laugardagur, 25. janúar 2014

Ekki hef ég fyrir reglu að fela eitthvað, það er stór þáttur í ferlinu mínu að segja hreinskilnislega frá. Stundum er ég meira að segja pínlega opinská. Ekki fer ég að breyta því núna. Það ætti þessvegna sjálfsagt ekki að koma á óvart að ég þurfi að segja frá að ég sé búin að vera á svínslegu fylleríi núna í nokkra mánuði. Það má algerlega setja samasemmerki á milli þess að ég skrifi ekki og þess að ég sé að borða.

Ég vildi óska að ég hefði einhverja afsökun, að ég gæti sagt sjálfri mér að ég þurfi að fyrirgefa því ég viti ekki hvað ég gjöri, en það er bara ekki svo gott. Ég veit fullvel hvað ég er að gera en virðist samt ekki ráða við það. Sem aftur bendir svo til þess að kenningar um gen, uppbyggingu fitu, ávanabindingu vissra matartegunda og hormónaröskun hafa vissan rétt á sér. En hvað sem því líður þá  má gefa sér að ég sé nokkuð sjófær þegar kemur að því að vita hvað er hollt og hvað er ekki, að ég sé ágætlega vel gefin, kunni að hreyfa mig og viti hvað mér líður miklu betur þegar ég er grennri.

Samt borða ég.

Og þegar ég borða þá borða ég. 

Ég get þessvegna ekki annað er reynt að skilgreina hvað fór úrskeiðis. Hvað breyttist við manneskjuna sem í September 2012 var búin að viðhalda rúmlega 40 kílóa fitutapi í heilt ár ogi lýsti yfir hamingju og sátt?

Ég er 107 kíló. Það er satt best að segja alls ekki langt frá 136 kílóum og í framkvæmd miklu nær þeirri tölu en þeim 86 kílóum sem ég hafði komið mér í. Ég get ekki leyft þessu að gerast án þess að berjast aðeins. Ég bara get ekki lagst niður og hætt að reyna.

Mig langar til að skilja þetta. Ég er ekki viss um að lausnin felist í að skilgreina hvað fór úrskeiðis (ég er reyndar orðin nokkuð sannfærð um að það sé engin lausn) en ég gæti kannski notað það til að stoppa mig af fyrr næst þegar þetta gerist. Og það verður næst. Það er engin spurning um það. Við vitum öll að staðreyndirnar hafa enn ekkert breyst þrátt fyrir að nú séu allir frelsaðir og éti engin kolvetni og tali um leptín og ghrelin af sama kunnugleika og um prótein og fitu. Staðreyndin er enn sú að af þeim okkar sem ná af sér mælanlegri fitu eru bara 3% sem ná að halda því af sér um lengra skeið en 3 ár. Við erum enn feit og fitnum bara.

Þegar ég fyrst tókst á við spikið hafði ég tíma. Ég vann frá tvö á daginn til tíu á kvöldin og hafði nógan tíma til að æfa, elda og plana. Svo skipti ég um vinnu og þar hafði ég rækt í vinnunni og mætti ekki fyrr en níu þannig að það var nógur tími á morgnana. Ég var líka ekki í nokkurri ábyrgðarstöðu og var bara stressuð út af peningum. Núna er ég í ábyrgðarstöðu með stórar áætlanir um klif upp metorðastigann, er mætt í vinnu rétt eftir sjö og er oft þar til eftir sex á kvöldin. Tek mér ekki hádegishlé. Ræktin er lokuð og ég hef enn ekki fundið rækt sem passar mér. Hnén ónýt og hreyfing takmörkuð. Það er allt helmingi flóknara í framkvæmd. Ég er ekki að segja að það sé ekki hægt, en það vita líka allir að fyrsta regla lífstílsbreytinga er að gera þetta hvorki flókið né erfitt.

Ég hef semsagt engan tíma, er stressuð og finn enga handhæga æfingu til að stunda. Þetta er svona basic stöff.

Það sem ég held samt að sé allra mikilvægast er að ég gafst upp. Ég veit að ég sagði allskonar hluti sem núna ég verð að draga til baka. Það er allt í lagi, ég lifi með þvi að vera stanslaust örlítið vandræðaleg yfir yfirlýsingunum mínum. Ég sagði milljón sinnum að ég væri búin að fatta þetta, að ég skildi að þetta væri fyrir lífstíð, að þetta væri eilífðarverkefni. En ég skildi það ekki í alvörunni. Ég var alltaf að bíða eftir endapúnktinum. Eftir töfrakílóatölunni (71) svo ég gæti hætt. Og þegar það hægðist og hægðist á fitutapi varð ég reiðari og reiðari og fórnarlambið, greyið litla sex ára stelpan inni í mér, fór að stappa fótum í jörð og heimtaði að fá sitt. Afhverju er þetta svona erfitt hjá mér? Hvað hef ég gert til að eiga svona erfiðleika skilið? Og í staðinn fyrir að segja henni bara að slaka á þá leyfði ég þessari hugsun að taka yfir. Hvað það sé óréttlátt að ég megi ekki borða nammi eins og allir hinir.

Út frá þessu tapaði ég svo gleðinni og lönguninni til að rannsaka og gera tilraunir. Hvað væri hægt að kenna mér um megrun? Piff! Það er ekkert sem er hægt að kenna mér um þetta.

Jæja. Hversu rangt hafði ég fyrir mér? Það er greinilega ótal margt sem ég á enn eftir að læra. Fyrst af öllu auðmýkt. Hversu vandræðalegt er það að hafa verið í fjölmiðlum með stórar yfirlýsingar og vera svo bara aftur orðin feit? Hversu vandræðalegt er það að endalaust að þurfa að segja við sjálfa mig; jæja, dagur eitt. (á morgun, er dagur eitt) Það er heilmikið vandræðalegt og auðmýkjandi. En það er líka bara þannig. Það stendur nefnilega enn það sem ég sagði þá að þrátt fyrir allt þá er það auðveldara að grenna sig en að vera þetta feitur.

Ég sagði við Ástu mína um daginn að ég sæji eftir því að hafa grennst. Að ég væri óhamingjusamari núna heldur en ég var þegar ég var bara feit. En það er ekki satt. Auðvitað er það hræðilegt að glutra þessu svona úr höndunum á sér, auðvitað. Og það er að láta mér líða mjög illa. En það var hræðilegra að vera 140 kíló. Og ég hefst þessvegna handa aftur. Smávegis með skottið á milli lappanna, smávegis stolt af því að geta enn þurrkað súkkulaðið úr munnvikjum og byrjað upp á nýtt, en aðallega með gleði í hjartanu. Þetta að hrasa svona svakalega er nefnilega bara enn einn viskusteinninn sem ég legg í vörðurnar mínar sem marka mína lífsleið.

3 ummæli:

Unknown sagði...

ég sjálf náði "töfratölunni" og missti svo tökin aftur. þessu fylgir engin skömm, við erum jú bara mannlegar! áfram þú!

kveðja af álftanesinu, sigga dóra

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þennan pistil Svava. Þú ert svo sannarlega ekki ein í þessari stöðu og enn heldurðu áfram að vera góð fyrirmynd fyrir okkur hinar með því að gefast ekki upp heldur halda áfram :)

Erla sagði...

Kannast við tilfinninguna um að vilja ná töfratölunni til að geta hætt. Ég er sjálf í þeim sporum að þurfa að létta mig sem væri í lagi ef það væri ekki fyrir það ég þettu eru kíló sem ég er búinn að missa og þyngjast og missa og þyngjast og svo framv.

Það sem heldur mér gangandi þessa dagana er að það er þrátt fyrir allt miklu betra að missa sömu kg heldur en að þyngind haldi áfram að stíga upp.

Þú ert mér mikil fyrirmynd og ég dáist af einlægni þinni.