sunnudagur, 24. janúar 2016

Af heilindum

Ég fæ ennþá þónokkuð af tölvupósti frá fólk sem les bloggið mitt. Mér finnst það afskaplega gaman og reyni eftir bestu getu að svara spurningunum sem ég fæ. Ég held nú samt að mér hafi mistekist að svara aðal spurningunni; hvernig á ég að fara að því að ná tökum á spikinu? 
Ekki vegna þess að ég vilji ekki svara, eða að ég sé að halda "leyndarmálinu" fyrir sjálfa mig. Ekki vegna þess að svarið sé of langt eða flókið. Það er aðallega vegna þess að flestir vilja ekki heyra svarið og skilja ekki hvað ég reyni að segja. Ég hika líka við það af ótta við að hljóma hrokafull eða sjálfbirgingsleg. Ég ætla samt að láta á reyna hér og setja niður að hverju ég hef komist.

Það hefur tekið mig mörg ár að komast niður á að sannleikur er svarið. Andartakið þar sem maður hættir að ljúga og öðlast alvöru sjálfsmeðvitund er andartakið sem hægt er að byrja að vinna í breytingum af alvöru.

Ertu búin að "standa þig vel" alla vikuna? Ertu búin að vera "rosalega dugleg"? Ertu búin að afþakka köku í vinnunni? Ertu búin að fara í göngutúr? Og léttist samt ekki? Nú, þá ertu að ljúga. Aðallega að sjálfri þér, en lygi er það engu að síður. Þetta er mjög einfalt.

Ertu búin að skilgreina hvað það þýðir að standa sig vel? Er það huglægt, óskilgreint mat sem felur í sér að borða "hollt"  en gerir ekki neitt ráð fyrir að hollustan inniheldur hnetur og dökkt súkkulaði og kókósrjóma og döðlur og avókadó og allt holla dótið sem er hlaðið hitaeiningum? Ókei, hitaeiningar eru ekki skapaðar jafnar en þegar maður er komin upp í 3000 af þeim yfir daginn skiptir litlu hvort það var með BigMac eða hrárri kasjúhnetukókósolíuhrásúkkulaðihnetubombuköku. Hér er kjörið að hætta að ljúga og taka magnið saman af alvöru. 10 grömm, 10 grömm! af hnetum eru að meðaltali 60 hitaeiningar. Hnetur eða fræ sem maður stráir hugsunarlaust yfir meinhollann hafragrautinn eru oftast um 30 grömm. Það eru 180 hitaeiningar sem maður taldi eflaust ekki með. Númer eitt er þannig að skilgreina hvað er að standa sig vel og gera það svo í alvörunni.

Hvað er það að vera dugleg? Að afþakka köku í vinnunni en raða svo kexpakka í sig í einrúmi heima? Þá hefði verið betra að njóta kökunnar með vinnufélögunum frekar en að lifa með laumuátsskömminni. Þetta var minn akkilesarhæll árum saman. Að halda því blákalt fram að "ég borða ekki svo mikið!" Jú, fyrir framan aðra. Í einrúmi hinsvegar raðaði ég í mig af einurð, skipulagi og festu. Eitt það erfiðasta sem ég hef nokkrum sinnum gert að sýna Dave tóman kexpakkann í ruslinu. Ég þarf enn, eftir 7 ár, að passa mig að fela ekki pakkningar sem ég dæmi sem óhollar undir öðru rusli. Ég þurfti að æfa mig í að borða af ánægju fyrir framan fólk. Og það var heilmikið mál. En það var líka algerlega lausnin að þessu. Fyrsta skrefið að frelsi er að hætta að ljúga. Skýlaust. Allt, allt sem maður gerir í einrúmi, í skömm, allt þarf að draga fram og viðurkenna.

Þegar maður öðlast þessa sjálfsmeðvitund er svo næsta skref að vinna með sannleikanum. Sjálf geri ég það hér og svo með nokkrum öðrum tækjum og tólum. Ég held nokkuð nákvæma dagbók yfir hvað ég borða. Það tók mig langan tíma að þjálfa mig upp í að skrifa allt niður. Ef það er ekki skrifað niður gerðist það ekki gengur náttúrulega ekki upp í heimi sannleikans. Ég skrifa líka niður alla hreyfingu. Þannig veit ég hversu þungu ég lyfti í síðust viku eða hversu langt ég hjólaði og get bætt aðeins við í næstu viku. Ég hripa líka hjá mér hversu vel ég tók á. Af algerum sannleika gef ég mér % af ákefð. Lagði ég í alvörunni allt mitt í æfinguna? Ef svarið er nei þá veit ég það. Og geri betur næst.

Ég held líka heilindaskrá. Heilindaskráin er eitthvað sem ég reyni að gera reglulega. Þar skora ég á sjálfa mig til að koma með sönnun fyrir því sem ég held fram að ég sé að gera. Ég segist vera að borða hollt? Sannaðu það. 

Þessi sjálfsmeðvitund er algert lykilatriði að velgengni. Ef þú veist ekki hvað þú ert að gera þá geturðu ekki breytt neinu. Um leið og þú hættir að ljúga og mælir hegðun, hugsun og gjörðir í einhvern tíma getur sett baseline fyrir góða hegðun. Án sjálfsmeðvitundar og mælinga er ekki hægt að setja markmið, þú veist ekki hver raunveruleikinn er.


3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég elska bloggið þitt og get samsamað mig mörgu af því sem þú skrifar um.
Ég hef þó ekki alltaf verið "fitubolla"...það var ekki fyrr en um 20 ára sem það fór að gerast eftir að lífið fór að krefjast meira af mér og nokkur "trauma" sem voru samt kannski ekkert stærri en aðrir hafa gengið í gegnum þvengmjóir.

14 árum seinna er ég enn að leita að lausninni...og nota sömu aðferðir og þú lýsir hér að ofan eins og er. Oft auðvelt en svo koma græðgisöldurnar yfir mig þegar ég er þreytt, stressuð eða í aðstæðum sem mér finnst ég ekki ráða við.

Þú ert kúl :)

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þennan pistil! Spot on eins og svo oft áður :)
Ég þarf að taka þetta til mín, ég er enn að ljúga :(

murta sagði...

Gott að heyra að röflið í mér gleðji :)