|
Nýr veggur, nú þarf gipsið að þorna og svo má mála. |
Þessi vika er búin að vera alveg svaðaleg. Á mánudaginn kom hingað flokkur af mönnum til að laga hjá mér veggina. Þeir höfðu komið hér fyrir nokkrum árum en unnu verkið illa og nú var ekkert annað í stöðunni en að rífa allt niður og byrja upp á nýtt. Þessu fylgdi gipsryk um allt hús og nánast ólifnaðarhæft í þrjá daga. Því fylgdi svo þrif langt fram á nætur. Og það í sömu vikunni og ég var í svaka verkefni í vinnunni og var ekki komin heim á kvöldin fyrr en eftir sjö. Ég hafði byrjað vikuna á gífurlega jákvæðan hátt, uppfull af eldmóð. Og reyndi mitt besta að halda uppi heilsusamlegum dampi þrátt fyrir að hafa í raun ekki aðgang að eldhúsi, þrátt fyrir að vera þakin ryki, þrátt fyrir að komast ekki út að hlaupa vegna tímaleysis. Og ég var bara nokkuð ánægð með hvernig gekk. Þangað til á miðvikudag þegar ég keypti, í smá örvæntingu, kassa af morgunverðarorkustöngum til að stinga í nestisboxið mitt af því að ég gat ekki búið neitt til í allri drullunni í eldhúsinu. Ég keypti þær gegn betri vitund. Ég hugsaði meira að segja með mér að það væri betra fyrir mig að kaupa bara fjögur snickers því þá væri ég að minnsta kosti ekki að ljúga að sjálfri mér og heiminum. En nei, eitthvað fannst mér meira "socially acceptable" við að borða granola nut bar klukkan 10 að morgni en snickers. Þrátt fyrir að í granola nut bar væru fjórar mismunandi tegundir af sykri. Í snickers er þó bara ein tegund. Sykur. Og vikan hefur legið nett niður á við síðan, magnast upp af stressi, drullu, tímaleysi, meira stressi vegna þess að ég gat ekki planað matinn, meira stress vegna vinnunnar, þreytu, vöntun á hreyfingu, og allan tímann hakkaði ég helvítis heilsubitann í mig og fór alltaf yfir á kalóríunum á því.... vítahringur frá helvíti.
Og hvað gera bændur? Jú, klára að þrífa kofann og fara svo út að hlaupa í fyrramálið og halda bara sínu striki. Fokk og enter.
3 ummæli:
Stundum verður maður bara að taka þetta á æðruleysinu og horfast í augu við að maður hefur ekki hlutina í hendi sér (já og ég gef skít í þá tuggu að "það er alltaf hægt að finna tíma til að ....., bara spurning um að skipuleggja ...") en þú hittir naglann á höfuðið í lok pistilsins, maður heldur bara sínu striki.
Elska "Fokk og enter" og þig!
H
Hahaha... "fokk og enter" er það allra besta sem ég hef séð í langan tíma!
kv/Soffía (dyggur lesandi)
Já, þú átt fokk og enter Hanna, algert uppáhald :) Og ég elska þig right back at you! xx
Skrifa ummæli