laugardagur, 4. júní 2011

Í ljósi allra þessara vandræða sem ég hef lent í með að komast í likamsræktarstöðvar hefur mér verið mikið hugsað um hver tilgangurinn sé með hreyfingunni hjá mér. Hvað gerist ef ég kemst ekki í rækt?

Ég hef ekki í hyggju að verða íþróttamaður, ég hef engan áhuga á að þjálfa mig upp fyrir eitthvað sérstakt mót eða keppni eða maraþon eða neitt þessháttar. Ég hef ekki neina sérstaka vöðvauppsöfnun í huga. Það eina sem ég hef áhuga á er að verða fitt. Ég vil vera sterk og ég vil vera hraust. Ég vil geta hlaupið, ekki til að geta tekið þátt í kapphlaupi heldur vegna þess að ég vil geta hlaupið með Lúkasi, ég vil geta hlaupið á eftir strætó, ég vil geta dansað alla nóttina, ég vil geta hlaupið hraðar en uppvakingarnir þegar þeir taka yfir heiminn. (Sjá up and running) Ég vil bara vera í góðu formi. Á sama hátt þá sé ég mig ekki fyrir mér í vaxtarræktarkeppni. Ég vil bara vera sterk svo ég geti lyft sófa ef ég þarf að flytja, ég vil geta borið þunga innkaupapoka, ég vil geta borið Lúkas á öxlunum ef hann verður þreyttur. Ég vil vera hraust og sterk þegar ég er orðin gömul kona, ég vil vera hraust og sterk eins lengi og möguleiki er á. Hreyfingin kemur tilraunum mínum til að léttast litið við. Ég trúi nefninlega staðfastlega að ef maður byrjar að telja kaloríum brennt sé maður að koma sér á hálan is. Ég þarf að hlaupa á 7 minútna meðalhraða á  kílómetra í 35 minútur til að brenna 300 kalorium. Hafragrauturinn minn sem ég borða svo á eftir er vel rúmlega það. Ef ég byrja að hafa áhyggjur af því að brenna ekki nóg er ég komin á þann stað sem geðsýki tekur völd og það endar bara á ég lafi á hlaupabrettinu í endalausri keppni við likama minn sem að lokum ég gefst svo upp á. Hreyfing eykur við brenndar kaloriur en það er sorglega lítið nema hangið sé klukkutímum saman við verkefnið og ef tilgangur minn er að skapa fitutap þá geri ég það 95% í eldhúsinu.

Vísindin eru sammála um eina staðreynd; það er betra að gera eitthvað en að gera ekki neitt. Út frá því er síðan hægt að deila endalaust um hvað sé best og hvernig sé best að gera það til að ná fram sem mestum kalóríubruna. Nánast á degi hverjum má lesa stórar fyrirsagnir í blöðum sem greina frá því nýjasta; hlaupa á fastandi maga! Ekki hlaupa á fastandi maga! Langar brennsluæfingar! Stuttar og snarpar æfingar! Brenna fitu svona og hinsegin og þannig og svona. En málið er að þetta eru bara fyrirsagnir, gerðar til að selja blaðið. Vísindin sem liggja að baki eru oftast allt of flókin til að útskýra fyrir meðalgreindum og þar fyrir neðan almenningi eins og mér. Þannig að kjarninn er styttur og beyglaður og brotinn þangað til að eftir stendur ekki steinn yfir steini. 
Sjálfri er mér drullusama um hvað vísindin segja um hvernig sé best að gera þetta. Ég veit að það sem er selt sem heilög sannindi í dag eru bábiljur á morgun. Það eina sem skiptir máli fyrir mig er að ég fylgi fyrsta lögmálinu að það sá betra að gera eitthvað en ekki neitt. Og það að gera eitthvað verður að passa inn í afganginn af lífinu.

Í þessu endalausa keppikefli við að grennast er ég sannfærð um að það sé nauðsynlegt að setja sér markmið sem hafa ekkert með vigtina að gera. Það getur nefnilega verið mannskemmandi að puða og puða við þetta og sjá svo lítinn og eða hægan árangur á vigtinni. En ef maður er líka að stefna að markmiði eins og að mæta í þrjá mismunandi æfingtíma (t.d bodyfit, zumba og spinning) á tveimur vikum, eða geta labbað Laugaveginn eða klifið Esjuna, eða tekið x mörg kíló í bekkpressu þá getur maður verið stoltur og ánægður með árangur þó vigtin hreyfist ekki.

Ég hleyp af því að ég vil vera í góðri þjálfun. Og ég hleyp vegna þess að hlaupin eru táknræn fyrir mig. Í hvert einasta skipti sem ég reima á mig skóna og fer út fyllist ég undrun, gleði og stolti. Fyrir tveimur árum siðan hefði ég pissað á mig af hlátri ef einhver hefði stungið upp á að einn dag væri ég úti hlaupandi. En mér finnst ekki "gaman" að hlaupa. Ég sé mig ekki fyrir mér sem hlaupara. Ég er með of stór brjóst og ég er með ónýt hné. Og þó það að hafa lést svona mikið hafi tekið daglegan sársauka niður úr 8 í 4 þá er engum blöðum um það að fletta að hlaupin eru ekki góð fyrir hnén. En engu að síður þá eru þau sú hreyfing sem er aðgengilegust fyrir mig. Og ég held því áfram að hlaupa.


Ég á heima í pínkulitlu húsi. Þannig að þangað til að ég flyt er út úr myndinni að kaupa bara bekk og lóð og söong og byrja að lyfta hér heima. En mér datt í hug að ég hef pláss fyrir tvær eða þrjár ketilbjöllur. Með staðfestu og þeirri einurð sem ég hef tekið á hreyfingu hingað til sé ég enga ástæðu afhverju ég ætti ekki að geta notað þær til að halda áfram að vera sterk.. Og mér finnst rosalega gaman að vera sterk.

Ég kemst í bootcamp hóp á laugardögum og þó það sé bara einu sinni í viku þá er það enn og aftur betra en ekki neitt. Og bootcamp uppfyllir skilyrði mín um að þjálfa ekkert sérstakt annað en almenna hreysti.

Og þannig leysi ég málið. Ég er búin að skoða tilganginn og markmiðin og samræma leiðina sem ég hef í hyggju að nota til að komast þangað. Meikar sens, nó?


3 ummæli:

Erna Magnúsdóttir sagði...

Þú ert æði. Mesta kommon sens manneskja sem ég veit um varðandi þessi efni! Mikið er ég ánægð með ketilbjölluplanið, það er hægt að gera ansi margt með þeim! Og búttkamp rokkar, það er úti, það er góður félagskapur og alltaf gott að fá hvatningu við að bæta formið!

Inga Lilý sagði...

Í fyrsta lagi: innilega til hamingju með viðtalið í Pressunni, það kom rosalega vel út og ég sá nokkra vini mína "like-a" það á FB! :)

Í öðru lagi: Ég var í sömu sporum og þú ert í núna þegar ég flutti til Japan. Ég hef alltaf farið í ræktina til að hreyfa mig og ég gat ekki hugsað mér að gera einhverjar æfingar sjálf heima hjá mér.

Svo vildi það þannig til að ræktin hér opnar ekki fyrr en kl. 9 á morgnanna og það er tíminn sem ég á að vera mætt í vinnu. Ekki fer ég eftir vinnu þar sem ég rétt næ að sjá stelpurnar mínar vakandi í tæpa 2 tíma eftir vinnu og þeim tíma vil ég ekki eyða í ræktinni.

Svo það eina sem kom til greina var að reyna að gera þetta sjálf. Byrjaði á að skokka hægt 5 km og bætti svo þar við. Á handlóð heima sem ég fer með út og lyfti og svo á ég bootcamp bók og ég geri æfingar úr henni.

Í hinum fullkomna heimi þá gæti ég mætt í ræktina og lyft þungt, aukið vöðvamassann og þar með grunnbrennsluna. Það er bara ekki í boði svo ég geri það sem ég get.

Ég var á fundum í síðustu viku með fólki sem ég hef aldrei hitt áður. Ein spurði mig "do you work out?" og ég játti því að ég gerði það stundum og þá kom "wow, you must, you look like an athlete"! Held að ég hafi aldrei á ævi minni fengið eins mikið hrós.

Svo til að komast að niðurstöðu í þessu langa commenti: maður gerir það sem maður getur og maður er ekki háður ræktinni til að ná árangri. Þetta er kannski ekki eins gaman og tekur kannski lengri tíma en þetta er allt hægt. Þú ert svo ótrúlega dugleg með alla þína hreyfingu og mataræði að ég veit að þú massar þetta eins og allt annað.

Gangi þér svakalega vel.

Hanna sagði...

Ertu með garð við pínulitla húsið þitt? Í garðinum er hægt að búa til fínustu líkamsræktarstöð með trjádrumbum, trjám og þungum greinum.Þú getur kíkt á þetta: http://shop.frydenlund.dk/product.asp?product=1166
Stórt knús á þig
H