föstudagur, 2. desember 2011

Það hreinlega rýkur af mér akkúrat núna. Ég er hoppandi um af æsingi og þarf að reyna að róa mig niður. Vegna vinnu hef ég ekki komist út að hlaupa síðan á þriðjudagsmorgun og með hugann við að ég ætla að taka þátt í kapphlaupi á sunnudag var ég farin að iða að komast í eitt gott æfingahlaup til að vera viss um að ég væri í formi. Þannig að þegar ég kom heim, leyfði ég bara þvottinum að vera ósamanbrotinn og Legó að liggja á gólfinu og tannkremsklessunni að vera í vaskinum, fór frekar í gallann og beint út að hlaupa. Og ég veit ekki hvað það var, hvort allt fólkið sem var á ferli hafði þessi áhrif á mig, eða hvort það henti mér betur að hlaupa seinnipartinn eða hvort ég sé einfaldlega að verða betri hlaupari en ég setti persónulegt hraðamet. 5 km á 32 mínútum. Jása! Þetta var æðislegt. Í hvert sinn sem mig langaði til að hægja á mér, hugsaði ég um buxurnar sem ég keypti í gær.

Enn sem áðurhafði ég  misst af strætó. Í stað þess að sitja fúl og pirruð á stoppistöðinni minni ákvað ég að taka 5 mínútna röltið niður í bæ í Chester og skoða jólaljósin, skrautið og fólkið og ná svo strætó heim þaðan. Af einhverjum ástæðum álpaðist ég inn í New Look og fann þar alveg óvart buxur sem ég er búin að vera að leita að síðan í september. Greip þær í 16 og mátaði. Var í þykkum sokkabuxum en nennti ekki úr þeim og fór í buxurnar yfir. Og þær voru nokkuð rúmar. En alveg jafn flottar og ég var að vona. Ákvað að spreða pening sem ég á ekki til í þær. En á leiðinni að kassanum fór ég að hugsa. Þessar voru rúmar. Væri ekki gáfulegra að eyða pening sem ég á ekki til í buxur sem eru smá litlar núna en duga þá allavega lengur? Skilaði 16 á rekkann og greip 14. Hafði ekki tíma til að máta og fór bara og borgaði og tók andköf af spenningi. Myndi ég geta farið í buxurnar strax eða þurfti ég að bíða? Hugsa með sér! Buxur, úr efni, í stærð 14 (FJÓRTÁN!) og ég í þeim. Ótrúlegt. Og það gekk eftir. Um leið og ég kom heim reif ég mig úr sokkabuxunum og í buxurnar og voílá! Ég er í þeim. Hneppi án þess að halda í mér andanum og er svo fín.

Að hugsa sér. Þegar öll von er úti og það er ekkert eftir nema að drekkja sér í súkkulaðibaði, er hægt að snúa öllu við og enda í buxum í stærð 14. Það er vinna og það er erfitt og stundum er það óréttlátt og einstaka sinnum leiðinlegt en mestmegnis er vinnan bara skemmtileg. Og gefandi. Og upplífgandi. Og maður endar í buxum í stærð 14. Ég held ég geti ekki lagt nógu mikla áherslu á það. Að meira að segja gersamlega glötuði keisi eins og mér er viðbjargandi. Ég gat slitið ævilöngu ástarævintýri mínu með súkkulaði og fundið betra og meira gefandi samband. Við sjálfa mig.

Og þar var ég í kvöld. Á hundrað kílómetra hraða, hlæjandi í vindinum. Taglið sveiflaðist í takt við fótatökin og í hvert sinn sem andardrátturinn varð þungur eða lungun kvörtuðu hugsaði ég um buxurnar mínar. Þetta fléttast nefnilega allt saman. Hamingjan sem ég finn einfaldlega vegna þess að ég get hlaupið á hundrað kílómetra hraða. Og hamingjan sem ég finn þegar ég er sæt í buxum úr efni.

Það er allt hægt.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég verð bara að kommenta eftir að hafa verið fjarlægur aðdáandi og lesandi. Þú ert mögnuð! ég er í þessum lífstílspakka, breytingum, berjast við að geta hlaupið 5 km án þess að deyja, og kveðja kílóin hægt og rólega. 11 farin síðan í júní og á sama stað og þú núna. Þú hefur verið mér hvatning og gefið mér innblástu. til hamingju með stærð 14, njóttu þess og gangi þér vel í hlaupinu þínu.

Nafnlaus sagði...

Þú ert svo mikill snillingur kona ! K.kv Tóta