sunnudagur, 28. febrúar 2016

Af eigin styrk



Ég fór á lyftinganámskeiðið mitt í gær. Það var alveg frábært, við fórum yfir þessar grunnhreyfingar, squat og deadlift og fórum alveg í gegnum hárrétt form þar á. Við reiknuðum líka út max þyngd í hvorri æfingu þannig að ég var alveg í essinu mínu að lyfta eins þungu og mögulegt var. Ég ræð ekkert við mig, æsist öll upp í að sýna mig. Hoppa um og heimta high five eftir hverja lyftu. Mér finnst þetta bara svo rosalega gaman og það er svo skemmtilegt að eyða tíma með fólki sem hefur svona gífurlegan áhuga á því sem það er að gera. Ég er líka nokkuð viss um að gleðin og áhuginn sem ég sýni þjálfurunum efli þá í að gera sitt starf skemmtilegra og áhugaverðara. Það fékk mig svo mikið til að hugsa um hvað maður eyðir tíma sínum í. Eftir því sem maður eldist verður tími hreinlega dýrmætari og dýrmætari. Og það er svo mikilvægt að það sem maður gerir auki verðmæti lífsins á einhvern hátt. Sé ´value added´ eins og við segjum í bankageiranum. En ég sjálf er ekki að tala um peninga. Ég er að tala um að bæta verðmætum við hvernig manni líður, hvernig maður tekur á verkefnum. Þannig sé ég það sem vel völdum tíma í morgun að búa til grunnefni fyrir spennandi yfirnótthafra fyrir vikuna. Ég blandaði þurrefnum í tvo skammta af gulrótaköku og tvo skammta af möndlunammi. Þarf núna bara að hella mjólk og jógúrt út í að kveldi til og á svo djúsí 265 hitaeiningar og 24 grömm af próteini í morgunmat alla vikuna. Og þarf ekkert frekar að hugsa um það. Mér þykir líka tíma vel varið í ræktinni þar sem tæpur klukkutími að morgni til lætur mér líða eins og ég sé sterk og stinn og falleg og geti tekist á við hvaða verkefni sem er það sem eftir lifir dags. Mér finnst líka gaman að lesa og rannsaka og mér finnst afskaplega gaman að hlusta á heimildaþætti í útvarpinu. Ég er podcastjunkie. En ég sanka að mér svo miklum upplýsingum að tíma mínum er vel varið í að hlusta og lesa. Mér finnst líka mikilvægt að einbeita mér að því sem ég er flínk við að gera nú þegar. Ég er ekki alveg sannfærð um ágæti þess að stanslaust standa í að skora á sig að gera eitthvað sem maður gerir illa eða er hræddur við. Þannig er minn styrkur falinn í skipulagi. Ég sé því ekkert að því að ég haldi áfram að einbeita mér að því að skipuleggja mig. Ég skil að það gæti verið áhugavert fyrir mig að fara út fyrir comfort zone og lifa við skipulagsleysi öðruhvoru en svona að meginupplagi hlýtur að vera betra fyrir mig að einbeita mér einfaldlega að því að styrkja enn frekar það sem ég geri nú þegar allra allra best. 
Tíma mínum er vel varið í að spekúlera í spiki. Fátt hefur gefið mér meira en þetta ferli mitt að skoða spik frá öllum sjónarhornum. Og það veitir mér endalausa gleði að finna fyrir forvitni á hverjum morgni. Hvað ætli ég uppgötvi í dag?
Ég er núna 95.8 kíló, tæpum 10 kílóum frá mínu léttasta. Ég tók varla eftir þessu sjálf, hvorki að verða aftur 110 né þessu að skyndilega vera komin vel undir hundrað. En það breytir því ekki að hver dagur er búinn að fela í sér einhvern lærdóm og einhverja gleði. 

fimmtudagur, 25. febrúar 2016

Af stærsta lúsernum

Ég hef lengi haft ýmugust á sjónvarpsefninu The biggest loser. Af margvíslegum ástæðum; þátturinn er mannskemmandi, nútíma PT Barnum fríksjóv, notar skaðlegar ef ekki beinlega hættulegar aðferðir til fitutaps, lífslexíurnar eru einstaklega grunnhyggnar og hann elur á sjálfshatri í ofanálag við að skilja við keppendur með verri þekkingu en áður og undantekningalaus bæta þau öllu og meira á sig á innan við ári eftir að keppni lýkur. Staðreynd. Upprunalegir þjálfarar, Jillian Michaels og Bob Harper hafa bæði gagnrýnt forsendur þáttarins opinberlega. Ég varð því afskaplega sorgmædd þegar ég gerði mér grein fyrir að Ísland væri með þetta rugl í sjónvarpinu líka. En þegar ég gerði mér grein fyrir að annar þjálfarinn væri Evert Víglundsson var mér allri lokið. 
Fyrir all nokkuð mörgum árum leigði ég íbúð í Vesturbænum með tveimur kærum vinkonum. Ég var á fyrsta ári í háskólanum og var einstaklega kát. Við brölluðum heilmikið saman, áttum stóran hóp vina og það var mikið stuð og skemmtan í kringum okkur. Ég var heldur bosmamikil á þessum tíma, hef sjálfsagt verið um 120 kíló en get ekki sagt fyrir víst því ég vigtaði mig ekki á þessum árum. Það stöðvaði mig þó ekki í að skemmta mér og ég man ekki eftir að hafa haldið aftur af mér fyrir þær sakir að vera hlussa. 
Einhverju sinni sem oftar héldum við partý og sameiginleg vinkona kom með Evert með sér. Hann og vinur sem hann kom með voru báðir boðnir hjartanlega velkomnir eins og aðrir, more the merrier var fílósófían. Og ég hressust allra. Þegar á kvöldið leið fór ég inn í herbergið mitt til að ná í eitthvað þegar ég fann þar fyrir Evert og vin hans þar sem þeir voru að fara í gegnum fötin mín og hlógu sig máttausa að sirkústjöldunum. Og þegar ég spurði hver andskotinn gengi á fékk ég að heyra fullum hálsi hversu viðbjóðsleg ég væri, að ég væri meinsemd í augum hans og þjóðfélagsins og það eitt að horfa á mig fengi hann til að kúgast. Honum og viðhlæjanda var vísað úr partýinu en ég verð að viðurkenna að ég átti erfitt með að ná upp stuðinu aftur. Þetta viðhorf særði óneitanlega. 
Ég er að vona að Evert hafi lært samúð, skilning, eða hvernig á að taka feitu fólki eins og það er; fólk. En ég er líka hrædd um að þegar maður er rotinn í gegn gerist ekkert nema eins og úldið epli í ávaxtaskál þá mengar maður út frá sér og allt í kringum sig. Ég get ekki hugsað annað en að feita fólkið sem er hjá honum í Biggest loser sé kennt að hata sjálft sig, að það sé viðbjóður og að það sé enginn valmöguleiki nema megrun eða dauði. Mér finnst það að láta þennan mann fá feitt fólk í þjálfun sé svipað og að senda nasista til að kenna í  barnaskóla í Jerúsalem. 

Ja hérna hér, rúm tuttugu ár liðin og ég finn þegar ég skrifa þetta hvernig ég verð reiðari og sorgmæddari við hvert orð. Orð hafa meiningu og þau bera ábyrgð. Ætli Evert muni þennan atburð jafn skýrt og ég? Og ætli að hann vegi og meti orðin sem hann notar við skjólstæðinga sína núna? 
Ég er búin að læra mjög mikið þessi ár sem hafa liðið síðan að þetta gerðist. Og oftast er ég fær um að nýta lífsreynsluna og lexíurnar til að koma að niðurstöðu eða úrlausn sem er ígrunduð og byggir á reynslu, samúð og kærleika í átt að samferðafólki mínu. En eitthvað við þennan atburð gerir það að verkum að allt það sem ég hef lært, allt það sem ég hef upplifað og allt það sem ég veit þurrkast út og ég verð bara aftur feita stelpan sem var niðurlægð af gegnumrotnum tussusnúði í partýi. Feita stelpan sem þurfti að taka á öllu sínu til að trúa ekki því sem drullusokkurinn sagði henni. 

Ég verð bara að vona að Evert hafi lært meira en ég og að honum hafi tekist að finna samúð og samkennd með öllu fólki, meira segja þeim sem eru ógeðslega feitir.

sunnudagur, 21. febrúar 2016

Af (starfsmanni á) plani

Þetta var vika þar sem allt small saman. Þar sem hvatning (motivation) og rósroðinn hvarf og ég gat loksins farið að setja þetta allt upp sem eðlilegt, daglegt líf. Ég hjólaði í ræktina og lyfti eins þungu og ég get fjórum sinnum í vikunni. Ég borðaði að meðaltali rúmar 1700 hitaeiningar yfir daginn. Og ég léttist um 1.2 kíló. 
Það er náttúrulega gaman að hugsa til þess að fyrir tveimur vikum kvaldi ég og grætti sjálfa mig með að borða 1200 hitaeiningar yfir daginn og þéttu cardio æfinga prógrammi og léttist um skitin 300 grömm. Síðustu tvær hef ég svo borðað almennilega og sleppt öllu hoppi og léttist um rúmt kíló.

Planið er einfalt og skiptist í tvo daga á efri hluta líkamans og tvo á þann neðri, í fjögurra vikna hlutum. Í þessar fjórar vikur vinn ég að því að þyngja lóðin og svo færist ég yfir á næsta fjögurra vikna hluta með nýjum æfingum.
Ég nenni alls ekki að nota fín mælitæki, ég skrifa bara allt niður og er svo bara með litlu biflíuna mína með mér hvert sem ég fer. Í henni er æfingaprógrammi, neysla dagsins, vikuplan fram á við og hugleiðingar. 
Ég er alveg rugluð í ríminu hvað tungumál varðar, veit stundum ekki hvort ég er að hugsa á íslensku eða ensku. 

Það má vera að það hljómi skringilega þegar ég segi að ég sé fegin að vera laus við hvatningu. Ég verð að reyna að útskýra hvað ég á við. Hvatning er nefnilega eitthvað sem hverfur og manneskjur hafa bara visst mikið af viljastyrk/hvatningu. Og vandamálið er að með að drag styrk frá ytri hvatningu og með viljastyrk þá rennur alltaf upp sá dagur þegar maður notar upp allan viljastyrk í að reyna að fá barnið til að bursta tennurnar og að reyna að komast í gegnum mistök í vinnunni. Þegar heim er komið er engin viljastyrkur eða hvatning eftir til að rjúka í ræktina eða hvað þá til að elda kínóagrænkálsmisosúpu. Hér er betra að vera á því stigi að planið er bara inngróið. Maturinn tilbúinn. Eða jafnvel að maður geri einfaldlega ráð fyrir dögum þar sem maður borðar ekki hollan mat eða í magni sem gott er. Gera ráð fyrir og move on, án þess að fremja sálfræðilegt harakiri og leggjast í niðurrif. 
Nei, viljastyrkur og hvatning eru jafn gagnleg og uppblásið píluspjald. Það sem er gagnlegt er skipulag, og vilji til að læra, og forvitni um allt nýtt og að hafa smá ævintýraþrá í að prófa sig áfram.

Hér er hádegismatur og morgunmatur tilbúinn fyrir vikuna. Ásamt því að setjast niður og plana smávegis tók þetta mig tæpan klukkutíma. Ég er líka búin að elda tvær máltíðir sem ég get geymt og hent til í vikunni þegar ég er þreytt eða ef ég er lengi í vinnunni eða eitthvað kemur upp á. 
Ég geri mér grein fyrir hvað ég hljóma hrokafull. En ég bara get ekki beðist afsökunar á því af því að þetta virkar. Af öllu sem ég er búin að prófa í gegnum árin, megrun, lífstíll, kolvetnaleysi, sykurleysi, fituleysi, hreint fæði, bann á nammi, atkins, scarsdale, danski... Ekkert virkar jafnvel og að vera skipulögð, gera ráð fyrir mistökum, og að halda forvitni og lærdómsþorsta.   

sunnudagur, 14. febrúar 2016

Af hné

Þegar ég var 17 ára eða svo fór ég sem skiptinemi til Bandaríkjanna. Svo sem ekki í frásögur færandi nema kannski til að segja að það voru sennilega ein af stærri mistökum sem ég hef nokkurn tíman gert og að það var þar sem ég skemmdi á mér hnén. Ég var í stærri kantinum þegar ég lagði af stað og það bætti svo ekki úr skák að ég endaði í Leroy, Michigan, þar sem ég hafði lítið annað fyrir stafni en að éta. Og hafði lítið fyrir að bæta á mig um 30 kílóum á rúmum 7 mánuðum. Ekkert mál. Eitt af því fáa sem ég þó gerði var að á miðvikudagskvöldum fór ´systir´ mín á kúrekabar í nærliggjandi bæ og dansaði square dance. Yee fucking haw. Allavega, ég fór með af því að það var bara ekki neitt annað að gera. Og það var þar, í miðjum keðjudansi þar sem eitthvað þoldi ekki þungann og álagið og liðþófi ákvað að gefa sig. Ég man ég snarstoppaði og leit í kringum mig af því ég hélt í alvörunnin að einhver hafði sparkað í mig. Eftir þetta átti ég sí erfiðara með gang. Kom heim með fragtflugi með niðurlút og ónýtt hné. Það liðu svo tvö ár þangað til ég fór í uppskurð og liðþófakurlið var allt tekið. Stuttu síðar sprakk hitt hnéð og ég fór í seinni aðgerð. Mér leið betur eftir það. Áður kom það oft fyrir að hnén misgengu þannig að ég bólgnaði svo upp að ég gat ekki gengið í nokkra daga, var bara lömuð. Það hætti allavega. En sársaukinn sem ég er búin að lifa með síðan er eiginlega ólýsanlegur. Og sljákkar bara við að léttast. Ekki alveg en því léttari sem ég er því minni verkur. 
Svona er þetta bara, eitt af því sem ég gerði sjálfri mér með átinu. 
Hnén eru síðan það sem varna mér frá hreyfingu, ég þurfti að hætta að hlaupa, ég get ekki labbað lengi og ég get ekki beygt mig ´ass to grass´ eins og þeir segja um hnébeygjur. Eða svo hélt ég. Ég er núna búin að fá þær upplýsingar að ef ég losa um mjaðmir eigi ég að geta aukið liðleikann í hnébeygjum og komist lengar niður. Að ónýt hné séu ekki vandamálið. Ég er semsé með snarlæstar mjaðmir og er núna komin með prógramm sem miðar að því að mýkja og losa um mjaðmirnar og það allt til að verða flinkari að lyfta. 
Og ég komin með vigtarlaust markmið. 
Hér er ég í dag að gera goblet laust goblet squat. Rass fyrir ofan hné, bakið nánast lárétt og ég get haldið stöðunni í tæpa mínútu. Heldur betur ýmislegt til að vinna að. Ég tek mynd núna á mánaðarfresti og ber saman til að sjá árangur. Spennandi!

Af forgangsröð


Ég stóð í stað í þessari viku. Ekkert sem kom mér á óvart, ég borðaði pönnukökur, bollur og pizzu síðasta sunnudag og lyfti síðan þungt fjórum sinnum í vikunni. Ekki það að ég haldi að ég sé svo mikið tröll að ein vika með lóðunum þýði svo svaðalegan áunninn vöðvamassa að ég sýni engan árangur á vigtinni. Mér þykir mun líklegra að bollurnar allar hafi einfaldlega þurrkað út alla hitaeiningaþurrð sem á eftir kom. Fitutap er leikur að tölum eins og allir ættu að vita. 
Lóðin hafa svo aldeilis kveikt í mér. Alla vikuna hoppa ég á fætur og rýk á hjólinu niður til Wrexham til að komast í ræktina. Það er bara ekkert betra en að líða eins og maður sé sterkur. Ég er líka aftur komin með þessa tilfinningu sem segir að mig langi svo til að vera hraust. Og með því kemur aftur upphífingadraumurinn. Það er þessvegna ekkert sem heitir, nú er markmiðið að geta gert upphífingu. Eins og ég sagði við Sam, þjálfarann á lyftinga námskeiðinu, lose 30 kilos of fat, gain 10 kilos of muscle and do some fucking pull ups!
Og það er ekki hægt að gera það án þess að vera með plan. Ég er með þetta allt á hreinu. 
Númer eitt eru hitaeiningarnar. Ef maður ætlar að brenna fitu þá er það er algerlega númer eitt að borða færri hitaeiningar en maður brennir. Mér er alveg sama hvað fólk kallar það og hvort það heldur því fram að það sé óþarfi að telja hitaeiningar, ef það er að léttast þá er það að borða færri hiteiningar en það brennir. Það er bara þannig. Ef maður er komin með hitaeiningarnar á hreint þá og fyrst þá er hægt að fara að hugsa um næsta atriði. Og fyrir mig er það prótein. Ég á að borða um 160 grömm af próteini á dag. TIl að gera það og halda mig við 17-1800 hitaeiningar fer nokkuð af skammtinum í próteinið. Um það bil 640 hitaeiningar í prótein. Afgangurinn skiptist svo í fitu og kolvetni. Þetta er ekki hægt að gera eða einu sinni hugsa um fyrr en maður er búinn að ná að skilja hitaeiningar. Og ég held að það sé svona lagað sem ruglar fólk svo í ríminu. Það heyrir um allskonar svona eitthvað og fríkar út af því að það skilur ekki hvað á að gera. Slaka á, skilja undirstöðuna (hitaeiningar) og byggja svo þar ofan á. Hvað erum við komin með? Hitaeiningar, prótein og svo má hugsa um kolvetni og fitu. Ekkert mál. Ef þú veist hvaða hitaeiningar þú átt að fá og svo hversu mikið prótein þá er restin kolvetni og fita. Eftir það myndi ég svo kannski fara að spá í smáatriðum eins og gæði hitaeininganna. En að mestu leyti myndi ég bara segja að reyna að borða óunninn mat 95% tímans og rúlla svo bara með stuðinu þegar það hentar. Allra síðast myndi ég svo reyna að pæla í tímasetningu. Hvenær ég borða hvað, fyrir og eftir æfingu, tíma dagsins fyrir hvað og svo framvegis. 
Eins og ég segi það er ekki hægt að vakna einn daginn með þetta allt saman á hreinu. Það sem skiptir máli er að ná fyrsta þrepinu í forgangsröðinni og byggja svo þar ofan á þegar maður er tilbúinn. 

miðvikudagur, 10. febrúar 2016

Þar small í gráfíkjunni

Ég hlustaði á sérlega skemmtilegan fyrirlestur á Radio 4 um heilsusamlegt líferni nú fyrir nokkru. Fyrirlesturinn þótti mér góður, sér í lagi fyrir þær sakir að ég, og fyrirlesarinn vorum sérstaklega sammála um nánast allt. Þetta heilsulíferni er allt orðið svo flókið og ruglingslegt fyrir utan að fylgja hinum og þessum tískustraumum í ofanálag við að heyra ráðleggingar sem stangast stöðugt á. Það er bara ekki fyrir venjulegt fólk að hafa við því hvað má og hvað má ekki gera hvað mat og hreyfingu varðar nú til dags. Þess vegna er bara best að hlusta ekki á neinn nema sjálfan sig og gera það bara sem hentar manni sjálfum best.  Hann lauk svo fyrirlestrinum á að útskýra hvað hann sæji sem markmiðið með að viðhalda góðri heilsu, hver skilgreining væri á að vera heilsuhraustur. ´´Þegar ég er 67 ára,´´ sagði hann, ´´vil ég enn getað dedúað vandlega við konuna mína. Ég vil horfa á konuna sem ég elska í eldhúsinu og segja við hana; Barbara, upp stigann með þig, ég ætla mér að eiga við þig á besta hátt.´´
Mér þótti þetta algerlega frábær skilgreining á hvað það er að vera heilsuhraustur og á sama tíma frábær innri ástæða til að viðhalda hreysti. Þegar maður spáir í því þá er gott kynlíf bara heilmikið góður stuðull til að mæla hvar maður er staddur hvað hreysti varðar. Það sýnir að maður er enn líkamlega hraustur og á sama tíma brennir það fullt af hitaeiningum þannig að það er upphafið og endirinn. Það er líka mælikvarði á andlega heilsu, á hvernig sambandi maður er í, hvað maður vill út úr lífinu. Þegar ég hugsa um það þá bara dettur mér ekkert í hug sem mér þykir áhugaverðara en að geta, og vilja, enn sofa hjá manninum mínum þegar ég er 67 ára. Að vera sæt, að passa í kjólinn, að geta setið á litlum stólum á barnaskólaleikritum, að geta hlaupið 10 kílómetra, að vera sársaukalaus, að geta spilað fótbolta við soninn. Allt þetta bliknar í samanburði við að vera nógu hraust og hress til að stunda kynlíf þegar ég er gömul. 
Það er aldeilis að það er upp á manni typpið. 

sunnudagur, 7. febrúar 2016

Af ástríðufullu fólki

Ég byrjaði í gær á fjögurra vikna lyftinganámskeiði. Næstu fjóra laugardaga hitti ég sérfræðing í lyftingum sem ætlar að fara yfir allt sem þungum lyftingum kemur, upphitun, næringu, formi og uppbyggingu sett, líffræði og hvað annað sem þarf að vita til að geta lyft þungu svo rétt sé og þannig að gagn sé að. Ég hef náttúrulega verið að lyfta í nokkurn tíma og veit eitt og annað en ég hef aldrei haft neinn sem getur sýnt mér nákvæmlega hvernig á að gera þetta og getur leiðrétt og kommentað á formið mitt. Mig vantar líka að fá smá sjálfstraust. Ef það er eitthvað sem er ógnvekjandi þá er það að labba inn í nýja rækt og að lóðasvæðinu og byrja að lyfta. Það er eitthvað sem ég get ekki gert án þess að vera búin að skoða svæðið vel og vandlega, finna út hvar allt er og hvernig allt virkar, finna út hvenær er minnst af öðru fólki og hver etikettan er hvað notkun lóða varðar. Um leið og allt þetta er komið er ég fljót að byrja að haga mér eins og ég sé heima hjá mér og get byrjað að rymja í testesterónfylltu gleðikasti.
Ég hafði séð fyrir mér að klára námskeiðið og byrja svo að lyfta af alvöru en ég fylltist svo miklum eldmóð við að fara á námskeiðið að ég er búin að ná í lyftingabiflíuna mína og er að skrifa niður prógrammið fír og flamme fyrir mánudagsmorgun. Það skiptir öllu að umkringja sjálfan sig með fólki sem er jákvætt og ástríðufullt um það sem það er að gera. Strákarnir tveir sem sjá um námskeiðið eru báðir þannig, uppfullir af ást á því sem þeir eru að gera og þrá ekkert heitar en að dreifa sem víðast ástinni á járninu. Þegar maður hefur svoleiðis fólk með sér er þetta allt saman auðveldara. Maður smitast af ákefðinni og jákvæðninni og getur ekki annað gert en að hrífast með og það er um að gera að nota það til að koma sér af stað. 
Bolludagur á morgun sem þýðir að langa fasta hefst svo þar á eftir. Er ekki alveg borðleggjandi að taka löngu föstu í þétt lyftingaprógramm fram að Páskadag?


föstudagur, 5. febrúar 2016

Af hálfvita

Ég lagði í ægilega tilraun í þessari viku. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir að tilraunin var kjánaskapur frá upphafi til enda en fór samt í málið. Kjánaprik sem ég og er. 
Ég hafði fyrir þó nokkru sett niður á blað nokkur markmið, og þar á meðal tímasetningar á ákveðnum kílóafjölda náð. Markmiðin voru sett niður þó nokkru fyrir jól og í fyrstu vímunni sem fylgir nýjum og ferskum megrunarkúr. Þar sem allt er mögulegt og allt er borðleggjandi og mánudagar eru bestu dagar vikunnar og allur sá pakki. Ýmis mistök voru gerð í markiðasetningunni og misalvarleg. Mér láðist til dæmis alveg að gera ráð fyrir jólunum. Þegar ég skoðaði svo planið í síðustu viku og sá að ég hafði sagt að ég ætlaði að vera orðin 95 kíló 5. febrúar, fór í gang eitthvert ægilegt keppniskap inni í mér. Vika til að léttast um 2.7 kíló? Hva! Með smá aga gæti ég það sko alveg! Þetta hugsaði ég þvert gegn öllu því sem ég sé og veit og skil og hef lært síðustu árin. 
Ég ákvað því að minnka hitaeiningaskammtinn niður í 1200 á dag og auka aðeins ákafann í hreyfingunni. Inni í mér kveinkaði skynsama Svava sem hefur gert þetta milljón sinnum áður og veit nákvæmlega afleiðingarnar, en keppnis Svava sagði henni nett að halda kjafti, í þetta sinnið myndi þetta sko virka. Ég er jú, margfaldur ólympíumeistari í megrun.
Ég reiknaði út að ég þyrfti að léttast um rúm 400 grömm á dag, sem væri geranlegt með því að brenna um það bil 3000 hitaeiningum yfir daginn. Ekkert mál! kvakaði keppnis Svava um leið og hún rak skynsömu Svövu roknarhögg á nefið svo úr blæddi og skynsemis Svava hljóp grenjandi í burtu. 
Mánudagur byrjaði á bodycombat af ægilegri ákefð eftir kröftugan hjólatúr í ræktina. Sama á þriðjudaginn, spin og magavöðvatími og allur matur af naumum skammti gefinn. Á miðvikudag var ég komin í svona heilagan trúarofsatrans. Ég hreinlega skil núna kaþólikka sem fá út úr því að berja sjálfa sig með svipu og lifa við eilíft samviskubit. Það er eitthvað ótrúlega fullnægjandi í sálinni að kvelja sjálfan sig fyrir æðri tilgang. Það er eitthvað fróandi við að vera betri en maður er í alvörunni.
Á fimmtudag vaknaði ég við drauma um rjómabollur og pönnukökur. Og eyddi deginum í hugaróra um allt það sem ég ætlaði að raða í mig á sunnudag. Frá sólarupprás til sólarlags hugsaði ég um mat. Og varð sorgmæddari og sorgmæddari. Í spin tímanum gat ég lítið lagt í, enda orðin orkulaus og sljó. Í vinnunni tók ég illa í uppástungur um að vinna verkefni aðeins öðruvísi og augun fylltust tárum. Á föstudag gat ég rétt svo tekið í hálftíma jóga. Hendurnar skulfu og sorgin farin að þrúga sálina. Ákvað að vigta mig til að peppa mig upp og það var eins og ég vissi; ég var búin að þyngjast um 400 grömm. 

Ég hef nefnilega gert þetta áður, þetta biggest loser kjaftæði. Og ég veit að það virkar ekki. Hversvegna geri ég það aftur? Það er ekki gott að segja. Þetta hefur eitthvað að gera með að setja sér markmið og standa við þau. Að sýna sjálfri mér að ég sé ekki viljalaus. Að ég sé sterk andlega. Að ég sé sko öngvinn vesalingur. Ég skýt sjálfa mig svo alltaf í fótinn og ég er með nógu mikla sjálfsvitund til að gera mér grein fyrir því. Og andlegi styrkurinn hverfur og ekkert situr eftir nema samviskubitið eftir veisluna sem svo óhjákvæmilega fylgir. Mig langar til að segja að ég sé búin að læra mína lexíu, en ég er bara ekki svo viss. Ég hef það á tilfinningunni að í þessu elífðarverkefni mínu komi alltaf svona dagar eða vikur þar sem skynsemi og sannleikur þurfi aðeins að víkja fyrir tímabundnu brjálæði. Kannski er það eðlilegt, kannski er það bara ég. 

Ég var svo 97.4 í morgun sem er opinberlegur vigtardagur. Hafði lést um 300 grömm þegar uppi var staðið. Ekki næstum 3 kíló eins og ég hafði séð í rósbaðaðri birtunni frá útsýninu sem ég hafði frá vonarhól í upphafi vikunnar. Á ég að segja að ég sé reynslunni ríkari? Sjálfsagt ekki, það er ekki eins og ég hafi ekki gert þetta áður. Ég verð bara að fyrirgefa sjálfri mér hálfvitaskapinn og halda svo áfram.