Ég á rosalega erfitt með að skrifa núna. Mér finnst mér hafa tekist að halda uppi tveimur þriðju hlutum af heilsusamlegum venjum að undanförnu og ég held að ég geri það svona nokkurn vegin ósjálfrátt. Ég fer út að hlaupa, ég geri pilates eða bodyweight æfingar og ég er meðvituð um það sem ég er að velja að borða. Ég bara er ekki alltaf að velja það besta fyrir mig. Ég virðist ekki geta farið í frí án þess að slaka á sjálfstjórnarvöðvanum. Og þetta þýðir líka að ég er alls ekki að ná neinum markmiðum, ég er ekki að gera neinar uppgötvanir og ég hef ekkert fram að færa eða til málanna að leggja í umræðunni um heilsusamlegan lifstíl.
Mér finnst einhvern vegin eins og ég missi alltaf sjónar á því sem ég er að reyna að gera. Hlutirnir fara í einhverja rútínu og svo gleymi ég hvað ég er að gera. Ég byrja að trúa ruglinu í sjálfri mér. Bara af því að ég er hætt að borða í offorsi (binge) þýðir það ekki að ég sé ekki enn að raða í mig án þess að veita því nógu mikilli athygli.
Ég hef tapað þessari örvæntingu sem var fyrst minn stærsti hvati til að léttast. Mér finnst ég bara voðalega fín. En svo passa ég ekki í eitthvað eða er kjökrandi af sársauka í hnjánum eftir hlaup og þá man ég að ég er enn ekki nógu létt til að viðhalda þeim lífstíl sem ég vil lifa.
Við erum að fara í burtu í viku. Þegar ég kem tilbaka ætla ég að setjast niður og skoða hvað það er sem ég vil fá út úr lífinu og hvað ég er tilbúin að gera til að fá það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli