þriðjudagur, 20. september 2011

Þetta hefur alltaf snúist um að finna jafnvægi hjá mér. Þegar ég skilgreini jafnvægi í lífi mínu eins og það lýtur að mat þá myndi ég segja að jafnvægi væri náð ef ég borða þegar ég er svöng og þar til ég er mett, þegar ég borða hreinan mat 98% tímans og nýt svo hinna tveggja prósentanna alveg niður í rassgat samviskubitslaust. Þetta ætlar að vera erfiðara í alvörunni en þetta virkar svona á blaði. Ég hef núna ekki vigtað mig í langan tíma. Og samkvæmt fötum og myndum hef ég ekki fitnað neitt. En ég hef líka greinilega ekkert lést. Og nú er ég farin að spá í því hvort það sé eitthvað til í því að til að ná jafnvægi á einum stað í lífinu þarf kannski einhver annar hluti þess að halla á eina hlið. Mig langar ekkert meira en að lifa planlaust. Ég á nefnilega ofboðslega erfitt með að fylgja plani og byrja ekki að hugsa um planið sem megrun. En planlaust er ég taugveikluð og stressuð un að allar ákvarðanir sem ég tek séu kolvitlausar. Ég sé þessvegna að til að ná þessu jafnvægi þarf ég að búa til þá hugmynd að planið sem ég fylgi sé ekki megrun. Ég er að vinna í því. Mér dettur helst í hug að setja á planið stöku kitkat, eða franskbrauðsneið. Og þá á þriðjudegi ekki um helgi. Svona planað spontaneity. Ég þarf að tækla helgarnar hjá mér. Ég er örlítið slösuð núna, hef í nokkrar vikur verið að meiða achilles tendon (sinina aftan á ökklanum). Ætlaði bara að hlaupa mig í gegnum sársaukann en hef núna verið skipað að slaka á í nokkra daga. Og panikkaði um leið. Ég hef nefnilega verið að nota hlaupin sem afsökun fyrir ofáti. Og nú þegar ég er ekki að hlaupa verð ég að hætta að éta. Það er ekki jafnvægi. Nú er ég algerlega sannfærð um að ég sé komin á þann stað í þessu ferli mínu sem segir að mér er skítsama hvort ég sé 100 kíló eða 60. Það eina sem skiptir máli er að ég sé nógu hraust til að stunda þá líkamsrækt sem ég hef gaman að í það og það sinnið. Akkúrat núna eru það hlaup. Og ég finn það að til að hlaupa eins og ég vil hlaupa þá þarf ég að vera léttari en ég er núna. Ég þarf þessvegna að fara að spá í hvernig ég hef í hyggju að gera þetta. Og hvað ég er eiginlega að gera.

Ég fæ oft bréf og kveðjur frá hinum og þessum þar sem ég fæ að heyra að ég sé fyrirmynd og annað fallegt. Ég er afskaplega stolt og ánægð þegar ég heyri svoleiðis. En þetta er líka tvíeggja sverð. Þetta þýðir líka að í hvert sinn sem ég tek lélega ákvörðun finnst mér eins og ég sé ekki bara að svíkja sjálfa mig heldur líka allt þetta fólk sem hefur trú á mér. Hverslags  fyrirmynd er það eiginlega sem stendur bara í stað og léttist ekki svo mánuðum skipti? Ég spyr sjálfa mig líka hvert ég sé að fara með þetta allt saman. Hvað ég sé fyrir sjálfa mig í framtíðinni  og oftast er svarið samofið því að ég þurfi að léttast um 10 kíló í viðbót.

Mig langar ekkert meira en að gefa sjálfri mér tíma til að halda áfram að kanna þetta ferli sem ég er í núna, að treysta líkama mínum til að segja mér hvaða næringarefni ég þarf. En ég þarf líka að taka á þeim hluta af sjálfri mér sem hlustar ekki á líkamann og treður í sig súkkulaðiköku. Ég er ekki í jafnvægi akkúrat núna.

Mestmegnis held ég að ég þurfi að láta af dramatíkinni og hætta að hugsa svona mikið. Kannski að ég þurfi bara að anda aðeins. Inn um nefið, út um munninn.

4 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Þó þú sért fyrirmynd mjög margra, þar á meðal mín, þá er ekki þar með sagt að maður haldi að þú sért fullkomin. Ég get alveg sagt þér að mér líður alltaf betur þegar ég heyri að aðrir ströggli líka, taki hliðarspor en sparki svo í rassinn á sér og haldi áfram. Það er eins og við séum í þessu "saman" og maður er ekki sá eini sem er breyskur.

Ég vona að þú finnir jafnvægið þitt fljótt. Eru engar æfingar sem þú getur gert heima í staðinn fyrir hlaupin? Hnébeygjur, framstig, afturstig, uppstig, armbeygjur, planki, bakfettur osfrv?

Ég er búin að léttast og þyngjast um sömu 3 kg síðan í mars og er að verða nett leið á því. Mig langar einmitt að vera 8-10 kg léttari en ég hef bara ekki verið í stuði til að gera eitthvað nógu drastískt til að ná þessum síðustu kg af. Það góða við það er að ég sé að ég hef fundið ágætis jafnvægi þar sem ég get haldið mér í sömu þyngd í lengri tíma, án þess að vera í nokkrum öfgum. Nú þarf ég bara að ná þessum síðustu kg af og þá get ég farið í viðhald... :)

Gangi þér ofsalega vel og reyndu að vera ekki alveg svona hörð við þig.

murta sagði...

Ég hugsa að ég reyni við létta hlaupæfingu í fyrramálið, öll bólgan er hjöðnuð þannig að vonandi er þetta í lagi núna. Takk fyrir hugulsemina :) Ég er bara á stað núna þar sem ég er tvístígandi með hvert ég er að fara, eða öllu heldur hvaða leið ég ætla að fara. Um leið og ég er búin að ákveða mig verður þetta ekkert mál aftur.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þú einmitt svo flott fyrirmynd af því að þú tekur hliðarspor (eins og allir!) og tæklar þau svo flott og það er svo gaman að fá að vera með í þankaganginum þínum, maður lærir svo mikið af honum. :)

Kv. Hanna (ókunnug)

murta sagði...

takk Hanna, þetta met ég mikils xx