miðvikudagur, 10. ágúst 2011
Ég er búin að vera svöng núna í nokkra daga. Eða öllu heldur ég er búin að verða svöng á milli mála. Það er allt með ráðum gert, ég er í smá tilraunastarfsemi akkúrat núna. Ég verð afskaplega sjaldan svöng, áður fyrr var ég alltaf búin að stinga einhverju upp í mig áður en ég náði að verða svöng og nú síðustu árin hef ég passað með ofstæki upp á að borða á nokkurra klukkutíma fresti til að passa að verða ekki svöng af ótta við að fara svo yfir strikið. Nú er ég hinsvegar búin að ákveða að ég þurfi að skoða þetta aðeins. Í fyrsta lagi þá þarf ég að læra að þekkja muninn á líkamlegu hungri og tilfinningalegu. Og það geri ég bara með að verða í alvörunni svöng, svöng þannig að ég finni greinilega að mig vantar orku. Og í framhaldi af því hef ég verið að reyna að kenna sjálfri mér að það þarf kannski ekki að tákna heimsendi ef ég er svo í alvörunni svöng. Og að það að vera svöng sé heldur ekki ávísun á ofát. Að það að verða líkamlega svöng þýði bara að ég ætti að fá mér að borða og að ég eigi bara að borða þangað til að ég verð mett. Að það að verða líkamlega svöng veiti ekki leyfi til að troða og troða í mig. Þetta á svo að kenna mér að þekkja muninn á líkamlegu hungri og tilfinningalegu. Ég er að reyna að sanna það að hafa stjórn á hversu mikið ég borða þegar ég er í alvörunni svöng kenni mér að ég geti líka haft stjórn á magni þegar ég borða af öðrum ástæðum. Og að út frá því geti ég svo stýrt því að ég sleppi því að borða af neinum öðrum ástæðum en líkamlegu hungri. Þetta er búið að vera skemmtilegt, áhugavert og þarft verkefni. Voðalega sem ég hef gaman af því að gera tilraunir.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli