Ég steinsvaf í morgun. Sjálfsagt svefni hinna réttlátu. Svo sannarlega ekki hinna auðmjúku. Mjög óvanalegt fyrir mig, vanalega sprett ég á fætur við fyrsta hanagal og rýk út. En ég lá bara á hinni hliðinni og rumskaði ekki við vekjaraklukku. Sem þýddi að þegar ég svo loksins druslaðist af stað var of seint að hlaupa, ég hljóp bara á eftir strætó. Ég hlakkaði svo til í allan dag að komast heim til að fara út. Ég er alltaf að bæta við og taka af; metrum og sekúndum. Í dag fór ég svo 7.5 km á 50 mínútum. Sem þýðir að ég ætti að geta hlaupið 10 km á rúmum klukkutíma ef ég held áfram að æfa mig. Hversu geggjað væri það nú? Ég var hálffegin að hafa sofið, sólin skein og ég ákvað að fara annan hring en vanalega. Það var yndislegt að spretta úr sporí í glampandi sólskininu og sjá ýmislegt nýtt. Ég gleypti fjórar flugur (prótein) og æpti á broddgölt, þurfti að hlaupa á undan reiðum hundi og high fivaði gamlan kall. Þvílík gleði.
Ég er svo búin að borða allt sem mig langaði í í dag. Og eftir nettan svitaskjálftann sem ég fann fyrir þegar ég sagði við sjálfa mig að ég mætti borða allt sem mig langaði í (hvað ef mig langar bara í snickers??) þá róaði ég mig niður og minnti mig á að ef mig langar í snickers þá met ég það bara þá stundina en að ég ætlaði að treysta mér til að velja rétt. Og þetta er það sem mig langaði í; Eggjahvítuommiletta og gulrótahafragrautur. Nektarína, salat með kalkúnasteik, quinoa eplakaka og möndlur. Próteinsjeik og hnetusmjörsletta. Ekki slæmt það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli