sunnudagur, 18. ágúst 2013

Ég er núna búin að reyna að vera ekki í megrun í þó nokkurn tíma. Það er búið að vera hressandi að minna sjálfa mig á að ég hef leyfi til að meta sjálfa mig frá allskonar sjónarmiðum og eftir öðrum stöðlum en þeim sem mæla vigt og ummál. Það erfiðasta hefur verið að reyna að skilja að þó ég borði þá er ég ekki vond manneskja. Mér hefur reyndar tekist illa að sannfæra sjálfa mig um það. Það er nánast útilokað fyrir mig að aðskilja át frá sjálfsmati.

Af þessum ástæðum hef ég verið að hringsnúast um skoðanir mínar á þessu öllu saman í þó nokkurn tíma núna. Mér leið tvímælalaust betur í líkamanum fyrir 20 kílóum síðan en ég var þá líka heltekin af hugsunum um mat. Á hinn bóginn er ég enn heltekin af hugsunum um mat og er þessvegna svo sem engu betur sett. Ég var að verða geðveik af því að lifa eftir einhverjum reglum og af öllum upplýsingunum sem stangast hver á við aðra. Reglulaus er ég reyndar alveg jafn týnd.

Að vissu leyti er ég enn ákveðin í að halda áfram leytinni að jafnvæginu, þessu sem segir að ég sé hamingjusöm í hvaða líkama sem er, þessu sem segir að það sé ekki hægt að leggja mat á virði mitt sem manneskju eftir því hvort ég borði snickers eða spergilkál, þessu sem segir að það sé gott að hreyfa sig og að það sé líka gott að slaka á. En jafnhendis þessari leit minni að jafnvæginu er orðið nokkuð ljóst að ég þarf á reglunum að halda.

Það var ósköp notalegt í sumarfríinu. Tvær vikur á Spáni þar sem ég fékk mér croissant í morgunmat, bjór í hádeginu og patatas bravas í kvöldmat með rauðvíninu. Ég er líka búin að ná mér upp í 105 kíló. 5 kíló í plús við töluna sem ég sór að myndi aldrei sjást aftur. Og enn er ég full af þversögnum; um leið og ég belja um að vigtin segi ekki neitt til um manngæði fæ ég hland fyrir hjartað við að sjá töluna. En ég er líka uppfull af eldmóð að ná þessu af mér aftur. Það er gott og blessað að vera sáttur í eigin líkama, og göfugt markmið, en það er líka ekkert að því að vilja vera léttari.

Það verður að hafa það þó ég kalli þetta megrun. Eða lífstíl. Eða hvað sem er. Það verður að hafa það þó ég viti að það verði erfið fyrstu skrefin í fyrstu æfingunni. Það verður bara að hafa það þó ég verði grenjandi af sykurfráhvarfseinkennum til að byrja með. Það verður bara að hafa það. Ég ætla ekki að verða feitari en ég er núna.

Mér er eiginlega drullusama þó ég sé í mótsögn við sjálfa mig og það sem ég hef sagt undanfarna mánuði. Ég finn bara þetta helvítis jafnvægi þegar ég er orðin mjó.

Engin ummæli: