Um leið og ég kom heim úr vinnu í gærkvöld smellti ég mér í partýgallann, setti krakkann í pössun og við Dave röltum okkur á einn af lókal pöbbunum hérna í næsta þorpi. Þar hittum við mágkonu mína og svila, Tracy og Garry, sem voru að fá sér öl af því að Garry átti afmæli. Ég er búin að búa hér síðan í júní 2003 og enn er það þjóðfélagsstúdía fyrir mig að fara á pöbbinn hérna. Ég veit bara fátt skemmtilegra því menningarmismunur Íslendinga og Breta er hvergi skýrari en á lókalnum. Við fórum á New Inn sem er í Johnstown. Húsið er eldgamalt og var áður hesthús eða etthvað slíkt en hefur verið pöbb núna í rúma öld. Þegar inn er komið blasir við myndarlegur bar úr þykkri eik og vertinn sem nikkar til manns. Við barinn standa fastagestirnir með dökkan bjór og virðast ekki hafa hreyft sig síðan ég sá þá þegar ég síðast kom þangað í október. Á gólfinu er þykkt og fallegt teppi með rósamynstri og af því leggur aldargamall þefur af humlum og hlandi. Lágt til lofts og gestirnir sitja við lítil borð sem er dreift um fjögur herbergi og skot sem mynda allan pöbbinn. Innst er snooker borð og þar eru nokkrir ungir menn að spila. Hljómsveitin í kvöld er úr þorpinu. Aðalsöngkonan er stórglæsileg kona á sextugsaldri. Hún er í þröngum svörtum rokkbuxum og alskreytt hálsmenum og armböndum. Hún er með sítt, hvítt hár sem fer henni vel. Bandið er á aldrinum 40- 60 ára og eru allir í bolum sem lýsa því yfir að þeir hlusti á The Who, Jimi og Creedence Clearwater Revival og með mismikið af hári. Dave fer á barinn og nær sér í uppáhaldið sitt John Smith sem er ekki lager heldur dökkur bjór sem er kallaður bitter. Sjálf er ég að drekka vatn. Ég spurði sjálfa mig spurninganna sem ég hef einsett mér að spyrja áður en ég borða eða drekk eitthvað sem ekki fellur að heilsusamlegum lífstíl. Þ.e. ég þarf að spyrja er þetta hjálplegt til að koma þér nær markmiði þínu? Ef svarið er nei þá þarf ég líka að spyrja hvort þetta sé hjálplegt til að ég geti lifað raunhæfu lífi án þess að vera súr og "deprived" og sé þannig hjálplegt þegar ég skoða stóra samhengið. Í þetta sinnið var svarið líka nei, því ég sá að ég myndi skemmta mér alveg jafnvel án víns. En það er önnur saga. Við sitjum hjá Tracy og Garry og upp spretta líflegar umræður um ferskan fisk, tónlist, sumarfrí og mataruppskriftir. Garry er ástríðukokkur og getur talað um mat allt kvöldið. Hinir gestirnir eru í svipaðri stemningu, þegar ég lít í kringum mig eru ég og Tracy einu konurnar. Mennirnir eru allir miðaldra og eldri, sumir fullir, sumir hálffullir, allir í góðu skapi, engin læti. Inn koma svo fleiri gestir, nú menn á aldri við Sigga afa og með þeim ein kona, um sjötugt. Þeir kaupa sér allir "pint", hún fær "half pint". Svona er það bara. Svo byrjar hljómsveitin að spila og það er erfiðara að tala saman. Ég tek eftir að gömlu kallarnir syngja með, "I can´t get enough of your love" syngja þeir með gömlu rokkurunum og dilla sér. Ég er alveg dolfallin. Ekki sér maður fólk á þessum aldri á pöbb á Íslandi og hvað þá syngjandi með rokkslögurum. Svo fer unga fólkið að koma, allir heilsast og faðmast, flestir eru úr þorpinu og eru sjálfsagt skyld. Eins og ég færi á pöbbinn og hitti Huldu ömmu. Það þætti mér varið í hugsa ég með mér og set bak við eyrað að heimta að hún fari á Happy Hour með mér næst þegar ég kem heim. Unga fólkið er fyllra en það gamla. Meiri læti í þeim, eldra fólkið er fullt en ekki með læti. Svo sé ég að þau eru öll að klappa fyrir söngkonunni og hún veifar til þeirra allra og knúsar svo á milli laga. Tracy segir mér að hún sé aðstoðarskólastjórinn og velskukennarinn í Grango skólanum í Rhos, þorpinu mínu. Þau eru sjálfsagt öll gamlir nemendur. Svona eins og mamma væri í bandi með Labba í Glóru og væri að syngja á Gauknum (er hann enn til?) og krakkarnir í Þolló kæmu að sjá hana. Frábært. Svo koma inn fjórar konur á fertugsaldri. Greinilega búnar að staupa sig aðeins heima og þær byrja allar að dansa í svaka stuði. Þær eru heldur glyðrulega klæddar að mínum smekki en það er eitt hér í Wrexham sem ég þarf bara að venjast, konurnar eru glyðrur. Svona er það bara. Þær dansa og skemmta sér og undir lok kvölds er ein þeirra komin í hörkusleik við rótarann. Result! Við lokalagið byrja svo tveir ungu mannanna að slást og er hent út. Örugglega eitthvað með sætu, rauðhærðu stelpuna að gera. Eða þá að þeir eru bara knobheads. Það er ekkert ólíklegt. Bandið klárar svo á bítlalagi og við Dave kveðjum Tracy og Garry og stöndum upp til að rölta upp Gutter Hill, Dave örlítið valtur á fótunum. Bráðskemmtilegt kvöld og eins og ég segi, alltaf jafn gaman að sjá hvernig Bretar gera þetta. Mér finnst skemmtilegt hvað kynslóðirnar blandast vel saman, allir á einum pöbb og ekkert mál. Og að sjá eldra fólkið úti líka er svo gaman. Eitt gera þeir þó alveg eins og við Íslendingar; þeir verða alveg blindfullir.
Á meðan Dave svaf svo á sínu rykuga eyra í morgun fór ég út að hlaupa. Hljóp til Wrexham. 7 km á tæpum 50 mínútum. Þurfti að stoppa og labba aðeins, ég er greinilega aðeins að missa þol. Bara mánuður síðan ég hljóp 10 km en núna með jólin í maganum og minna hlaup út af veðri er ég ekki jafn góð lengur. Ekkert mál, það vinnst fljótt upp aftur. Ég rölti aðeins um bæinn, fór í Holland og Barrett að kaupa rúgmjöl, stoppaði við í New Look og skoðaði skó og fór á Café Nero og fékk mér latte og muffin til að laga smá svima sem ég fann fyrir. Það var ekki fyrr en þá sem ég fattaði að ég hafði sem sagt verið að stússast um bæinn og sat nú á kaffihúsi í hlaupagallanum! Ég er ekki í lagi. Tók svo strætó heim og ætla að slaka á áður en við förum í matarboð. Svo er það bara að stíga á vigtina á morgun. Upphafsþyngd eftir jól: 90 kiló. Fjögur í plús sem þurfa að hypja sig áður en ég er aftur komin á sama reit og fyrir jól. Spennandi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli