laugardagur, 13. ágúst 2011

Ég hljóp 5 km á 32 mínútum og 47 sekúndum í morgun. Langt undir lágmarksmarkmiði, og mínútu undir draumamarkmiðinu. Það er nú ekki líkt mér að setja markmiðin of lágt! Ég hljóp í Race for Life í fyrra þannig að þetta var ekki mitt fyrsta 5 km hlaup, en ég kláraði hnéð þegar ég reyndi að hlaupa þá og hélt að hlaup væru úr sögunni fyrir mig. Ég er 10 kílóum léttari núna en ég var þá og það í samblandi við æfingarnar sem ég er búin að vera að gera í Up & Running prógramminu greinilega gert gæfumuninn því ég er (nokkurn vegin) sársaukalaus og ekki nóg með það heldur búin að fá hlaupasýki.

Mig langaði til að gera meira úr þessu hlaupi en bara fara út og hlaupa 5 km. Mig langaði til að taka þátt í alvöru hlaupi en maður verður bara að gera það besta úr því sem maður hefur. Ég bauð því til hlaups á Facebook og var alveg orðlaus yfir stuðningum sem ég fékk þar. 40 manns sem ég hafði "með" mér að hvetja mig áfram í morgun. Og ég er svo glöð að hafa gert svona mál úr þessu, þetta var nánast eins og að taka þátt í alvöru hlaupi. Ég vaknaði í morgun og beið til 9:00 með að leggja af stað, fékk sms frá mömmu og skilaboð á FB þannig að ég vissi að fólk var í startholunum með mér. Hitaði örsnöggt upp og lagði svo af stað. Fyrstu tveir kílómetrarnir ekkert mál, en svo kom að brekkunni. Hún er nokkuð brött og ég þurfti að hægja helvíti mikið á mér til að komast hana. Ég hugsa að það hafi verið lítill munur á hlaupi og göngu þar en ég hélt takti og ætla að segja að ég hafi hlaupið. Svo þegar upp brekkuna er komið varð þetta auðveldara aftur, ég fann hraðari takt og gat sprett aðeins. Þegar ég kom að 3.5 km missti ég aðeins móðinn aftur, þetta var orðið erfitt og ég sver að ef ég hefði ekki hugsað til alls þessa æðislega fólks sem var að hlaupa með mér þá hefði ég gefist upp. En ég sótti styrk til þeirra og hélt áfram. Og áður en ég vissi píptí í nike+ og bara 500 metrar eftir. Ég reyndi að hraða mér aðeins, vitandi að Dave og Lúkas voru rétt við hornið að bíða eftir mér. 50 metrar eftir og ég sá þá og þeir byrjuðu að hoppa upp og niður af kátínu við að sjá mig. Og ég kom í mark á 32:47. Ég var alveg hissa á þessu, var viss um að brekkan og kílómetrinnn frá þrjú til fjögur hefðu hægt mun meira á mér. Ég var alveg búin á því, en það tók líka ekki langan tíma að jafna mig aftur og núna er ég svífandi um á gleðiskýi. Og svo er það bara að byrja að æfa fyrir 10 km næst. Ég er óstöðvandi núna.

Gæti ekki verið glaðari!

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl, ég hef lesið bloggið þitt í nokkrar vikur. Er í sömu sporum og þú, þarf að létta mig og er komin með hlaupaveikina ógurlegu ;0) Frábært hjá þér að ná þessum flotta tíma; 0) Ég fór í mitt fyrsta 5 Km hlaup í sumar og fór þá á tæpum 40 mín. Er skráð í 10 Km í Reykjavíkurmarathon n.k. laugardag ;0) Til lukku með þín afrek, hlakka til að fylgjast með þér áfram. Kv Jóhanna

Nafnlaus sagði...

Hæ, ég hef lengi lesið frábæra bloggið þitt. Til lukku með frábæran tíma í 5k, þú ert snillingur :o) Kv. Ingibjörg

Nafnlaus sagði...

Æðislegt, get alveg ímyndað mér á hverskonar bleiku skýi þú ert núna! Til hamingju með frábæran árangur, nú er bara að setja markið enn hærra :D

Hólmfríður

Inga Lilý sagði...

Gjööðveikt, innilega til hamingju með frábæran tíma og árangur, alger hetja og btw, I told you so ;)
Ég hjólaði 21 km í staðinn á lau morgni og hugsaði til þín þó að ég væri ca 9 klst á undan

Guðrún sagði...

Þú hefur ansi víðtæk áhrif á fólk, Dabba mín, ekki bara hvað matarvenjur varðar heldur líka íþróttaiðkun. Allt þér að þakka að hef náð draumamarkinu mínu að komast niður fyrir 70 kíló og núna hljóp ég 5 kílómetra með þér. Nokkuð sem ég vissi ekki að ég gæti.
Ég er að springa úr monti af þér og líka mér.

Nafnlaus sagði...

Frábært hjá þér! :)

Hanna

Nafnlaus sagði...

Frábært:-)
kær kveðja
Lilja Guðrun

Nafnlaus sagði...

Þú ert alveg mögnuð- hef fylgst með á hliðarlínunni og það er hrein og bein hvatning að lesa pistlana þína.
Kveðja,
Selma

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með þetta! Ég datt inn á bloggið þitt fyrir nokkrum vikum og hef fylgst spennt með árangrinum. Ég prufaði C25K prógrammið en vantar núna framhald. Hvar nálgast maður Up & running? Kv Stína

murta sagði...

Takk allir fyrir kveðjurnar :)

Stína, hér er hlykkurinn fyrir Up & Running
http://www.upandrunningonline.org/

Nafnlaus sagði...

Snilld, takk - Stína:)