mánudagur, 28. maí 2012

 Ásta kom til Chester á laugardagskvöld og við höskuðum okkur nokkuð snarlega heim til Wrexham þar sem við elduðum fínan kveldmat og borðuðum úti á palli. Hér er búið að vera það sem heitir Mæjorkaveður í nokkra daga og virtist ekkert lát ætla að vera á um helgina. Þegar sunnudagur rann svo upp var komið að 10km hlaupi í Bangor. Við fengum okkur fínan smoothie í morgunmat og drifum okkur svo af stað.
 Ég byrjaði þó daginn á að reka tána í sjálfa mig og uppskar "blátá". Þetta var helvíti sárt og ég hafði nokkrar áhyggjur af því að ég gæti ekki hlaupið vel með þennan áverka.
 En það var ekki um annað að ræða en að reima á sig skóna og halda í hann. Leiðin til Bangor frá Wrexham er rétt um tveggja tíma keyrsla þannig að Dave minn fór með okkur og sýndi okkur stoltur landið sitt. Við fengum eitt pissustopp á leiðinni þar sem við fengum okkur gróft brauð með hnetusmjöri til að vera fullar af orku.

 Við keyrðum sem leið lá í gegnum Snowdonia sem er þjóðgarður hér í Wales þar sem er mikið farið í fjallgöngur og mikil túristaverlsun við ferðamenn sem koma þangað gagngert til að klífa fjöll, ganga og veiða silunga í vötnum.
 Við fundum svo Bangor og Race HQ og skráðum okkur og fengum númer. Bangor er háskólabær og ber þess aðeins merki, þar eru barir og pöbbar í bland við verslanir. Hún stendur við Menai strait og er þar með við sjóinn sem er náttúrlega æðislegt. Að fá þaralyktina í nasirnar með andvaranum var ekkert nema gott.
 Við rásmarkið var farið að safnast saman múgur og margmenni, og mér taldist svo til að um það bil 400 manns væru skráðir í hlaupið. Ég var bara hress og kát þarna, uppfull af eðlislægri sjálfsaðdáun og ofurtrú á hæfileikum mínum. Blátá var bara fín og þó það væri næstum 30 stiga hiti hugsaði ég með mér að með Ástu með mér gæti ég hvað sem er.
 "Thumbs up!" Ekkert mál, sjáumst eftir 80 mínútur segi ég við Dave, til að hafa vaðið neðan fyrir mig en hafði fyllilega í hyggju að bæta 70 mínútna tímann minn síðan í desember svona inni í mér.
 Ásta var ekki með neitt markmið í huga, hún ætlaði bara að vera með mér. Og var jafn hress og ég þegar lagt var í hann. Hlaupið byrjaði ágætlega, ég hélt léttum takti og við leyfðum flestum að fara fram úr okkur. Byrjunin var hægt upplíðandi og ég man að hafa hugsað með mér að þetta hlyti að vera eina brekkan því ég var alveg viss um að hafa lesið að það væri flöt leiðin. Svo hlupum við meðfram sjónum, og í hring um bryggjuna og svo aftur inn í bæinn þar sem átti að fara tvo hringi áður en maður hélt aftur inn í miðbæinn að endamarki. Þegar við komum út af bryggjunni og inn í bæinn sá ég að þar hófst mikil brekka. Þarna vorum við búnar að hlaupa í tæpan hálftíma. Og ég get ekki logið að mér brá smávegis. Allt of heitt fyrir mig og núna brekka! Hálfa leiðina upp gat ég ekki meir og þurfti að labba. Ásta var ekki komin til að ná neinum persónulegum tíma þannig að hún hélt takt við mig frekar en að þeysa af stað. Hún hefði örugglega getað farið þetta á vel innan við klukkutíma en hún hélt verkefninu að halda mér við efnið. Ég skal alveg viðurkenna að ég hagaði mér eins og smákrakki á þessum tímabili. Tveir langir hringir upp, upp, upp, upp brekku. Ég átti erfitt með að ná andanum í þessum hita og mér leið afskaplega illa. Ég kláraði mig eiginlega alveg við þetta og þegar að við lukum við hringina og við tók beinni leið aftur að markinu var ég orðin svo fúl og þreytt að ég þurfti enn að skiptast á að hlaupa og labba. Sem betur fer sagði Ásta að stelpa sem við höfðum farið fram úr þó nokkru áður var að draga á okkur og mér þótti vont að láta hana fara fram úr mér. Keppniskapið alveg í lagi.  Ég meira að segja varð ekki glöð þegar ég sá lokamarkið, hugsaði bara með mér að það væri djöfull langt i burtu. En svo byrjuðu áhorfendur að klappa og hvetja mig áfram og einhvern vegin fann ég orku til að skokka þessa síðustu metra. Ég er líka svo meðvituð um áhorfendur og hvernig hlutirnir lúkka að það kom aldrei neitt annað til greina en að spítta í og brosa.

Ásta kom í mark, án þess að svitna eða blása úr nös, alveg jafn sæt og hress og þegar hún lagði af stað.
Og svona var Svava Rán þegar hún kom í mark. Þetta er sjálfsagt munurinn á tuttugu kílóum. Ásta hafði lagt það fyrir mig þegar ég kvartaði hvað hæst að ég þurfti að hugsa upp sjö ástæður fyrir því hversvegna ég væri að hlaupa, hversvegna ég væri betur stödd núna en fyrir þremur árum. Það er gaman að horfa á myndina  og og heyra mig segja þar sem ég lá á jörðinni og taldi upp ástæðurnar mínar fyrir Ástu og Dave að hátt á listanum var "I feel sexy". Sexy indeed.
Þegar ég náði svo aftur sönsum fórum við og skoðuðum okkur um. Löbbuðum um ströndina og kældum okkur niður. Tíndum velska steina sem núna eru bollamottur hér á stofuborðinu hjá okkur.
Stoppuðum við í Snowdonia á Alpine Coffee House og fengum post-race skonsur.
Þegar heim var komið var enn sólskin í garðinum og vel við hæfi að fá sér spælegg og franskar. Svo fínt svona eftir erfiði.

Við Ásta þar með búnar að hlaupa 10 km í hjarta Wales. Ég búin að leggja inn hlaup númer fimm í 12 á 12 áskoruninni minni. Ég er dálítið teygð og toguð eftir þetta; það kom út úr þessu miklar pælingar um hversvegna ég hef verið stopp í þyngdartapi svona lengi, ýmislegt sem ég þarf að hugsa um dálítið meira. En í minningunni núna, þegar ég er búin að þvo af mér svitann og andardrátturinn kominn í eðlilegan takt var þetta bara gaman.

5 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Vó, þetta var glæsilegt hjá þér. Það er hægara sagt en gert að hlaupa í 30 gráðum og hvað þá 10 km! Mátt sko vel vera stolt af þér og ég get ímyndað mér að það hefur verið gott að vera með klappstýru með sér alla leiðina! :)

Innilega til hamingju með þetta.

Nafnlaus sagði...

Þú ert svooooooo sexý :D Takk fyrir mig elsku vinkona :* þín Ásta t.

Erla sagði...

Til hamingju með hlaupið. Mér finnst allar sem taka þátt í alvöru hlaupum vera ofurmenni

kv. Erla

Hanna sagði...

Ohhh hvað þetta er frábært - vildi óska að ég hefði verið með ykkur! En við höfum þetta bara sem markmið í september. Það er æðislegur hringur hérna upp á 10 km sem við getum lagt að baki ef við bara erum hressar og höldum hópinn!
Knús
Hanna

Shauna sagði...

Well done foxy lady, really enjoyed (badly translated version of) your post :)