miðvikudagur, 29. júlí 2015

Af þremur dögum

Þrír dagar á Íslandi eru ekki nóg. Þrír dagar með góðum vinum, flottum veitingastöðum, verslunarferð, brúðkaupi og megapartý eru ekki nóg. Mig vantaði þrjá daga í viðbót og aðallega til að vera með mömmu og pabba. Þrír dagar á Íslandi er allt of stutt.

Ég ruglaðist líka alveg í ríminu og gleymdi öllu. Kom heim og fattaði að ég var harðfisklaus. Hver fer eiginlega til Íslands og kemur tilbaka án þess að kaupa harðfisk? Ferðin sjálf var ovenjuleg af því að ég var eiginlega bara í Reykjavík, rétt skrapp til Þolló í tvo klukkutíma til að heilsa upp á afa. Sem þýddi að ég var bara að stússast hér og þar og gleymdi alveg að raða í mig lakkrís, flatkökum, súkkulaðirúsínum og pulsum með öllu. Sem er hið besta mál, gott að koma heim og finna að það er annað og mikilvægara en lakkrís.

En ég er hinsvegar búin að raða í mig síðan eg kom heim. Og það var ekki nema fyrir nokkrum dögum síðan að ég fann aftur jafnvægi og hætti að sjá sjálfa mig sem marglyttu. Það var eiginlega um leið og ég byrjaði aftur að hjóla. Af viti. Fyrstu vikuna var eg bara eitthvað að gaufast, fór bara á milli Wrexham og Rhos. En í þessari viku er ég aftur búin að gera þetta almennilega og hjóla alla leið fram og tilbaka, Wrexham til Chester. Einn túr og ég þéttist öll upp, verð stinn og sterk og glansandi hress. Þetta er allt í hausnum a mér, en skiptir öllu máli hvaðan vel -(eða van-) líðanin kemur? 

Mér var sterkt hugsað til þessa þegar eg las svo í vikunni grein sem segir að vísindamennhafi núna einangrað hormón sem stjórnar hungri og að fyrstu rannsóknir á músum sýna skýrt að mýsnar sem hafa þetta hormón stjórna mataræði sínu mun betur en þær sem ekki hafa hormónið. Ég er nefnilega ansi hrædd um að það skipti mig engu máli hvort ég geti stjórnað hungurtilfinningu. Ofát mitt, og flestra fitubolla sem ég þekki, stjórnast af eiginlega öllum öðrum þáttum en hungri. Ef ég væri einfaldlega alltaf svöng þá væri þetta ekkert mál. Þá myndi ég bara borða og verða södd og þar við sæti. Nei, því miður varð ég ekki uppnæm við þessar fréttir, ég sé ekki að þetta sé lausnin fyrir okkur sem erum með feita hugsun.

Ég á eftir að finna útúr þessu einn daginn. Ég hef fullt traust á sjálfri mér.

þriðjudagur, 28. júlí 2015

Vont

Ég er eins og marglytta með putta. Eins og risastór hrúga af wobbly hlaupi. Ég er eins og lint slytti sem pusast áfram, rúllar, kjagar. Ég hata daga sem mér líður svona. Þeir koma ekki oft en þegar þeir koma eru þeir slæmir. Öll vinnan sem fer í að segja að það sé í lagi með mig, að ég geti fundið sátt og jafnvægi, jafnvel þó ég grennist aldrei, fer út um gluggann og ég stari á sjálfa mig uppfull af hatri. Veiklynd, ljót, vesalingur, fíkill, aumingi. Það er ekki gott þegar þessir dagar koma.

miðvikudagur, 15. júlí 2015

Af stjarneðlisfræði

Við Dave erum að undanförnu búin að "binge" horfa á nánast alla West Wing þáttaseríuna. Nútímatækni hefur gerbreytt hvernig maður horfir á sjónvarp. Nú er engin pása á fimmtudögum og í júlímánuði. Nei, núna hleður maður bara niður heilum seríum i einu og horfir svo að vild. Ég hef reynt að hætta að horfa svona mikið á sjónvarp en með þessu Sky tæki hefur það reynst erfitt. Og sér í lagi þegar efnið er hreinlega klassaáhorf eins og West Wing. Hvað um það, Leo McGarry, einn karektaranna er þurr alkahólisti. Og í einum þættinum talar hann af hreinskilni um fíknina. "I dont understand how you can only have one glass,  how you can leave half a glass of wine, how you can not want to feel like this. How can you not want another, and another, and another?" Ég gat ekki annað en kinkað kolli. Ég hef minnst á það áður hvað Dave gengur vel í nördamegruninni sinni. Hann einfaldlega telur skref yfir daginn og hitaeiningar sem hann borðar. Hann borðar allt en hættir bara þegar hann er kominn upp í 2000. Engin brögð, ekkert skipta einu út fyrir annað, engin rembingur við að borða quinoa, freekeh, kókósolíu. Ekkert diet þetta og light hitt. Ekkert. Hann einfaldlega stoppar þegar stærðfræðin segir stopp. Ég dást að honum. Fyrir mér er þetta nefnilega útilokuð tækni. Ég segi eins og Leo McGarry; ég skil ekki hvernig er hægt að stoppa. Fyrir mér er það ónáttúrlegt að fá mér eitt kex, eða eitt súkkulaðistykki. Ég skil ekki hvernig er hægt að skilja eftir hálfan poka af Maltesers. Ég skil ekki af hverju kona myndi ekki vilja fá nautnina sem alvöru binge gefur konu. 

Vandamálið er að þetta er ekki alkahólismi. Það er bara ekki hægt að leggja þetta að jöfnu. Það er ekki hægt að hætta að borða eins og maður hættir að drekka. Ég hætti að reykja. Ég hætti bara. Ég fæ mér ekki hálfa sígarettu þrisvar á dag. Ég bara reyki ekki. Mig langar alltaf smávegis í sígó, en ég sleppi því bara alveg og þannig kemst ég hjá því að byrja að reykja aftur. Þetta er ekki valmöguleiki þegar að mat kemur. Nú er ég ekki að segja að það sé verra að vera fitubolla en fyllibytta. Að maður geti bara "hætt" að drekka. Ég myndi frekar vilja vera feit en full. Það er mun meira skemmandi ástand fyrir mann sjálfan og alla í kringum mann að vera alkahólisti. Og lausnin getur aldrei verið hin sama fyrir fíknirnar. Ég er hinsvegar að segja að samkenndin kemur við að skilja að það er einfaldlega ekki hægt að hætta eftir einn. 

Í hverju felst eiginlega lausnin þá? Ef satt skal segja þá datt aðeins niður hjá mér dampurinn um stund um daginn við að hlusta á Dr Martin Reiss á Radi 4 um daginn. Hann er prófessor í  partical physics (nú get ég ekki fyrir mitt litla munað hvað það er á íslensku, stjarneðlisfræði?) og rannsakar það sem er algerlega undirstaðan að lífi á jörðinni. Stóra hvell og dark matter og warping space and time og Higgs boson og allt þetta sem stjarneðlisfræðingar hafa gaman af. Hann var að tala um óendanlega samhliða alheima (infinite parallel universes) og minnist á það í bríaríi að það sé reyndar skrýtið að eyða tíma í að sanna að kenningar um svona mindblowingly flókin hugtök þegar vísindamenn geta ekki einu sinni fundið út úr því hvernig á að skafa af sér spik! Ef stjarneðlisfræðingar telja verkefnið óyfirstíganlegt, hvernig á litla ég að geta fattað þetta?

Sjálf tel ég það ólíklegt að vísindamenn fái rannsóknarstyrki til að komast að því hvernig má einangra og útrýma fitugeni í samblandi við fíkilsgen. Ekki á meðan megrunarkúrar seljast fyrir 7 billjón dollara á ári hverju. Það er einfaldlega meiri peningur í að halda okkur nógu feitum til að vera óánægð svo við höldum áfram að eyða pening í megrunina. 

En svo tók ég aftur gleði mina. Lausnin starir nefnilega stórum augum á mann þegar um er það hugsað; ef það eru endalausir samhliða heimar allt um kring með endalausum Svövu Ránum, í endalausum uppröðunum af möguleikum, er ekki eðlilegt að gera ráð fyrir að í að minnsta kosti einum þeirra sé hún þvengmjó? 






Endalausar Svövu Ránir

þriðjudagur, 14. júlí 2015

Af heilbrigði

Ég gat ekki tekið þátt í hjólreiðakeppninni. Ég var enn of veik á sunnudaginn til að geta hjólað 80 kílómetra. Ég var afskaplega leið yfir þessu en svo sem ekkert hægt að gera, ég verð bara að finna annan svona atburð og skrá mig sem allra fyrst. 

Ég er smá saman búin að vera að koma mér aftur í samt lag í síðustu og þessari viku og hef hjólað í vinnuna núna í þrjá daga og finnst ég vera öll að koma til. Verst að hitabylgjan er víst búin hér fyrir norðan. Sunnar í Bretlandi er gert ráð fyrir 30 stiga hita en hér er bara súld og rigning og ég alltaf að gaufast með rennandi blautan hjólagallann og maskarann út um allt andlit þegar í vinnu er komið. Ég er enn að stússast við að koma mér upp sem bestri tækni til að hjóla þessa vegalengd en vera samt frambærileg í "businesswear" í vinnunni. Þarf helst að vera með aukahjólagalla til taks, svona upp á óáreiðanlega veðurspá. Það er heitt, en rigning. Nánast útilokað að klæða sig eftir því, annað hvort er maður blaut eða sveitt. Ekki að ég sé að kvarta; ég þakka öllum góðum vættum á hverjum degi fyrir að vera nógu hraust til að hjóla. Það er bara engin tilfinning jafn góð og að þjóta um á hjólinu. Ég er létt, sterk og hundrað prósent heilbrigð þegar ég hjóla. 

Ég er líka smá saman að vakna til í eldhúsinu. Dave gengur svo vel í nýja lífstílnum að ég er eiginlega orðin hálf öfundsjúk. En það þýðir líka að ég reyni að halda í við hann og er að rifja upp gamla takta. Í einu svoleiðis um daginn fann ég tvennt nýtt; PB2, sem er púðrað hnetusmjör og svo þeyttan rjómaost. Hnetupúðrið þýðir að ég get sett það út í t.d hafragraut, eða smoothies eða jógúrt eða orkukúlur og fengið hnetusmjörsbragð fyrir þriðjung hitaeininga sem eru í hnetusmjöri og þeytti rjómaosturinn er eins og ostakaka einn og sér. Ég setti hann út á overnight oats með bláberjum og þeytti svo líka saman við hnetupúðrið og bjó til hnetusmjörskrem. Geggjað. 



fimmtudagur, 2. júlí 2015

Af íþróttum í plúss

Ég eyddi helginni í sollinum í London og kom heim með mér einhverja bévítans óáran og lá nánast örend fyrri hluta vikunnar. Það var rosalega gaman í London, eins og alltaf, og ég prófaði þar að fara í spin tíma. Eitthvað sem ég hef aldrei prófað áður. Mér fannst það ægilega skemmtilegt og hef í hyggju að leita uppi slíka tíma hér í sveitinni. Það hefði verið betra að sleppa kvefpestinni þó því ég er náttúrulega á leið í hjólreiðakeppni núna á sunnudaginn og er ekkert búin að geta æft mig í vikunni í ofanálag við að vera hreinlega dálítið slöpp ennþá. 

Spin tíminn minnti mig reyndar á að ég á lítið sem ekkert af alvöru íþróttafötum. Flestir í tímanum voru í fínum íþróttafötum. Það er mér afskaplega mikilvægt að eiga rétta dótið, alveg sama hvað ég er að gera ég vil "look the part", fyrir utan að flest íþróttaföt eru hönnuð til að gera íþróttina ánægjulegri. Það er ekki bara töff að vera í spandex frá tám að  hvirfli, það er líka miklu þægilegra. Þannig að þetta er ekki bara kvabb um að vilja tolla í tískunni, mér er alveg sama þó skórnir eða gallinn sé úr tveggja ára gamalli línu og keyptur í Sports Direct fremur en beint frá Nike eða Adidas, en ég vil geta gert eins vel og hægt er og litið vel út á meðan. 

Það svíður því helvíti mikið að flest vel hönnuð íþróttaföt eru einungis hönnuð með núverandi íþróttafólk í huga. Það er ekki gert ráð fyrir okkur tilvonandi og upprennandi stjörnum. Hjólreiðarnar hafa sérstaklega leitt þetta í ljós. Þegar ég lyfti var allt í lagi að vera í víðum jogging buxum og hlírabol. Svo lengi sem ég átti góðan sporthaldara var í lagi með mig og ég gat verið nokkuð frambærileg. Þegar ég svo byrjaði að hlaupa var ég komin niður í 14-16 og gat auðveldlega keypt mér falleg og töff hlaupaföt án nokkurra sérstakra vandkvæða. En núna, þegar ég er aftur komin upp í 18-20 er ekki nokkur leið fyrir mig að fá á mig flotta hjólagalla. Hjólreiðar einfaldlega krefjast þess að maður klæði sig á vissan hátt til að ná sem bestum árangri og svo að túrinn sé sem ánægjulegastur. Þannig er líf mitt gjörbreytt eftir að ég eignaðist hjólabuxur með gelpúðum í klobba. 30 kílómetrar án gelsins eru núna óhugsandi. Sama gildir um að vera í einhverju sem heldur úti vatni og vindum en er á sama tíma ekki til að hefta hreyfingu eða læsa inni svita. Í ofanálag er ég líka að mæta í vinnu og þarf að að geta brotið allt saman auðveldlega niður í bakpoka. Ekki litlar kröfur hér. 

Roy Castle lungnakrabbameinsgóðgerðarsamtökin sem ég ætla að hjóla fyrir sendi mér þessa forláta hjólapeysu til að vera í á sunnudaginn. Hún er alveg ekta, úr dry wick efni, með litla hakann fyrir rennilásinn í hálsinn og síðari að aftan með handhægum vösum sem gera ráð fyrir að maður er hallandi fram á við. 

Þeir urðu líka glaðir við bón minni að senda stærsta númerið, 2XXL. 

Peysan er níðþröng á mér. Svo þröng að ég efast um að ég geti verið í henni. Sem gæti verið vandamál því hún á að þjóna sem keppnisnúmer og svo er þetta líka auglýsing fyrir góðgerðarsamtökin. 

Þetta er allt svo öfugsnúið. Nú veit ég að það eru raddir sem segja að það að hafa gínur í búðum í stærðum 14-16 sé aðeins til að hvetja fólk til að halda áfram að éta sér til óbóta, að það "lögleyfi" það að vera feitur, og kannski er þetta að selja ekki íþróttaföt í stórum stærðum sama taktíkin til að smána fólk til að reyna að grenna sig en sjálf veit ég að það virkar bara ekki. Ef smán og fyrirlitning virkaði þá værum við öll þvengmjó, það vita það allir. Nei, væri ekki nær að passa einmitt að bestu og flottustu íþróttafötin séu seld í stærstu stærðunum til að einmitt hvetja feitasta fólkið til að taka þátt? Það er nú víst nógu erfitt að drífa sig út í hreyfingu þó maður þurfi ekki  líka alltaf að vera í götóttum leggings og svefnbol af manninum sínum? 

Ég gúgglaði og það eru nokkur fyrirtæki sem auglýsa að þau framleiði og selji í stærðum, en meira að segja þau stoppa nokkurn vegin við 18 og nota sérstöðuna til að rukka helmingi meira fyrir. Sem er nú varla réttlátt.

Svo er reyndar möguleiki að ég hafi misskilið þetta alltsaman og það sé rétt og gott að ég troði mér í spandex þremur númerum of lítið svona svo aðrir geti séð alla dýrðina nánast óvarða og notað sem forvörn og hvatningu?