laugardagur, 7. nóvember 2015

Af fenginni reynslu

Laugardagurinn var svona smávegis reynslupróf. Ég vissi á föstudagskvöld að ég myndi ekki léttast neitt, ég bara þekki líkama minn og fann að vikan hafði ekki skilað af sér neinum breytingum. Ég velti þessu aðeins fyrir mér áður en ég fór á vigtina því ég veit líka hvernig ég hef brugðist við áður þegar vigtin hefur ekki sýnt það sem ég vonaðist eftir. Ég minnti sjálfa mig á að svona er þetta bara, sumar vikur bregst líkaminn vísundunum, jah eða þá að vísindin bregðist líkamanum og útreiknaður hitaeiningamissir skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að fórna ekki höndum og segja að ekkert virki og éta á sig gat. Ég þurfti sérstaklega að minna mig á þetta af því að það var sko ærið tækifæri til að sleppa sér. Lúkas minn varð 12 ára og bauð vinum í pizzu-og kökuveislu á föstudagskvöldið og svo var hann búinn að biðja um að fara með frænda sinn í keilu og á McDónas á laugardeginum. Ég var því með pizzu og köku og McFlurry allt við fingurgómana. 
Og það var eins og ég vissi, ég var enn 103.7. Ég fór yfir í huganum hvað ég hafði gert í vikunni. Eg hélt mig innan marka alla vikuna, hjólaði rúma 90 km og labbaði smávegis. Ég hafði reyndar eytt hitaeiningunum mínum í brauð og smá kex og örlítið af súkkulaði. Og þó ég sé 100% sannfærð um að allt þetta eigi rétt á sér í mataræði í fullu jafnvægi þá er ég líka viss um að það fari mér betur að huga betur að næringarefnunum. Epli með smá hnetusmjöri hefur sömu hitaeingarnar og tvær litlar kexkökur en veitir svo miklu lengri fyllingu og vellíðan í sál og líkama. Ég yppti því öxlum, gerði gróft plan í huganum fyrir matseðil í næst viku sem hallar aðeins meira að hollustu og ákvað að meira þyrfti ég ekki að velta þessu fyrir mér.
Og með það fékk ég mér litla sneið af afmælisköku, taldi hitaeiningarnar og hélt svo mína leið.

Engin ummæli: