miðvikudagur, 13. maí 2015

Af tíma-og fjárþröng

"Það þarf að hafa tíma, kunnáttu og fjárhag til að elda mat.

Svona þegar ég skoða söguna finnst mér augljóst að ein af ástæðunum fyrir því að fólk fitnar er unnin matvara. Ég tel að það sé engin tilviljun að við byrjum að fitna fyrir alvöru á svipuðum tíma og við hættum að elda frá grunni og matur verður meira og meira unninn til að vera einfaldara og fljótari í meðhöndlun. Endalaus viðbætt gervi-og bætiefni eru núna sett í allt bæði til að lengja líftíma, gera auðveldara til notkunar og til að bragðbæta. Og sumir segja til að gera okkur háðari bragðinu, þe með viðbættum sykrum og fitu. Þetta, í sambland við óæti sem er selt sem megrunarvara, megrunarkúrana sjálfa og breytta hegðun hvað hreyfingu varðar stuðlar svo allt að aukinni fitusöfnun meðal almennings. 

En fyrir utan að hér komi kjarnorkustyrjöld sem þurrkar allt draslið út svo við getum byrjað upp á nýtt tel ég að það sé fáránlegt að halda því fram að allir geti borðað vel og hollt og óunnið. Það er ýmislegt sem hér kemur til. Er aðgangur að ferskri matvöru þar sem þú býrð? Hefur þú efni á að kaupa ferska matvöru eða er dósamatur og hvítt brauð það sem launin þín bjóða upp á? Ef þú getur keypt ferskt geturðu borgað enn meira fyrir lífrænt? Hefurðu aðstöðu til að elda? Ertu með sæmilega vinnuaðstöðu, geymslu og hefurðu efni á að borga fyrir gas/rafmagn? Hefurðu orku eftir vinnu til að elda? Hefurðu kunnáttu til að gera það? Hefurðu tíma til að elda frá grunni? Þetta eru allt aðstæður sem eru ekki sjálfgefnar hverjum sem er. 

Það að borða hollan og góðan mat er því orðið að þjóðfélags-og efnahagsmálefni. (Socio-economic issue) og "offitufaraldurinn" því hluti af stærri umræðu en einfaldlega þeirri sem er í heilanum á mér. 

Flestir gera sér illa grein fyrir því hversu mikinn tíma og orku það tekur að standa í eldhúsinu, sér í lagi ef allt er eldað frá grunni. Það er nánast ómögulegt að biðja fólk um að gera þetta eftir langan vinnudag með börnin hangandi á manni þegar maður er ekki viss um hvort það sé til nóg á heftinu til að borga rafmagnsreikninginn. Mér þykir líka ólíklegt að flest okkar gerum okkur nægilega grein fyrir hvað matvara er gífurlega mikið unnin, og líka sú sem virðist ekki vera svo. Þannig myndi maður halda að það væri seif að kaupa kjúklingabringu, spínatpoka og pestókrukku. Sulla þessu svo saman og segjast hafa eldað kvöldmat. En kjúklingurinn hefur sjálfsagt verið alinn upp í loftlausu búri þar sem hann var neyddur til að éta sykrað korn. Svo er bringan sykur, vatns- og saltsprautuð til að vera stærri, ferskari og fallegri í pakkningunni. Spinatið er útsprautað af eiturefnum til að halda pöddum frá og til að gera það grænna. Pestóið inniheldur 50 grömm af sykri. En það er líka fáránlegt að rétta mér lifandi hænu og biðja mig um að snúa úr hálslið, skera í sundur, hamfletta eða reyta og elda svo. Ég kem ekki heim úr vinnu fyrr en klukkan sex, ég hef engan tíma í að kála hænum. 

Og ég nenni varla að fara út í ruglið sem viðgengst þegar að heilsuvöru kemur. Það virðist vera hægt að selja allan andskotans til almúgans ef stimpillinn "náttúrulegt" er smellt á dósina. Arsenik og blásýra eru 100% náttúrleg þannig að það er ekki endilega sama sem merki á milli "náttúrlegt" og "hollt". 

Það er lítið mál að flykkjast á námskeið í að elda hollt, kaupa matreiðslubækur og næla endalausum uppskriftum á pinterest. En hefurðu í alvörunni tíma og fjárráð til að elda hollt? Og ef þú hefur tíma og peninga (heppinn þú!) geturðu verið viss um að matvaran sé í alvörunni holl?

Það er sjálfsagt best að gera eins vel og maður getur með úrræðin, tímann og kunnáttuna sem maður hefur. En að halda að það sé sjálfsagt mál fyrir alla að borða "hollt" er hroki einn.

1 ummæli:

Kristín Guðbrandsdóttir sagði...

Fyndið - ég nota líka dæmið um arsenik og blásýru þegar fólk reynir að pranga inná mig "náttúruvöru". Fínn pistill hjá þér skvís.
Kristín