mánudagur, 23. júlí 2012

Success consist of going from failure to failure without loss of enthusiasm. - Winston Churchill. 


Það  er ágætt að minna sig á þetta á svona tímabilum. Ég, eins og Winston, er í stuði. Það sem ég þarf að muna er að ég er ekki undir neinni skyldu bundin að fá mér súkkulaði þegar ég er glöð. Ég verð ekkert glaðari við það. Á sama hátt er það hvergi skrifað í stjörnunar að ég þurfi að fá mér kleinuhringi og köku til að láta mér líða betur ef mér líður illa. Ef mér líður illa þá þarf mér bara að líða illa þangað til það líður hjá. Ef mér leiðist þá er hægt að finna sér ýmislegt til dundurs áður en maður graðgar í sig í hugsunarleysi það fyrsta sem maður nær í. Svo er líka allt í lagi að leiðast öðruhvoru. Ég þarf ekki að nota tilfinningar mínar, góðar eða slæmar, sem réttlætingu á ofáti.

Ég hugsa að þetta sé það allra erfiðasta við þetta allt saman. Það er erfiðast að vera þolinmóð á meðan skapsveiflurnar líða hjá. En ég hef líka lært að það er ekkert sem segir að mér eigi eftir að líða eins í dag og mér kemur til með að líða á morgun. 

Ég þarf stanslaust að minna sjálfa mig á að þessi tímabil niðurrifs koma og þau fara. Það sem ég þarf að gera er að muna að vanalega læri ég eitthvað mikilvægt þegar þessi tímabil koma. Svo þarf maður bara að pakka sér saman og halda áfram. Ég trúi því að það sé meira varið í það sem er framundan en það sem á undan hefur farið. 
Engin ummæli: