mánudagur, 24. mars 2014

Og svo kom mánudagur. Enginn venjulegur mánudagur, heldur mánudagurinn sem ég tek ábyrgð á sjálfri mér og framtíð minni. Þetta hefst með að finna ástæður sem skipta máli. Hvers vegna vil ég ekki borða sykur eða ruslfæði? Hversvegna vil ég stunda hreyfingu?

Það er ekki nóg fyrir mig að vilja vera sæt eða geta keypt föt í hvaða verslun sem er. Það er ekki það sem ég kalla djúpa ástæðu. Það er heldur ekki nóg að setja markmið eins og að geta hlaupið maraþon eða verða 69 kíló. Þegar markmiðum er náð annaðhvort hættir maður eða verður að spyrja hvað næst? Ég er líka farin að halda að skilyrt markmið geti verið neikvæð. Þannig hlýt ég að vera að segja við sjálfa mig að ég sé ómöguleg nema að ég nái að verða x mörg kíló eða geti hlaupið et styk maraþon, að allur tíminn sem ég er ekki þessi x mörgu kíló eða nógu fitt til að geta skokkað um maraþonsvegalengd sé tími sem ég sé ekki nógu góð.

Nei, það hlýtur að vera betra að reyna að fylgja bara daglegu plani fyrir hvern dag. Plan sem miðar að því að gera það besta fyrir mann þann daginn. Fylgi maður því eftir og framkvæmi dag hvern nú þá hljóta maraþonin og x kílóin að koma sem óhjákvæmilegir fylgifiskar.

Djúpu ástæðurnar mínar eru orðnar heldur alvarlegar.

Ég get ekki lifað með þessum sársauka lengur. Hnén á mér eru hreinlega að gefast upp.
Ég vil ekki fá sykursýki.
Ég get ekki lifað með þessum vonbrigðum með sjálfa mig lengur.
Ég þoli ekki að líða eins og ég hafi ekki stjórn á sjálfri mér.
Ég get ekki vaknað enn einn morguninn enn hálf óglatt eftir ofát fyrra kvölds.
Ég vil vera frjáls.
Ég vil vera sterk.
Ég vil vera stolt.

Ég ætla að borða óunna matvöru, en ég ætla líka að taka aftur úr sykur. Ég bara veit það að ég get ekki lifað heilsusamlegu lífi ef ég viðheld sykuráti. Fyrir mig er ekkert "í hóflegu magni". Það er betra fyrir mig að sleppa þessu bara alveg.

Ég geri mér grein fyrir því sem ég er að segja. Ég er að segja að ég ætla aldrei að borða sykur framar. Engar kökur, ekkert nammi, enginn lakkrís. Ég veit að þetta er drastískt og ég veit ekkert hvort ég geti þetta.

En ég er líka kát og glöð og ég hlakka til. Ég er tilbúin.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er svo gaman að lesa pistlana þína - mér finnst oftast að það sé ég sjálf sem er að skrifa þetta ..... svo ótrúlega lík er okkar "kílóabaráttu" saga.

Gott að fylgjast með þér - gangi þér sem best áfram í þessum nýja baráttugír sem þú ert í núna :)

Kveðja,
Anna :)

murta sagði...

Það er svo skrýtið að manni finnst manni oft vera einn og misskilinn en svo er alltaf einvher sem er að ganga í gegnum það sama :)