Paprikur fylltar með hakki og quinoa |
Ég stússaðist við þessa í gær og þó það sé aðeins meira vesen við þetta en það sem maður vanalega myndi bjóða upp á í miðri viku þá naut ég verksins og afraksturins því meira.
Fylltar paprikur
4 paprikur, toppurinn skorinn af og geymdur og kjarninn tekinn úr
300 g kalkúnahakk eða mjög magurt nautahakk
2 laukar, smátt skornir
2 hvítlauksgeirar, maukaðir
1/2 bolli quinoa, ósoðið
2 mts tómatpúre
smávegis vatn
1 msk worcestersauce
oregano og basil
salt og pipar
60 g fitulítill mozzarella, rifinn
Setjið vatn í pott og látið suðuna koma upp. Setjið kjarnhreinsaðar paprikurnar standandi með toppnum í vatnið svo það komi upp að hálfri papriku. Látið sjóða í 5 mínútur. Sjóðið quinoað samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Takið paprikur úr vatni og þerrið. Leggið til hliðar. Steikið lauk, hvítlauk og hakk í smávegis ólívuolíu þar til kjötið er brúnað. Setjið þá puré, vatn, sósu, tening og krydd og látið malla aðeins. Setjið svo soðið quinoað út í og blandið saman. Hitið ofninn í 190 gráður. Fyllið hverja papriku með kjöt og quinoablöndunni setjið ost yfir og toppinn á og setjið svo í ofn í 30 mínútur eða svo. Eða þar til paprikurnar eru aðeins farnar að dökkna. Berið fram með Hasselback skorinni sætri kartöflu og grænu salati.
Það er líka örugglega voðalega gott að nota tex mex krydd og smá salsasósu og fá mexíkóskar fylltar paprikur.
Örlítið tímafrekara í undirbúning en margt annað en þess virði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli