laugardagur, 21. júlí 2012

Eftir sumarfrí tekur alvara lífsins aftur við. Nýja vinnan bíður, ég búin að kaupa killer hælaskó til að líta út eins og ég sé að taka á verkefnunum af alvöru og ég hlakka ægilega til að sjá hvaða áskoranir bíða mín. (Ég er ekki vön að ganga um á átta og hálfum sentimetrum svona dagligdags.)

Þetta var fjórða sumarfríið mitt EL. (Eftir lífstílsbreytingar) Ég hef alltaf þyngst eitthvað smávegis, á bilinu fjögur til tvö kíló eða svo. Í ár var engin undantekning þar á og ég er búin að éta á mig fimm kíló. Ég ætlaði að fá angistarkvíðakast yfir þessu en svo kom í ljós að ég hef ekki áhyggjur af kílóum per se. Ég hef meiri áhyggjur yfir hugarástandinu sem hefur fylgt þeim. Ég hef trekk í trekk staðið mig að því að venja mig af góðu venjunum sem ég var komin upp á. Einföldu hlutirnir sem ég hélt að væru orðnir inngrónir og ég þyrfti ekki lengur að leggja á mig neitt til að viðhalda. En það kemur í ljós að rúm þrjátíu ár af ósiðum eru yfirsterkari þremur af góðum siðum.

Pulsa og kók. "Worth it" matur? Ekki viss. 
Þannig er ég farin að svíkjast undan hreyfingu. Jú, ég fer út að hlaupa en vegalengdirnar eru alltaf að styttast. Og það sem verra er að ég hef litla sem enga ánægju af því að hlaupa lengur. Ég sé þetta orðið sem kvöð núna. Ég er nánast alveg hætt að gera líkamsþyngdaræfingar og pilates er aðeins gert til hátíðarbrigða. Mér finnst ég  vera að gera fullt en það eru margir dagar þar sem ég geri ekki rassgat og ég er svo sannarlega ekki að hreyfa mig hálft á við það sem ég gerði fyrir sex mánuðum síðan. Ég var búin að koma þessu þannig fyrir hjá mér að ég vaknaði bara á morgnana, fór í hlaupagallann og út. Engin umræða, ekkert val, bara út. En ég er búin að leyfa sjálfri mér að rökræða þetta eitthvað við sjálfa mig og það er oft sem Hlussan vinnur þær rökræður. (Hún sest bara ofan á mjóu Svövu sem getur sig þá hvergi hrært.)

Krispy Kreme donut. Soooooo worth it!
Á sama hátt er það alltof oft sem ég stoppa við í kex- eða súkkulaðirekkanum í Co-Opinu. Og gríp eitthvað með mér. Það er ekki langt síðan ég var búin að koma því þannig fyrir að ég tók ekki einu sinni eftir þessum rekkum, labbaði bara framhjá. En núna teygir Hlussan feita puttana eftir einhverju gúmelaðinu og kjamsar á því um leið og hún kemur heim. Og mjóa Svava bara fylgist með. Segist ekki ráða neitt við neitt.

Það er merkilegt að hugsa þannig. Ráða ekki neitt við neitt. Ég var farin að hugsa að þetta væri ekkert mál. Að ég væri búin að breyta mér og hvernig ég hagaði mér í vissum aðstæðum þannig að ég þyrfti ekki að kreppa sjálfstjórnarvöðvann lengur. Hélt að ég gæti jafnvel notað innsæið eitt til að stjórna hverju ég borða og hvernig ég hreyfi mig. (Því miður þá virðist sem svo að innsæjið segi mér að borða eins og skógarhöggsmaður.) Kveinkaði mér svo í máttleysi þegar ég leyfði lélegum ákvörðunum að ráða för. Klóraði mér í höfðinu og sagðist ekkert skilja í þessu. Málið er að ég var búin að gleyma að þetta var heilmikið mál. Þegar ég fyrst byrjaði að hreyfa mig þurfti ég að pína sjálfa mig til þess. Bókstaflega rífa sjálfa mig upp á feitu rassgatinu til að tussast til að gera eitthvað. Sama var með kexrekkann. Ég tvísté oft lengi fyrir framan hann og kvaldist þangað til ég neyddi sjálfa mig til að labba í burtu. Þetta voru sigrar. Svo varð þetta eðlilegt og svo fór ég allan hringinn og hélt ég gæti sleppt hreyfingunni og fengið mér súkkulaði öðruhvoru. Að ég gæti gert bæði í einu. En ég hef ekki forgangsraðað á réttan hátt að undanförnu.

Nú er svo komið að ég þarf að byrja aftur. Ég þarf að neyða sjálfa mig út og ég þarf að labba grátandi framhjá kexinu án þess að grípa með mér pakka. Þetta hljómar eins og ég sé að refsa mér eða gera eitthvað slæmt en það er ekki svo. Ég veit hver verðlaunin eru fyrir að gera það, ég veit hvernig vellíðanin er sem kemur eftir smástund. Ég þarf bara að halda mér við efnið í nokkra daga.

Þetta er ég í svörtu fötunum. Búin að klifra og klifra. 
Ég þarf að koma mér aftur í skikkanlegt ástand. Og með skikkanlegu ástandi á ég ekki við einhver x kíló. Ég er meira að tala um að vera aftur í því hugarástandi þar sem mér leið eins og milljón dollurum. Þar sem flestar ákvarðanir sem ég tók voru í mína eigin þágu, ekki gegn sjálfri mér. Mér finnst þetta nefnilega skemmtilegt. Meira að segja þegar þetta er erfitt þá er þetta gaman. Mér finnst gaman að ögra sjálfri mér og það er í alvörunni ekkert betra en þegar maður getur gert eitthvað eins og að klífa vegg eða keypt sér eitthvað i minni stærð en maður er vanur. Það verður bara að hafa það hversu vandræðalegt það er að enn einu sinni byrja upp á nýtt. Ég kaus sjálf að gera þetta svona opinberlega.

Þetta er rússbíbanareið en hversu erfitt sem það virðist að hanga á þá er það oftast það eina sem er í boði. Ég er ekki fullkomin en þetta snýst heldur ekki um að vera fullkomin. Þetta snýst um að sýna sjálfum sér virðingu, samhyggju og þolinmæði. Þetta snýst um að hafa úthald, halda sér við efnið og að lifa lífinu, skemmta sér og reyna að velja besta kostinn við hvert tækifæri. Og þannig skapar maður besta lífstílinn fyrir sig. Og vonandi getur maður lifað lífinu án samviskubits, án skammar og af fullkomnum gleðilátum.

4 ummæli:

ÍrisJe sagði...

Þú skrifar á svo einlægan hátt Svava Rán að það er eiginlega ekki hægt annað en að stíga inn í rússibanann með þér í pistlinum! :)

Hanna sagði...

Elsku Baban min. Tetta eru atök, enginn vafi um tad og skrif tin gera tetta atreifanlegt. En tu verdur ad halda ter fast tvi tannig verdur blessada russibanareidin heillavænlegri.
Knus a tig
H

Inga Lilý sagði...

Þú hefur akkúrat ekkert til að skammast þín fyrir, held að langflestir þyngist eitthvað í fríinu sínu þar sem maður fer ósjálfrátt alltaf í einhverja aðra fæðu og minni hreyfingu.

Mér finnst þú ótrúlega dugleg og þú getur verið mikið stolt af þér hversu langt þú ert komin.

Þetta var akkúrat pistillinn sem ég þurfi að lesa í dag, er að fara til Íslands á miðvikudag og óboj, þar eru sko freistingarnar á hverju strái. Veit að ég á eftir að borða óvenju óhollt og ekki hreyfa mig eins mikið en ætla nú samt að reyna að slaka aaaðeins á átinu :) Þannig að þetta var fín áminning.

Gangi þér óóóótrúlega vel í nýja starfinu, þú verður mesta skvísan og tekur killer ákvarðanir í killer hælunum.

murta sagði...

Held mér fast og segi bara víííí!!!
:)

Góða ferð heim Inga Lilý og góða skemmtun xx