mánudagur, 29. ágúst 2011

Þegar ég vaknaði í morgun var mín fyrsta hugsun sérlega áhugaverð. Nei, mín önnur hugsun. Sú fyrsta var hvort veðrið væri gott fyrir hlaup. Önnur hugsun var hinsvegar leiðinlegri. Hún var hversu yfirkomin af samviskubiti ég væri. Svo hristi ég það af mér eins og hverja aðra vitleysuna og fór út að hlaupa. Það var rosa skemmtileg æfing. Ég er að reyna að bæta 5 km hraðann minn svo ég standi mig betur þegar að lengri vegalengdum kemur. Það geri ég með að gera endurteknar hraðabreytingar og æfingar sem þróa betri skreflengd. Og á meðan ég hljóp velti ég gærdeginum fyrir mér. Ég gat nefnilega ekki hætt að borða. Og varð að stoppa mig með miklu átaki til að hætta þegar ég var orðin mett. Mig langaði svo til að halda bara áfram. Borðaði morgunmat og stússaðist og beið með andagt eftir að verða svöng aftur. Og varð svo að þröngva mér með líkamlegu valdi til að hætta að borða þegar mettun var náð. Og svona gekk þetta allan daginn. Hugsanir sem snérust um að ég má borða hvað sem er þannig að ég ætti að gera það, nei það þýðir ekki að éta þér til óbóta, en þú verður að æfa þig að borða án þess að fá samviskubit, besta leiðin til að æfa át án samviskubits hlýtur að vera að borða heila súkkulaðiköku, en ég þarf ekki að borða heila súkkulaðiköku því ég veit hvað ég fæ illt í magann af því samviskubit eða ekki, GODDAMNIT VILTU BARA ÉTA SVO ÞÚ GETIR KOMIÐ ÞESSU ÁTKASTI FRÁ ÞÉR TIL AÐ ÞÚ GETIR HALDIÐ ÁFRAM MEÐ EÐLILEGT LÍF!!!! Og ég snarstoppaði við þessa hugsun. Ég er orðin svo vön þessum hring að halda í við mig og taka svo eitt kast og komast svo aftur í viðhald að ég vil bara koma átinu frá til að geta svo haldið áfram. Eins og það sé óhjákvæmilegt. Eins og það sé óhjákvæmileg leiðindi! Ég er ekki að njóta þess að borða, ég er að gera það af einhverri afvegaleiddri uppreisn. Og ég hugsaði með mér að það væri enn mikilvægara að halda áfram á þessari braut minni sem segir að ekkert sé bannað. Það er eina leiðin til að ég geti komist út úr þessum hring.

Hlaupin í morgun koma mér á réttan kjöl og ég get núna aftur farið í eðlilegt horf. En ef ég horfi fram á að eðlilegt horf beri með sér svona átköst þá ætla ég að breyta eðlilega horfinu mínu. Ég hef engan áhuga á að éta 3000 kalóríur án þess að njóta þess. Næst þegar ég borða 3000 kalóríur ætla ég að smjatta, umma og ahha, sleikja puttana og segja með tilfinningu að ég hafi notið hvers einasta bita.

2 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Ótrúlega áhugaverð pæling. Ég átti svona momentary laps of judgement í gær þegar ég fékk sendar siríus rjómasúkkulaðiskeljar og fylltar appollo lakkrísreimar. Þvílíkur unaður og það á mánudegi og ALLTOF langt í næstu helgi. Ég opnaði súkkulaðipokann, náði mér í tebolla og 2 skeljar og fór með inn í stofu. Átti svo í rökræðum við sjálfa mig allt kvöldið hvort ég ætti ekki að fara að fá mér fleiri.

En ég stóðst freistinguna og stoppaði eftir 2 en af hverju varð ég að fá mér þessar 2. Það er ekki eins og nammið myndi hverfa úr skápnum og að ég gæti ekki fengið mér á laugardaginn.

Óþolandi að vera svona háður sykurpúkanum en við erum amk orðnar meðvitaðar um það og reynum að taka góðar ákvarðanir, þó að hinar slæmu verði stundum ofan á! :)

murta sagði...

Þetta kemur allt með kalda vatninu. Erum við sem búum í útlöndum ekki með sérleyfi á íslenskt nammi? :)