|
Góð byrjun |
Meðfylgjandi þessum kaffiáhuga mínum var eiginlega bara tímaspursmál þangað til að ég færi að skoða biscotti, hefðbundna ítalska kaffismáköku. Grunnurinn að biscotti er einfaldur og það ætti að vera minnsta málið að endurhanna uppskriftina þannig að hún sé, ef ekki holl, þá hollari. Það er bara eitthvað svo ægilega smart við að sötra Lavazza kaffi lagað uppá ítalska mátann og maula heimagert biscotti með. Ég er heltekin af því að þykjast að vera kontinental og smart. Fyrsta tilraun var bara alveg hreint ágæt. Hingað til hef ég aldrei nennt að spá í biscotti út af þessu tvíböku dæmi, virkaði allt of flókið. En svo var þetta bara ekkert mál. Ég notaði kókóshnetuhveitið mitt og pálmasykurinn, ásamt ristuðum kassjú hnetum og cacao nibs. Bara það sem ég átti í skápnum. Ég ætla að fara til Chester á sunnudaginn held ég samt og kaupa mér tilbúið kexið til að hafa til samanburðar svo ég geti haldið áfram að þróa mitt eigið. Hef nú samt ekki í hyggju að gera þetta að neinum vana, mig langar til að halda kaffivananum mínum óspilltum og ótengdum við kexát. En neita ekki að þetta var ljómandi góður morgunmatur eftir hlaup í morgun; mjúkur hvítur froðukaffibolli og biti af biscotti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli