sunnudagur, 15. nóvember 2015

Af meðalhófi

Það virðist hafa virkað peppræðan sem ég hélt yfir sjálfri mér um síðustu helgi, peppræðan og svo kannski líka að ég er að gera þetta allt núna í slagtogi með öðrum. Ég og ný vinkona hittumst á netinu og höldum hvorri annari við verkið. Við settum niður markmið og mitt fyrsta var á dagsetningu í gær. Ég hafði einsett mér að vera 103 kíló 14. nóvember og tókst það, var 102.5 og þarmeð 1.2 kíló í viðbót farin. Ég er ósköp glöð yfir þessu öllu saman, mest hvað ég var sniðug að taka rétt á málunum um síðustu helgi þegar ég léttist ekkert. Í stað þess að troða í mig í reiði og vonbrigðum hélt ég bara mínu striki og það gaf af sér núna. Núna á ég inni lúxus klippingu í verðlaun og get glöð unnið að næsta markmiði; 99.9 19.desember.

Og til að ná því markmiði er tilvalið að hafa gaman. Ég hafði fundið "spaghetti squash" í Waitrose á föstudaginn, eitthvað sem ég var búin að sjá í uppskriftum frá ameríku í langan tíma en aldrei fundið hér í Bretlandi. Þetta er grasker, svipað butternutsquash, nema að involsið er í löngum ræmum sem minnir á spaghetti. Og  þó auðvitað komi svo sem ekkert í staðinn fyrir alvöru spaghetti þá er ekkert að því að prófa nýtt, hafa gaman í eldhúsinu og spara sér hundruði hitaeininga. Graskerið er nánast bara trefjar og því fyllandi, meinhollt, hitaeiningasnautt og hjálpar til við meltinguna. Ég skar í tvennt, hreinsaði fræjin, saltaði aðeins og bakaði svo þartil mjúkt. Svo graflar maður innvolsið út og það kemur í löngum strimlum, tilbúið til notkunar. Frábært. 
 
Ég get samt enn ekki vel skilgreint hvað er að gerast. Ég segi að ég setji mér markmið og vinni að þeim en ef ég segi satt frá þá stend ég sjaldnast við innri markmiðin sem eiga að stuðla að stærri markmiðunum. Þannig segist ég alltaf ætla að gera magaæfingar þrisvar í viku. Þetta er eg búin að sega í sex vikur en hef enn ekki gert. Venjulega segir poppsálfræðin manni að það að setja og standa við míní markmið sé lausnin að því að ná stærri markmiðunum. En það virðist ekki skipta mig neinu máli. Ég tel hitaeiningar, og geri það af hreinskilni, ekkert þetta "hitaeiningar sem maður borðar standandi, eða í felum eða á sunnudögum telja ekki" kjaftæði. Nei, allt skráð og skjalfest. Sænsku kjötbollurnar og daimkakan sem ég borðaði í ikea á sunnudaginn, baguette úr hvítu hveiti og eplabakn sem ég gerði í gær. Allt talið og þegar 1800 hitaeiningum er náð er ég búin. Einfalt ekki satt? Hvern hefði grunað að það að borða aðeins minna virki til að grennast? Að það þurfi ekki að forðast öll kolvetni, skera út allan sykur, sleppa glúteni og raða einungis í sig kínóa, chia og goji berjum? Ég er bara orðin sannfærð um að allur öfgaskapur er af hinu vonda, alveg sama hvert maður horfir þá á bara að gæta meðalhófs. 
Svo er líka nauðsynlegt að kitla bragðlaukana eins og með þessari eplaböku sem ég bauð í eftirrétt í gær. Epli flysjað og skorið í helming og svo fínskorið þvert eins og Hasselbäck kartöflur. Burstað með bræddu smjöri, kanil og sukrin púðursykri. Bakað í korter. Mylja svo saman 3 mtsk höfrum, mtsk sukrin og 20 g af frosnu smjöri. Ná í eðlið, mylja hafrablönduna yfir og baka í aðrar 15 mínútur. Bera svo fram með slettu af rjóma og frosnum jógúrtís. Hitaeingar rétt um 200 sem er gott fyrir eftirrétt sem er svo fullnægjandi að ég gleymdi að borða daimið mitt! 

2 ummæli:

Ella sagði...

Ótrúlegt að eitthvað sem manni finnst vera svona flókið sé í raun alveg svona einfalt (orka inn-orka út=niðurstaða), er samt ekki komin alveg svo langt að vera búin að fatta það ennþá. Ertu að nota eitthvað app til að fylgjast með hitaeiningunum ?

Kveðjur af klakanum þar sem ekki fæst svona sniðugt spagetti squash að því að ég best veit.

murta sagði...

Dave notar fitbit og my fitness pal af trúarofstæki, en ég er bara með litla bók og skrái allt niður. Mér finnst það lítið mál. Dave er með meiri upplýsingar um skiptingu næringarefna, en það tekur hann líka alltaf smá tíma að skrá allt. Ég er með grófa hugmynd um hvað ég er að borða af kolvetnum, prótín og fitu og hitaeiningar kann ég utan að þannig að litla bókin mín dugar mér :)