sunnudagur, 3. júlí 2011

Með 100 gramma fitutapi fagna ég þeim áfanga í dag að vera búin að ljúka 75% verkefnisins. 100 grömm eru nú varla marktækur munur á milli vikna en engu að síður þá var voðalega gaman að sjá prósentuna á excel skjalinu mínu. Þetta miðar að því að ég endi í 71 kílóum. Við sjáum nú svo reyndar til með það. 

Smástund í morgun og ég á morgunmat  og snarl
fyrir heila viku. Þetta er ekkert mál! 
 Ég vaknaði snemma í morgun enda hafði ég steinsofnað í sófanum í gærkveldi rétt eftir tíu. Greinilega þreytt eftir 6 daga vinnuviku. Ég ákvað að baka morgunverðinn minn fyrir vikuna og sá þegar ég var byrjuð að hella höfrum og gulrótum í skál að auðvitað var ég uppiskroppa með lyftiduft. Ég, eins og mamma mín, kemst aldrei í gegnum einn bakstur án þess að þurfa að hlaupa út í kaupfélag. Ekki að það hafi verið neitt svaka vesen, klukkan ekki orðin átta og hitastigið strax komið vel upp að 20 gráðum. Í kaupfélaginu voru þeir með hitann á hreinu og voru að hlaða upp dósum af Ben & Jerry´s ís í lange baner í frystiskápnum. Buy 1, get 1 free. Það er ekkert sem er verra fyrir fólk sem er að reyna að haga sér almennilega að sjá BOGOF tilboð. Og þegar fólk er ég og BOGOFið er Ben & Jerry´s cookie dough Ice Cream og það er strax orðið heitt úti er bara voðinn vís. Vanalega myndi ég ekkert vera að stressa mig á þessu á sunnudegi, myndi bara kaupa ísinn og borða sem nammi vikunnar. En málið er að ég er núna búin að vera að berjast við þessi sömu þrjú kíló í næstum tvo mánuði. Og mér finnst loksins eins og þau séu að fara núna. Og síðast þegar ég borðaði Ben & Jerry þyngdist ég um tvö kíló. Sem tók mig svo viku að ná af mér aftur. Það er eitthvað við samblandið af sykri og rjóma og cookie dough sem líkami minn gúdderar ekki. Og ég bara nenni þessu fokki ekki lengur. En svo datt mér þjóðráð í hug. Ódýri ísinn sem ég borðaði fyrir tveimur vikum var búinn til úr undanrennudufti og var bara alls ekkert slæmur svona út frá karólínum talið. Og þegar ég bjó til ammrísku hafrasmákökurnar mínar um daginn og smakkaði til deigið man ég að hafa hugsað með mér að þetta væri bara alveg eins á bragðið og cookie dough. Ég greip því dós af ódýra ísnum, dreif mig heim og byrjaði að vesenast.
"Svava & Sukk Oatmeal Cookie dough Icecream"
Bjó til gulrótarköku, quinoa köku, eggjamúffur með aspas og smá skammt af hafrakökudeigi. Setti út í það nokkra bita af 70% dökku súkkulaði frá Green & Black´s og varð svo bara að prófa. Náði mér í skál og bjó til minn eiginn Ben & Jerry´s Cookie dough ís. 800 sinnum hollari og bara alveg jafn góður, ef ekki betri vegna þess hversu ánægð ég var með sjálfa mig. Við segjum svo ekkert um að klukkan er ekki orðin ellefu og tilraunaskálin er núna tóm... Ekkert mál, ég og litla fjölskyldueiningin ætlum í Ponciau Park í dag, og þar ætla ég að klifra, hoppa, hlaupa og róla sem ég væri sjö ára gömul. Og ís í morgunmat er alveg það sem sjö ára myndi fá sér ef hann fengi að ráða.

1 ummæli:

ragganagli sagði...

Ég hef grun um að þú sért komin á leiðindastaðinn stöðnun mín kæra og ættir að tékka á að fara í viðhald í kaloríum í nokkrar vikur. Líkaminn er farinn að streitast á móti í fitutapinu sem gerist óhjákvæmilega eftir langan tíma í niðurskurði.