Það gæti falið í sér vandamál fyrir mig að tilkynna hér svona opinberlega hvað ég er þung. Lesendur fylgjast með og ég gæti opnað fyrir allskonar gagnrýni á mig og hvað ég er að gera, rétt og rangt. Og eins gaman og það er að fá tölvupósta sem hrósa eða biðja um ráðleggingar þá er það gífurlega sárt að fá pósta sem rífa mann niður.
Fyrir mér er þetta margþætt. Í fyrsta lagi er þetta eins og að segja Voldemort. Að hvísla nafnið eða breyta því gefur honum meiri áhrifavald. Ef ég segi óhikað upphátt hvað ég er þung tek ég aftur völdin í mínar hendur. Ég er ekki hrædd við vigtina og hún stjórnar svo sannarlega ekki tilfinningalífinu mínu. Þetta er tala sem segir mér hvað ég veg, ekki hvers virði ég er sem manneskja. Í öðru lagi er mikilvægt fyrir mig að vigta mig til að gera rannsóknir. Ég get fylgst með hvað gerist þegar ég minnka kolvetni eða drekk meira vatn eða prófa að borða mikið á morgnana og lítið á kvöldin eða fasta eða hvað sem mér dettur í hug að rannsaka. Aðalmálið er samt að segja sannleikann. Fyrir mér er enn alveg gífurlegur léttir sem felst í að fela mig ekki. Um leið og ég hætti að ljúga, um hvað ég borða, um hvað ég er þung, um hvernig mér líður, byrjaði þetta allt að smella saman. Ég er enn, eftir öll þessi ár og öll þessi kíló farin og komin og farin og komin, sannfærð um að þetta snýst algerlega um að hætta að ljúga að sjálfum sér.
Fyrir mér skiptir vigtin máli. Þegar ég hætti að vigta mig eða þegar ég byrja að ljúga er eins og ég sé að segja að það skipti ekki máli hvað ég geri, að ég skipti ekki máli. Og það er bara ekki rétt. Ég skipti heilmiklu máli.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli