fimmtudagur, 11. ágúst 2011

Paprikur fylltar með hakki og quinoa
Við erum alltaf að flýta okkur svo mikið við nútímamennirnir. Það er alltaf nóg að gera, vinna, börn, félagstörf, ræktin, nýr lífstíll... allt tekur þetta tíma. Og flest höfum við komið okkur upp einhverri rútínu til að dagleg verk taki sem minnstan tíma. Og matargerð er þar ekki undanskilin. Alla vega þá sperri ég alltaf eyrun þegar ég heyri orð eins og fljótlegt, einfalt, bragðgott og hollt. Allt í einu. En mér hefur verið hugsað að undanförnu hvort það sé ekki rétt að hægja aðeins á sér. Taka smá tíma til að gera hlutina vel. Og njóta þeirra. Þessi tilhneiging okkar til að borða skyndirétti er sjálfsagt stór þáttur í offituvandamáli Vesturlandabúa. Og þá á ekki bara við McDonalds og Kentucky Fried Chicken, heldur skyndi át menninguna sem við búum við. Allt tilbúið og matreitt ofan í okkur og engin leið að segja hvaða aukaefni eru í matnum okkar. Og borðað svo hratt að við höfum ekki tíma til að gera okkur grein fyrir þvi þegar við erum orðin södd. Fyrir utan að það eru til rannsóknir sem benda til þess að við borðum minna þegar við búum matinn til frá upphafi. Best er að rækta sitt eigið grænmeti en það er líka nóg að kaupa inn grunnhráefni og elda frá upphafi, bera svo fram og setjast niður og njóta afrakstur vinnunnar. Og þegar við höfum búið réttinn til frá upphafi fáum við fyllingu frá vinnunni sem í verkið fór og borðum þar af leiðandi minna. Sniðugt ekki satt?

Ég stússaðist við þessa í gær og þó það sé aðeins meira vesen við þetta en það sem maður vanalega myndi bjóða upp á í miðri viku þá naut ég verksins og afraksturins því meira.

Fylltar paprikur

4 paprikur, toppurinn skorinn af og geymdur og kjarninn tekinn úr
300 g kalkúnahakk eða mjög magurt nautahakk
2 laukar, smátt skornir
2 hvítlauksgeirar, maukaðir
1/2 bolli quinoa, ósoðið
2 mts tómatpúre
smávegis vatn
1 msk worcestersauce
oregano og basil
salt og pipar
60 g fitulítill mozzarella, rifinn

Setjið vatn í pott og látið suðuna koma upp. Setjið kjarnhreinsaðar paprikurnar standandi með toppnum í vatnið svo það komi upp að hálfri papriku. Látið sjóða í 5 mínútur. Sjóðið quinoað samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Takið paprikur úr vatni og þerrið. Leggið til hliðar. Steikið lauk, hvítlauk og hakk í smávegis ólívuolíu þar til kjötið er brúnað. Setjið þá puré, vatn, sósu, tening og krydd og látið malla aðeins. Setjið svo soðið quinoað út í og blandið saman. Hitið ofninn í 190 gráður. Fyllið hverja papriku með kjöt og quinoablöndunni setjið ost yfir og toppinn á og setjið svo í ofn í 30 mínútur eða svo. Eða þar til paprikurnar eru aðeins farnar að dökkna. Berið fram með Hasselback skorinni sætri kartöflu og grænu salati.
Það er líka örugglega voðalega gott að nota tex mex krydd og smá salsasósu og fá mexíkóskar fylltar paprikur.

Örlítið tímafrekara í undirbúning en margt annað en þess virði.

Engin ummæli: