miðvikudagur, 31. ágúst 2011

Hún var tvíþætt ástæðan fyrir því að ég byrjaði að hlaupa. Í fyrsta lagi vegna þess að mér þótti áskorunin ómótstæðileg; hlauparar virtust vera allt það sem ég var ekki, langir og mjóir og með gífurlegt úthald. Í öðru lagi þá áttu hlaupin að vera aðgengileg og allra mikilvægast ódýr íþrótt sem ég get stundað hvar sem er og hvenær sem er. Ég á í mesta basli með að komast í rækt þannig að geta bara reimt á sig skóna og farið út var mjög aðlaðandi. Og það var óneitanlega jákvætt að þurfa ekki að borga neitt fyrir að fara út að hlaupa. En ég gerði alls ekki ráð fyrir öllu dótinu. Ég er gersamlega heltekin af öllu dótinu sem fylgir hlaupunum. Ég ligg á netinu alla daga og skoða svitaþurrkandi, vindmótstöðueyðandi, höggdempaða og straumlínulagaða sokka og úlpur og peysur og buxur. Mig langar að eiga nokkur pör af skóm til að geta skipt um lit eftir skapi og veðráttu. Mig langar í hlaupasokka og hlaupapeysur og hlaupaúlpu og hlaupavettlinga og hlaupahúfu. Nú er ég eiginlega alveg viss um að ég geti alveg hlaupið í sokkum, peysu, úlpu, vettlingum og húfu, og að ef ég sleppi "hlaup" formálanum þá kosti græjan einn áttunda af því sem félagi minn Nike vill að ég borgi fyrir. En hvaða fútt er í því? Ég sver sárt við að ég hleyp betur og nýt hlaupanna meira eftir því sem ég er í flottara átfitti. Maður bara verður að eiga réttu græjuna. Það lítur út fyrir að afmælis- og jólagjafalistinn í ár verði auðveldur.

2 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Mmmm, skil svo innilega hvað þú átt við. Ég á núna tvenna hlaupaskó, eina new balance og eina asics en nota asics í ca 90% tilfella. Ég á adidas hlaupabuxur, reebok boli, nike og adidas boli að ógleymdum nike hlaupasokkunum.

Og auðvitað hleyp ég miklu lengra og betur í öllum græjunum! :)

Nafnlaus sagði...

We stumbled over here coming from a different web address and
thought I should check things out. I like what I see so now i am
following you. Look forward to exploring your web page for a
second time.

Here is my website - Diet K-cup