sunnudagur, 15. janúar 2012

Mig grunar að það sé hægt að segja að ég sé fórnarlamb eigin velgengni. Þegar ég lít tilbaka á síðustu tæpu þrjú árin finnst mér að fyrstu tvö hafi farið í nokkuð stöðugt fitutap og þó nokkra einbeitni af minni hálfu til að léttast. Síðasta árið hef ég svo hinsvegar tekið ægilega á því í viku, svo hálfkákað næstu vikuna, tekið einn dag í algert rugl, nokkra daga í meira hálfkák, heila helgi í rugl, svo aftur í smá tiltekt og þar fram eftir götunum. Ég finn ekkert langt tímabil þar sem ég var einbeitt og heil í verkefninu "léttast um síðustu 15 kílóin." Það kemur að miklu leyti til af því að ég er oftast bara ánægð með sjálfa mig. Ég veit að ég get borðað svo og svo mikið til að viðhalda mér eins og ég er, ég ekki lífshættulega feit lengur (og er stundum meira að segja bara dálítið sæt) og ég get gert vel flest það sem mig langar til að gera núna þegar kemur að hreyfingu. Ég er nokkuð viss um að þetta sé að halda aftur af mér að léttast um þessi síðustu 15. Það er engin örvænting í mér núna.

Örvænting er svo reyndar ekki tilfinning sem ég nenni að díla við lengur. En ég nenni heldur ekki hálfkákinu. Mér finnst ég hafa mér til varnar að ég var eldhúslaus í síðustu viku og þessvegna ætla ég að segja að þetta hálfa kíló sem ég þyngdist um sé ekki vegna hálfkáks eða einbeitningarleysis, heldur vegna "c´est la vie". Svona vikur koma stundum þar sem lífið tekur fram fyrir hendurnar á manni og það verður bara að kljást við þær og gera það besta úr þeim. Ég er ekki með hálfkák, ég er, og var alla síðustu viku, að vinna að markmiðum mínum af fullum krafti og heilindum. Hálft kíló er rassgat í bala og ég læt það ekki slá mig út af laginu.

Ég ákvað að það jákvæða sem ég myndi læra á svona djöfulviku væri að hatast ekki við granóla stykkin sem ég kenni um þyngdaraukninguna heldur hanna uppskrift að mínum eigin sem væru holl og góð. Mér tókst reyndar ekki að búa til stykki sem héldu formi, en á núna góðan skammt af granóla út á jógúrtið í næstu viku. Kókós- og heslihnetugranóla. Gómsætt.

Engin ummæli: