Enn léttist ég; 800 grömm í þessari viku sem þykir gott á meðal okkar sem höfum fyrri reynslu af því að léttast. Mér líður alveg rosalega vel. Ég hef alveg haldið því við að telja bara hitaeiningar og er ekkert að hafa miklar áhyggjur af neinu. Ég bý til graut úr quinoa flögum af því að mér finnst gaman að smakka nýtt, ekki vegna þess að ég er að elta trend eða maukast við að forðast kolvetni. Ég set rjóma út á skyr og nýt í botn. Vigta það bara. Já, mér líður vel. Ég er alltaf að venjast betur við þessa hugmynd að ég sé ekki óargadýr og að ég sé hæf til að stjórna magni. Það eru núna komnar þrjár helgar þar sem ég haga mér eins og manneskja. Ekkert binge, ekkert vesen, bara gleði. Það verður alltaf meira og meira virði að vakna hrein og slétt á mánudagsmorgni. Ekkert samviskubit, engin ógleði, engin heitfengin loforð um að standa mig héðan í frá. Nei, bara þessi yndislega tilfinning að ég sé í beinum tengslum við líkama minn. Ég finn hvernig ég sléttist og hvernig ég hreinsast einhvernvegin. Húðin skýrist og neglur vaxa og allt er auðveldara einhvernvegin. Svona eins og maður sé meira lifandi. Þetta er skrýtið af því að öfugt við það sem maður gæti haldið þá tengist ég betur við líkama minn þegar mér líður vel. Þegar ég er þung og ómöguleg aftengist ég alveg, svona eins og til að reyna að verða fyrir minni áhrifum. Erfitt að útskýra.
Þessi sannfæring mín um að það sé gott að hugsa um mat, elda hann og njóta hefur fengið mig til,að halda áfram að vera forvitin um nýjungar. Ég eignaðist um daginn svona tagine pott, til að elda rétti frá mið-austurlöndum. Eitt af því sem gerir það sérstaka bragð eru súrsaðar (preserved) sítrónur. Maður fattar ekki alltaf hvað það er sem gerir þetta "rétta" bragð, en ég er sannfærð um að sítrónurnar séu það sem gerir kjúklinga tagine-ið mitt "authentic". Og góður skammtur með kúskús fyrir 500 hitaeiningar! Ekki kvarta ég yfir því.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli