sunnudagur, 18. október 2015

Af gleri

Ekkert gerir mig hamingjusamari en dót. Ég hef fyrir löngu síðan gert sátt við sjálfa mig um allar ahyggjur af því að vera lágkúrulegur plebbi út af þessu og bara held áfram að elska dót. Ég er alveg nógu spiritúalísk að öðru leyti til að mega elska drasl. Þannig er ég búin að vera alveg róleg, hundrað prósent sátt og hef ekki fundið fyrir nokkurri löngun í nammidrasl um helgina af því að ég gat farið inn á baðherbergi öðruhvoru og stunið af ánægju yfir nýju Orla Kiely handklæðunum mínum. Bara það að sjá glitta í staflann þegar ég labbaði framhjá var nóg til að fylla mig stóískri ró og sátt við gvuð og menn.

Sama gildir um hvernig ég ber mat fram. Ég verð hamingjusöm þegar ég set súpu í fallegar skálar. Kaffibolli sem ég helli í úr koparþrýstikönnunni minni er betri en kaffibolli á fínasta artisan kaffihúsi. Bökuð egg í litlu járn Le Creuset pottunum mínum láta hjarta mitt syngja. Þegar ég er með Marimekko servíettur á borðinu bragðast maturinn betur. Já, hann gerir það. Og ég þarf minna af honum. Þetta kemur aftur að þessum mun á ást og misnotkun. Ást mín a mat og svo þegar ég misnota hann felst í hvernig ég ber hann fram. 

Þetta nær meira að segja til vatnsins sem ég drekk. Í vinnunni er watercooler, þannig að ég fylli bara á hálfslítra flösku nokkrum sinnum yfir daginn og það er fínt. Hér heima gleymi ég að drekka vatn. Þangað til ég mundi eftir hvað ég elska dót. Og að matur sem er borinn fram í fallegu dóti er betri. Og að drykkur úr glerflösku er bestur allra. Trillaði mér út í Waitrose og keypti eina glerflösku af sódavatni. Og fylli svo á hana úr 17 pence plastflösku úr ASDA. 

Ég er búin að drekka sex lítra um helgina.

Engin ummæli: