Á þessum árstíma er einungis ein spurning sem brennur á vörum bresku þjóðarinnar; ertu búin að kynda? Á hverjum morgni spyr einhver mann sposkur á svip og svo er beðið eftir svarinu með andagt. Keppikeflið er að forðast sem allra, allra lengst að kveikja upp í. "Þegar ég kom heim í gær var kalt og hráslagalegt í húsinu en svo fór ég í sturtu og fékk mér te og það var allt í lagi fram eftir kvöldi" sagði ein samstarfskona mín við hópinn í dag og allir hrósuðu henni í hástert fyrir hugvitið. Á eftir henni fylgdu sögur frá þeim öllum. "Ég bara kveiki ekki undir fyrr en í nóvember!" sagði ein og hnykkti til höfðinu. Og allir jánkuðu þessu. Það er bara svo dýrt að kynda húsin að þetta er orðin þjóðaríþrótt að rembast við að lafa fram að allavega Bonfire Night áður en British Gas fær að taka í pyngjuna. Sjálf kinka ég bara kolli og úa og aa með hinum yfir hversu klár þau eru. Og fer svo heim í funheitan kofann minn sem er búinn að vera upphitaður síðan í Júlílok. Ekki ætla ég að segja þeim að Íslendingurinn í hópnum sé kuldaskræfa.
Hitt umræðuefnið er svo nánast óhjákvæmilegt. Nú er ég kannski lélegur feministi þegar ég kalla þetta óhjákvæmilegt. Ég stjórna 18 manna hópi sem skiptist í 13 konur og 5 karla. Og þegar 13 konur sitja saman í 7 klukkutíma á dag virðist það vera óhjákvæmilegt að tala um megrun. Það byrjaði ein ný hjá mér á mánudaginn. Hún er svona að aðlagast hópnum og gengur ágætlega. Í dag var smá spjall í gangi og hún snýr sér að mér og spyr hvernig mér gangi í megruninni. Mig rekur ekki minni til þess að hafa neitt sérstaklega minnst á megrunarkúr við hana, né reyndar neinn annan. Fyrir mér er þetta svo stórt og flókið málefni að ég bara get ekki spjallað um "megrun" svona á léttu nótunum. Og alls ekki á þeim forsendum sem hópurinn minn ræðir málefnið. "Ég verð að byrja í megrun" stynur ein. "Oh, ég var á þessum frábæra kúr í vor, borðaði bara mat sem hét eitthvað sem byrjar á stafnum C, léttist um sjö kíló. En svo fór ég i frí og gleymdi og nú er það allt komið aftur". "Ég ætla að fasta á mánudaginn" "En maður á nú líka skilið að fá gott öðruhvoru" "Já, auðvitað." "Ég ætla að ná mér í snickers....."
Ég, skiljanlega, bara get ekki hlustað á þetta og hvað þá tekið þátt í umræðunum. Og verð að viðurkenna að ég var hálf kjaftstopp þegar ég var spurð rétt sí sonna á hvað kúr ég væri. Er það í alvörunni svo sjálfsagt mál að maður sé bara í megrun? Og þegar ég spáði í því þá eru líkurnar mun hærri á að kona svari því til að hún sé í megrun en að hún segist ekki vera í megrun. Í hreinskilni, þekkið þið einhverja konu sem er ekki "að passa sig, í megrun, búin að breyta um lífstíl, er að gera litlar breytingar, ætlar að hreyfa sig meira....."
Ég er ekki í megrun. En að reyna að útskýra hvað ég er að gera er samtal sem ég get ekki leyft á meðan ég er með fólk á tímakaupi þannig að ég sagðist vera hæstánægð með megrunina mína. Hæstánægð. Hún fælist í að stunda svetti í stofunni heima. Ég væri nefnilega með kyndinguna á fullu blasti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli