þriðjudagur, 24. september 2013
Mitt allra helsta uppáhald er haframjöl. Ég elska haframjöl. Mér finnst það ómissandi í kjötsúpu, ég gæti lifað af hafrakökum, hafrakex er himnasending og best af öllu er hafragrautur. Mér finnst hann allra bestur kaldur. En þar sem ég hef ákveðið að sleppa haframjölinu, alla vega svona á meðan ég finn út nákvæmlega hvað ég þoli af kolvetnum nú þá varð ég að fatta upp á einhverju í staðinn. Flaxið kemur sterkt inn, ég er búin að nota það í brauð og kökur, í mínútumúffur og annað sniðugt og ákvað að prófa að melda það sem hafragraut. Setti 3 matskeiðar af mjölinu, eitt egg, uþb 200 ml af möndlumjólk, 1 matskeið kókósolía, smá salt og smá kanil í lítinn pott og hrærði saman. Setti svo á hellu og hitaði upp og hrærði í allan tímann. Og úr varð svona líka fínn grautur. Ég skreytti hann með ristuðum kókósflögum, smávegis af kókóssmjöri (ekki olía) og vænni slettu af rjóma. Ljómandi gott alveg hreint.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli