laugardagur, 14. maí 2011

Jú, tvö kíló í plús og haggast ekki. Og það þrátt fyrir afar takmarkaðan matseðil þessa viku, lyftingar og hlaup. Fer bara næst, ekki ætla ég að eyða tíma í að hafa áhyggjur af þessu, hef nógar áhyggjur af öllu öðru. Ekki hafði ég reyndar áhyggjur af kvöldmat í gær, ljómandi góður matur sem þetta var og gaf mér gleði í bæði hjarta og maga. Kjötbollur í sveppa-tómatsósu með hvítlauks og parmesan blómkálspasta á spínatbeði. Þarf ég að fara að finna upp meira grípandi nöfn?

Kjötbollur eru voða einfaldar að gera, og hægt að gera einfaldari eða flóknari eftir tíma og vesenisgeni. Ég bleyti smá brauð í mjólk og mauka það svo saman við kalkúnahakk ásamt eggjahvítu, hægsteiktum lauk, ólívuolíu, oregano og salti og pipar. Mynda bollur og baka í ofni áður en ég set á pönnu með steiktum sveppum, papriku,lauk og tómatdós, kryddi og smá kartöflumjöli til þykkingar. (Eða bara Dolmío krukku). Og læt malla. Spínatbeð hljómar voðalega flókið en ég tek bara tvær lúkur af spínati og legg á disk. Ekki flóknara en það. Svo raspaði ég niður hálfan blómkálshaus, setti 2 tsk ólífuolíu á pönnu, hitaði í henni 2 maukaða hvítlauksgeira og setti svo blómkálið þar út í og steikti til í svona 5 mínútur. Matskeið af parmesan og ég komin með þetta líka fína "pasta" með kjötbollunum. Buon appetito!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Algjör snilld þetta "blómkálspasta". Ég prófaði að gera svipað í kvöld en notaði fitusnautt nautahakk, kjötbollur eru nefnilega ofsalega góðar og geta alveg verið hollar! Takk fyrir frábært blogg, þú ert ofurkona!

kv Soffía dyggur lesandi sem þekkir þig ekki neitt :)

murta sagði...

Já, var þetta ekki bara gott?! :)

Nafnlaus sagði...

Jú, þetta var rosa gott :-)

kv/Soffía