miðvikudagur, 3. október 2012

OfurOktóber - fer hægt af stað. 
Ég er enn heima í fríi. Átti inni nokkra daga sem ég fæ ekki að nota um jólin og hugsaði því með mér að það væri fínt að vera bara heima og slaka á eftir Kaupmannahöfn.

Ég hafði í hyggju að hlaupa til að koma æfingaplani aftur á rétt ról. Ég ætlaði líka að djúphreinsa húsið og henda allskonar drasli og reyna að búa til meira pláss hérna hjá okkur. Svo hafði ég í hyggju að plana og skipuleggja það sem verður þekkt sem Ofur Október. Búa til æfingaplan, og matseðla og verlsa í matinn eins mikið fram í tímann og hægt er.

Þess í stað þá tjékkaði ég mig út í gær. Ég bara tjékkaði mig út úr lífinu. Fór með Láka í skólann, kom aftur heim og sat svo í makindum og las bók þar til ég fór að ná í hann aftur. Með þó nokkrum ferðum inn í eldhús til að ná mér í ristað brauð.

Hvenær fæ ég tækifæri til að gera ekki neitt? Var ekki bara allt í lagi að taka einn dag þar sem ég hvorki hugsaði né gerði? Var ég ekki bara að endurhlaða batteríin?

Í Kaupmannahöfn gengum við framhjá hópi af Hare Krishna fólki sem sat og sönglaði lagið sitt og var að gefa súpu og salat þeim sem vildu. Ég sagði við Ástu að mér finndist þetta svo mikið "cop out" úr lífinu. Hvað hjálpar þetta fólk umheiminum með að söngla tóna og gefa súpu í ríku hverfi í ríkri borg með ágætis samfélagsþjónustu? Hverjum er þetta að hjálpa? Af hverju er ekki tímanum og orkunni eytt í eitthvað sem skiptir máli? Og þetta "cop out" hugtak festist aðeins í mér.

Og mér datt í hug hvað þetta er í raun skrýtið að ég skuli enn hugsa um dag þar sem ég hreyfi mig ekki, tel hvorki né vigta né legg einhverja sérstaka hugsun í magn eða gæði matarins sem ég borða, sem dag í fríi. Eins og ég geti tekið frí frá sjálfri mér. En málið er að yfirgnæfandi tilfinningin er að ég sé að kúpla mig út úr lífinu mínu eins og ég vil hafa það. Algjört cop out. Ég skil ekki afhverju ég get ekki tekið dag þar sem ég er ekki mikið að spá í neinu án þess að fara algerlega í hina áttina. Afhverju þarf ég að troða í mig brauði allan daginn? Afhverju get ég ekki slakað á án þess að fremja hryðjuverk á sjálfri mér? Og ég skil ekki afhverju ég þarf enn að hugsa um svona dag sem "frí". Frí frá hverju? Heilsusamlegum lífstíl? Er hann í alvörunni svo hrikalega mikil vinna?

Ég fékk um daginn fallega athugasemd við mynd af mér á facebook þar sem ég var kölluð fyrirmynd. Og fátt þykir mér betra. En mig langar til að vera heil og sönn fyrirmynd. Heil og sönn manneskja sem kúplar sig ekki út öðru hvoru. Slaka á og lesa bók heilan dag, já svo sannarlega. Það vil ég gera ef tækifæri gefst til. En ég vil ekki kúpla mig út og ég vil ekki nota þessa daga til að éta mér til óbóta.

1 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Mmmmm lesa í heilan dag!! Það er sko almennileg hvíld og stundum þarf maður bara á henni að halda. Ert ekkert minni fyrirmynd fyrir vikið!