal). Þyrfti að fara að taka upp eitthvað áhugamál sem heldur höndum og huga uppteknum milli 18 og 21!!

Bestu kveðjur frá TOkyo þar sem vorið er heldur betur komið líka