miðvikudagur, 29. janúar 2014

Vandræðagangurinn upphófst svo í dag. Ég hef að undanförnu farið á föstudögum á pöbbinn að fá mér snarl með vinkonu úr vinnunni. Hún er fitubolla sú, fitubolla af hjarta og sál og harðsnúin sem slík. Í dag kom föstudagshádegið eitthvað til tals á milli okkar og eftirrétturinn sem við höfum fengið okkur að undandörnu. (Belgísk vaffla með ís og karamellusósu) Eitthvað varð ég herpt á svipinn og hún tók eftir því. Og án þess að nokkuð væri sagt var lína dregin á milli okkar. Ég er núna óvinurinn. Leiðinlega manneskjan sem með því að taka góðar ákvarðanir rústa þeirri ánægju sem hún hefði fengið út úr því að borða vöffluna. Núna hefur hún bara um tvennt að velja; sleppa vöfflunni og þykjast vera "að passa sig" líka en vera með hjartslátt af panikki yfir þessu tapaða tækifæri til að borða (sem endar svo sjálfsagt á enn öflugra binge um kvöldið) eða snúa upp á sig og háma vöffluna í sig fyrir framan mig til að minna mig snarlega á að ég er núna óvinurinn, ég hef svikið minn þjóðflokk.

Svona samskiptaárekstrar eru alþekktir þegar fólk breytir um lífstíl. En ég get ekki leyft annarri feitri manneskju að ráða því hvort ég velji vel eða illa. Ég er meira að segja til í að sleppa því bara að vera vinkona hennar ef vináttan gengur bara út á að fóðra fíknir okkar og réttlæta þær svo fyrir hvorri annarri. Ég þarf svo sjálf að vinna í að láta þetta ekki fara svona í pirrunrnar á mér. Samfélagið allt gerir ráð fyrir því að heilsusamlegt val á mat sé tímabundið ástand. Það er nánast ekki skrýtið að manni mistakist stanslaust þegar þetta eru skilaboðin allt í kringum mann. Það er líka tekið sem gefið að maður sé að "fórna" einhverju eða að maður sé einhverskonar gikkur.Það er svo skrýtið hvað það virðist vera erfitt að fá hollan mat samþykktan sem normið. Hvað ætli að það sé langt í að fólk verði sent út að borða kex svona eins og það þarf núna að fara út til að reykja?

þriðjudagur, 28. janúar 2014

Ég ruglaðist örlítið í ríminu á sunnudaginn. Ákvað að borða poka af karamellum sem var inni í skáp "svo hann yrði búinn áður en ég myndi borða hann." Svona eins og þegar ég eyði pening áður en hann klárast. Það eru svona móment sem ég verð að muna að staldra við og hugsa aðeins. Það er nefnilega trixið; að grípa sjálfan sig við vitleysuna áður en hún er gerð.

Að öðru leyti er allt á grjótmyljandi gangi hjá mér. Fyrstu dagarnir og vikurnar á heilsusamlegu líferni eru svona dálítið eins og þegar maður er fyrst skotin í einhverjum. Maður gengur um með fiðrildi í maganum og býr til loftkastala í huganum um glæsta framtíð. Þessir hveitibrauðsdagar eru svo skemmtilegir. Það skemmtilegir að það er nánast þess virði að klúðra málunum svona bara til að fá aftur þessa tilfinningu. Svona eins og make up sex. En svo byrjar rútínan og maður þarf stanslaust að vinna að því að viðhalda blossanum.

Ég fattaði hvernig prógrammið í símanum virkar og er þessvegna núna komin með þetta líka fína tíu vikna prógramm til að fylgja. Það er alltaf hreyfingin sem er vinna hjá mér, ekki hreyfingin sjálf þaes, heldur þetta að tussast af stað. Ég var hinsvegar sérlega kát að fatta að gamla matarprógrammið mitt er mér svo eðlislægt að ég tók varla eftir því á sunnudaginn þegar ég bjó til matseðil, verslaði í hann og smellti svo í eggjamúffur og salat tilbúið fyrir vikuna. Það virðist sem svo að það að fylgja því plani sé enn fullkomlega eðlilegt. Mér er kannski viðbjargandi enn.


sunnudagur, 26. janúar 2014

Maður byrjar með plan. Það bara verður að hafa plan.

Ég get ekki "aflært" það sem ég hef uppgötvað á síðustu árum en ég get endurupplifað og nýtt mér það sem ég hef lært.

Ég er búin að prófa allskonar og þegar ég lít til baka þá held ég að ég hafi verið ánægðust þegar ég borðaði alvöru mat með þónokkurri skammtastjórnun. Þannig að það er það sem ég ætla að byrja með núna. Ég elska hafragraut of mikið til að geta frelsast algerlega yfir í lágkolvetni. Ég verð líka að benda sanntrúuðum á að flestar rannsóknir sýna að lágkolvetnafæði er ekki áhrifaríkara til langtímafitutaps, langtíma er lykilorðið, en hvaða önnur megrunaraðferð. Spurning hér er alltaf hin sama; hvað get ég gert í sem lengstan tíma?

Svarið við því fylgir svo svarinu við öllu draslinu. Því lengur sem maður getur gert stórvirkar breytingar á lífsháttum því líklegri er maður til að viðhalda fitutapi. Sem stendur er metið hjá mér frá 2008 til 2012 og verður að teljast nokkuð gott skeið. Það var tímabil þar sem ég borðaði hafragraut, salat og kjöt/fisk ásamt því að gera tilraunir í eldhúsinu í bland við nokkuð markvissa hreyfingu.

Ég get sagt með sanni að blanda öllum stefnunum saman er ávísun á stórslys. Þannig er td ekki sniðugt að setja rjóma út á hafragrautinn í þeirri trú að hitaeiningavigtaður hafragrautur fari vel með lágkolvetna fituneyslu.

Ég er þessvegna búin að búa til vikumatseðil sem gengur út að gott hlutfall kolvetna, fitu og próteins ásamt því að kitla bragðlaukana. Ég get ekki ákkúrat núna dílað við stefnu sem bannar eitthvað og ætla þessvegna að láta vera í bili yfirlýsingar um ekkert brauð og engan sykur. Ef ég fylgi plani þá kemur það svona nokkuð náttúrulega hvort eð er.

Hreyfingin vefst enn örlítið fyrir mér. Ég hjóla náttúrulega í og úr vinnu og fæ þannig um það bil 50 mínútur af ágætis hreyfingu alla virka daga. Mig vantar að bæta inn lyftingum. Engin rækt þýðir líkamsþyngdaræfingar. Sem þýðir að vakna um fimmleytið á morgnana og að finna prógram. Ég setti "You are your own gym" appið í símann minn en er aðeins að vandræðast með að skilja uppsetninguna. Ég finn út úr því.

Hitt er svo að til að lækka stressfaktorinn í vinnunni hef ég tekið heilagt loforð af sjálfri mér að taka mér hádegishlé. Standa upp, fá mér salat og labba svo í hálftíma.

Ég rökræddi fram og tilbaka við sjálfa mig hvort ég ætti að vigta mig og allt það og komst að þeirri niðurstöðu að ég þurfi að sjá töluna á vigtinni til að halda mér við efnið. Í þetta sinni hef ég hinsvegar ekki sett mér lokamarkmið. Það er að sjálfsögðu það sem ég er hvað mest að berjast við, þessi sálræna barátta við hvað maður er mikill lúser og aumingi ef maður er feitur, en ég sver að það er algerlega það sem ég er að fókusa á númer eitt, tvö og þrjú.

laugardagur, 25. janúar 2014

Ekki hef ég fyrir reglu að fela eitthvað, það er stór þáttur í ferlinu mínu að segja hreinskilnislega frá. Stundum er ég meira að segja pínlega opinská. Ekki fer ég að breyta því núna. Það ætti þessvegna sjálfsagt ekki að koma á óvart að ég þurfi að segja frá að ég sé búin að vera á svínslegu fylleríi núna í nokkra mánuði. Það má algerlega setja samasemmerki á milli þess að ég skrifi ekki og þess að ég sé að borða.

Ég vildi óska að ég hefði einhverja afsökun, að ég gæti sagt sjálfri mér að ég þurfi að fyrirgefa því ég viti ekki hvað ég gjöri, en það er bara ekki svo gott. Ég veit fullvel hvað ég er að gera en virðist samt ekki ráða við það. Sem aftur bendir svo til þess að kenningar um gen, uppbyggingu fitu, ávanabindingu vissra matartegunda og hormónaröskun hafa vissan rétt á sér. En hvað sem því líður þá  má gefa sér að ég sé nokkuð sjófær þegar kemur að því að vita hvað er hollt og hvað er ekki, að ég sé ágætlega vel gefin, kunni að hreyfa mig og viti hvað mér líður miklu betur þegar ég er grennri.

Samt borða ég.

Og þegar ég borða þá borða ég. 

Ég get þessvegna ekki annað er reynt að skilgreina hvað fór úrskeiðis. Hvað breyttist við manneskjuna sem í September 2012 var búin að viðhalda rúmlega 40 kílóa fitutapi í heilt ár ogi lýsti yfir hamingju og sátt?

Ég er 107 kíló. Það er satt best að segja alls ekki langt frá 136 kílóum og í framkvæmd miklu nær þeirri tölu en þeim 86 kílóum sem ég hafði komið mér í. Ég get ekki leyft þessu að gerast án þess að berjast aðeins. Ég bara get ekki lagst niður og hætt að reyna.

Mig langar til að skilja þetta. Ég er ekki viss um að lausnin felist í að skilgreina hvað fór úrskeiðis (ég er reyndar orðin nokkuð sannfærð um að það sé engin lausn) en ég gæti kannski notað það til að stoppa mig af fyrr næst þegar þetta gerist. Og það verður næst. Það er engin spurning um það. Við vitum öll að staðreyndirnar hafa enn ekkert breyst þrátt fyrir að nú séu allir frelsaðir og éti engin kolvetni og tali um leptín og ghrelin af sama kunnugleika og um prótein og fitu. Staðreyndin er enn sú að af þeim okkar sem ná af sér mælanlegri fitu eru bara 3% sem ná að halda því af sér um lengra skeið en 3 ár. Við erum enn feit og fitnum bara.

Þegar ég fyrst tókst á við spikið hafði ég tíma. Ég vann frá tvö á daginn til tíu á kvöldin og hafði nógan tíma til að æfa, elda og plana. Svo skipti ég um vinnu og þar hafði ég rækt í vinnunni og mætti ekki fyrr en níu þannig að það var nógur tími á morgnana. Ég var líka ekki í nokkurri ábyrgðarstöðu og var bara stressuð út af peningum. Núna er ég í ábyrgðarstöðu með stórar áætlanir um klif upp metorðastigann, er mætt í vinnu rétt eftir sjö og er oft þar til eftir sex á kvöldin. Tek mér ekki hádegishlé. Ræktin er lokuð og ég hef enn ekki fundið rækt sem passar mér. Hnén ónýt og hreyfing takmörkuð. Það er allt helmingi flóknara í framkvæmd. Ég er ekki að segja að það sé ekki hægt, en það vita líka allir að fyrsta regla lífstílsbreytinga er að gera þetta hvorki flókið né erfitt.

Ég hef semsagt engan tíma, er stressuð og finn enga handhæga æfingu til að stunda. Þetta er svona basic stöff.

Það sem ég held samt að sé allra mikilvægast er að ég gafst upp. Ég veit að ég sagði allskonar hluti sem núna ég verð að draga til baka. Það er allt í lagi, ég lifi með þvi að vera stanslaust örlítið vandræðaleg yfir yfirlýsingunum mínum. Ég sagði milljón sinnum að ég væri búin að fatta þetta, að ég skildi að þetta væri fyrir lífstíð, að þetta væri eilífðarverkefni. En ég skildi það ekki í alvörunni. Ég var alltaf að bíða eftir endapúnktinum. Eftir töfrakílóatölunni (71) svo ég gæti hætt. Og þegar það hægðist og hægðist á fitutapi varð ég reiðari og reiðari og fórnarlambið, greyið litla sex ára stelpan inni í mér, fór að stappa fótum í jörð og heimtaði að fá sitt. Afhverju er þetta svona erfitt hjá mér? Hvað hef ég gert til að eiga svona erfiðleika skilið? Og í staðinn fyrir að segja henni bara að slaka á þá leyfði ég þessari hugsun að taka yfir. Hvað það sé óréttlátt að ég megi ekki borða nammi eins og allir hinir.

Út frá þessu tapaði ég svo gleðinni og lönguninni til að rannsaka og gera tilraunir. Hvað væri hægt að kenna mér um megrun? Piff! Það er ekkert sem er hægt að kenna mér um þetta.

Jæja. Hversu rangt hafði ég fyrir mér? Það er greinilega ótal margt sem ég á enn eftir að læra. Fyrst af öllu auðmýkt. Hversu vandræðalegt er það að hafa verið í fjölmiðlum með stórar yfirlýsingar og vera svo bara aftur orðin feit? Hversu vandræðalegt er það að endalaust að þurfa að segja við sjálfa mig; jæja, dagur eitt. (á morgun, er dagur eitt) Það er heilmikið vandræðalegt og auðmýkjandi. En það er líka bara þannig. Það stendur nefnilega enn það sem ég sagði þá að þrátt fyrir allt þá er það auðveldara að grenna sig en að vera þetta feitur.

Ég sagði við Ástu mína um daginn að ég sæji eftir því að hafa grennst. Að ég væri óhamingjusamari núna heldur en ég var þegar ég var bara feit. En það er ekki satt. Auðvitað er það hræðilegt að glutra þessu svona úr höndunum á sér, auðvitað. Og það er að láta mér líða mjög illa. En það var hræðilegra að vera 140 kíló. Og ég hefst þessvegna handa aftur. Smávegis með skottið á milli lappanna, smávegis stolt af því að geta enn þurrkað súkkulaðið úr munnvikjum og byrjað upp á nýtt, en aðallega með gleði í hjartanu. Þetta að hrasa svona svakalega er nefnilega bara enn einn viskusteinninn sem ég legg í vörðurnar mínar sem marka mína lífsleið.