fimmtudagur, 20. október 2011

Mér þykir ekki mikið um að vakna snemma. Það er bara fínt. Það er það sem ég geri. Mér líkar líka ágætlega við rigningu, hún flækist ekki fyrir mér og þá ekki heldur myrkrið. Mér er ekki vel við rok en sem betur fer var ekkert rok í dag. Mér þykir líka bara fínt að mæta þessum örfáu hræðum sem eru á ferli á sama tíma og ég þó flestir stari á mig í forundran. Mér þykir reyndar voða skemmtilegt þegar ég hleyp framhjá náunganum sem stendur á sínu horni að bíða eftir farinu sínu því hann hvetur mig áfram með hrópum og köllum og í morgun æpti hann "go you superwoman you!" Það er ekki klént að vera súperkjelling, ekki ætla ég að efa það. 


Ég var með plan í dag. Ég hljóp hægt í tuttugu mínútur, meðal hratt í næstu tuttugu, hægt í fimm og svo súperhratt og hægt til skiptis í mínútu hvort í síðustu fimm mínúturnar. Og ég hljóp og hljóp, leið eins og milljón kalli og fannst eins og ég hefði hlaupið hraðar og lengra en nokkru sinnum fyrr. Þannig að ég verð að viðurkenna að ég var svekkt þegar ég sá að ég hafði bara farið 7.5 km á 50 mínútum. 

Mig langar til að hlaupa hraðar. Ég er ekki að bera mig saman við neinn, mig langar bara til að geta hlaupið þannig að ég finni almennilega fyrir því í langan tíma. Mig langar til að geta gert eitthvað sem fyrir nokkru síðan var óhugsandi. 

Mig langar til að finna að ég sé að sýna framfarir, að ég sé að verða betri en ég var í gær. Ég sé engan tilgang í að hlussast áfram á 7 mínútum á kílómetrann endalaust. Og ég er komin niður á að ég þurfi að vera léttari til að geta hlaupið hraðar. Að það sé einfaldlega ekki líkamlega mögulegt fyrir mig að auka mikið hraðann á meðan ég er enn þetta þung. Mér finnst það liggja í augum úti. 


Þannig að ég þarf að léttast meira. En hér er vandamálið. Ég er, í fyrsta sinn síðan ég var átta ára, í alvörunni hamingjusöm í sambandi mínu við mat. Ég er ekki reið, hrædd, skömmustufull, klikkuð, sár eða full gremju. Við erum í fullkomu jafnvægi. Ég borða hollan, óunninn mat að mestu leyti og öðruhvoru borða ég vitleysu. Ég borða að mestu leyti rétta skammtastærð. Akkúrat núna er ég að borða kalóríur sem viðhalda líkamsþyngd minni. Mér finnst ég voða fína og sæt, og ég er í alvörunni ánægð með sjálfa mig. Og ég er að klandrast með þessar tvær andstæður. Að vilja léttast meira en vera hamingjusöm á sama tíma. Mig langar bara alls ekki til að stugga við þessu nýfundna frelsi mínu frá öllum þessu veseni sem hefur verið að plaga mig í næstum 30 ár en mig langar líka í alvörunni til að léttast meira. Hvernig á ég að koma þessu heim og saman?

2 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Ég skil þig bara alveg fullkomlega. Ég held alveg ágætis hraða þegar ég hleyp, hann er amk ekkert til að skammast sín yfir, en ég var hins vegar að skrá mig í maraþon og komst að þannig að 26. febrúar næstkomandi ætla ég að hlaupa 42.2 km og ég er algerlega handviss um það að það muni hjálpa að missa ca 8-10 kg í viðbót.

Ég hef ekkert verið að léttast síðan í mars, náði þá ákv. þyngd og eftir það hef ég verið að fara upp og niður um sömu 2 kg. Sem er hið besta mál enda er ég bara að hreyfa mig þar sem mér líður vel af því en ekki til að létta mig.

Ef ég ætla að fara að skafa þessi síðustu kg af, þá þarf ég virkilega að fara að reyna á mig og ég neeeenni því ekki. Er svo hrædd um að ef ég verði ströng að þá fari þau en komi svo bara strax aftur.

Þannig að ég ákvað að taka þátt í meistaramánuðinum á FB, reyna að vera meira meðvituð um hvað ég set ofan í mig og sjá hvernig það gengur. Ef eitthvað af kg eða cm fara á þessum eina mánuði þá held ég kannski áfram þar til ég verð komin í þá þyngd sem ég vil vera í.

Og skál fyrir lengsta kommenti EVER!

Góða helgi.

murta sagði...

Vá, maraþon! Ég þarf að komast í gegnum 10 km fyrst, svo sjáum við hvað setur :)

Ég þarf að gera örlitlar breytingar á því sem ég er að gera núna, nóg til að byrja aftur að léttast, ekki svo mikið að ég fari aftur á geðveika staðinn í hausnum.